::: Voldumvej 80

laugardagur, febrúar 28, 2004  

::: Alein í bakaríið
Sigurveig fór í fyrsta sinn alein í búð í morgun - nánar tiltekið til bakarans og keypti eitt stykki brauð. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hún var stolt. Forsagan er sú að fyrr í vikunni komst hún að því að ein bekkjarsystir hennar fær stundum að labba heim úr skólanum. Síðan hefur hún ekki talað um annað og spurt hvort hún megi ekki líka. Enda þótt bekkjarsystirin búi rétt hjá er stór munur á leiðum þeirra, því Sigurveig þyrfti að fara yfir fjölfarna umferðargötu. Þetta kemur hins vegar ekki til greina að svo stöddu og því gerðum við samning við stelpuna. Hún fékk sem sagt að fara ein í bakaríið - snemma á laugardagsmorgni þegar umferðin er lítil.

Jú, mikið rétt. Sigurveig vaknaði óvenju snemma í morgun því hún var svo spennt. Þegar á hólminn var komið og hún var hálfnuð stíginn út úr íbúðahverfinu sagðist hún ekki þora. Ég hvatti hana áfram af svölunum meðan Sóley þóttist þurfa að fara í þvottahúsið en fór þess í stað upp á götu að fylgjast með bak við tré. (Fyrirgefðu, Sigurveig, ef þú lest þetta tíu árum síðar). Sigurveig safnaði kjarki og hélt áfram leið sinni í bakaríið. Ferðin gekk mjög vel og hún kom með nýtt, ilmandi brauð í morgunmatinn. Hún var afar stolt og fullvissaði okkur um að hún hefði fengið bæði afganginn og rétt brauð.

Nú er bara að vona að þessi málamiðlun haldi og að hún telji ferðina í bakaríið nægilega mikla áskorun í bili.

posted by Thormundur | 22:42

mánudagur, febrúar 23, 2004  

::: Fullt í fréttum!
Það er sko búið að vera nóg að gera síðustu daga hjá okkur. Mamma hélt heim á leið í gær eftir frábæra heimsókn frá því á þriðjudaginn. Það þarf engan að undra að við höfðum það mjög gott og gerðum ýmislegt skemmtilegt. Veðrið var hreint og beint stórkostlegt alla dagana og vorum við því mikið á labbinu. Sigurveig fór með ömmu sinni í dýragarðinn á föstudaginn og þær skemmtu sér konunglega. Á laugardaginn löbbuðum við Löngulínu og heilsuðum upp á Hafmeyjuna, skunduðum Strikið og enduðum daginn á því að fá okkur heitt súkkulaði og "drømmekage" á Cafe Norden. Á milli þess sem við örkuðum um borgina höfðum við það notalegt hérna heima á Voldumvej og spjölluðum um allt og ekkert - sem sagt fullkomlega velheppnuð heimsókn. Elsku mamma, takk kærlega fyrir okkur.

Úr handboltanum eru góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru að við unnum leik - bikarleik á fimmtudaginn - en slæmu fréttirnar að við töpuðum deildarleik í gær. Ég verð nú að segja að ég er ekkert sérlega bjartsýn á framhaldið, þ.e. að við náum að lenda í einu af sjö efstu sætunum. En maður vonar auðvitað alltaf það besta. Ég spilaði allan bikarleikinn og gekk bara vel, spilaði svo 40 mín í gær og gekk ágætlega. Á sunnudaginn förum við til Odense. Þær eru í þriðja sæti - skrifa um afrek okkar í þeim leik þegar hann hefur verið spilaður. Þannig að krossleggið fingur!

Í gær og í dag er "fastelavn" í Danmörku. Litla heimasætan var vampýra - já þið lásuð rétt vampýra. Hún var hin glæsilegasta vampýra sem uppgötvaði fyrst eftir að búningurinn var keyptur að slíkar verur drykkju blóð! Við fórum í gær á skemmtun hér í nágrenninu til að slá köttinn úr tunnunni. Sigurveig fyllti auðvitað vasana af karamellum sem hrundu úr tunninni. Á eftir var bollukaffi og skemmtiatriði, og viti menn - Sigurveig vékk verðlaun fyrir flottasta búninginn. Hún var auðvitað alsæl þar sem hún fékk stóran nammipoka að launum og ekta bolluvönd. Að því loknu fór hún út að "rasle", þ.e. að ganga í hús, syngja og fá pening að launum. Afrakstur dagsins var 39 danskar krónur. Þær verða væntanlega notaðar í eitthvað sniðugt. Það var síðan haldið upp á fastelavn í skólanum í dag og var svakafjör. Bjarne kennari Sigurveigar var útbúinn sem ofurskvísan Bella, með sítt, ljóst, krullað hár og afar stóran barm. Þetta vakti auðvitað mikla lukku krakkanna sem skemmtu sér síðan vel það sem eftir var af deginum.

Nú er orðið bjart klukkan sjö á morgnana og dimmir fyrst um sexleytið á kvöldin. Þvílíkur munur, maður er tíu sinnum orkumeiri og langar alltaf að gera eitthvað skemmtilegt. Þó var smá snjóföl í morgun en hún var horfin þegar ég hjólaði heim.

Best að fara að sjóða ýsu í matinn handa fjölskyldunni. Mamma kom með nóg af fiski í frystinn og eru allir alsælir með það.

Að lokum, Sæmi frændi til hamingju með afmælið í dag!

posted by Soley | 18:48
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn