::: Voldumvej 80

laugardagur, febrúar 07, 2004  

::: Íslenska lagið vann!
Það var sungið, dansað og fagnað á Voldumvej í kvöld. Danir héldu nefnilega undankeppni sína fyrir Eurovision í kvöld með pompi og prakt. Og viti menn. Íslenska lagið vann! Þetta er sko engin lygi. Það var hinn hálfíslenski Thomas Thordarson sem söng sigurlagið "Sig det' løgn". Ekki nóg með að lagið sé íslenskt heldur er það sungið í sannkallaðri latin salsa-sveiflu sem þýðir að þegar búið verður að þýða textann yfir á ensku verður engin leið að átta sig á að þetta er framlag Dana til Eurovision.

Það kemur skemmtilega á óvart að Danir reyna ekkert að fela hvaðan Thomas á rætur sínar hálfar að rekja. Í kynningu var hann spurður um þetta (skrýtna) nafn Thordarson og stökk hann þá fram úr skápnum og viðurkenndi íslensku sína. Í frétt BT í kvöld segir einfaldlega: "Den 29-årige Tomas Thordarson med islandske rødder vandt i aften det danske Melodi Grand Prix. Sangen "Sig det er løgn" blev stemt ind på en suveræn 1. plads." Staðreyndin er að Thomas þessi er borinn og barnfæddur í Danmörku en faðir hans er alíslenskur. Þetta er hinn nýi Bertel Thorvaldsen. Nýlega kynntist Thomas íslenskum hálfbróður sínum í fyrsta sinn og segja fjölmiðlar að hálfbróðirinn hafi fylgst náið með keppninni frá Íslandi - enda hægt að horfa á danska ríkissjónvarpið á breiðvarpinu!

Við Sigurveig skemmtum okkur konunglega yfir söngvakeppninni meðan Sóley fór í innflutningspartý hjá einni í Rødovre-liðinu, en þar á eftir liggur leið hennar og íslenskra vinkvenna hennar hér úti á dansleik með Skímó, sem haldinn er eftir þorrablót Íslendingafélagsins.

Það skal nefnt hér í framhjáhlaupi að Sóley og co. töpuðu enn og aftur í dag, nú gegn einu af toppliðunum en Sóley lék mjög vel þær mínútur sem hún fékk.

Fyrir þá sem undrast bloggleysi síðustu viku þá eru engar skýringar á því. Alls engar. Maður hefði til dæmis getað gert upp EM í handbolta en það er of seint núna. Allt of seint.

posted by Thormundur | 22:56
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn