::: Voldumvej 80

laugardagur, febrúar 28, 2004  

::: Alein í bakaríið
Sigurveig fór í fyrsta sinn alein í búð í morgun - nánar tiltekið til bakarans og keypti eitt stykki brauð. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hún var stolt. Forsagan er sú að fyrr í vikunni komst hún að því að ein bekkjarsystir hennar fær stundum að labba heim úr skólanum. Síðan hefur hún ekki talað um annað og spurt hvort hún megi ekki líka. Enda þótt bekkjarsystirin búi rétt hjá er stór munur á leiðum þeirra, því Sigurveig þyrfti að fara yfir fjölfarna umferðargötu. Þetta kemur hins vegar ekki til greina að svo stöddu og því gerðum við samning við stelpuna. Hún fékk sem sagt að fara ein í bakaríið - snemma á laugardagsmorgni þegar umferðin er lítil.

Jú, mikið rétt. Sigurveig vaknaði óvenju snemma í morgun því hún var svo spennt. Þegar á hólminn var komið og hún var hálfnuð stíginn út úr íbúðahverfinu sagðist hún ekki þora. Ég hvatti hana áfram af svölunum meðan Sóley þóttist þurfa að fara í þvottahúsið en fór þess í stað upp á götu að fylgjast með bak við tré. (Fyrirgefðu, Sigurveig, ef þú lest þetta tíu árum síðar). Sigurveig safnaði kjarki og hélt áfram leið sinni í bakaríið. Ferðin gekk mjög vel og hún kom með nýtt, ilmandi brauð í morgunmatinn. Hún var afar stolt og fullvissaði okkur um að hún hefði fengið bæði afganginn og rétt brauð.

Nú er bara að vona að þessi málamiðlun haldi og að hún telji ferðina í bakaríið nægilega mikla áskorun í bili.

posted by Thormundur | 22:42
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn