::: Voldumvej 80

sunnudagur, febrúar 29, 2004  

::: Glæsilegur sigur
Rødovre-píur komu sannarlega á óvart í kvöld með því að vinna eins marks sigur 26-27 á liðinu í þriðja sæti deildarinnar, Odense. Og í þokkabót vannst sigurinn á útivelli. Og hver tryggði sigurinn? Það gerði Sóley auðvitað! Í þetta sinn kom hún bara af bekknum í vítum en varði líka tvö vítaköst á lokakafla leiksins, hið fyrra þegar fjórar mínútur voru eftir og hið síðara þegar fjórar sekúndur lifðu af leiknum - og kom þannig í veg fyrir að Odense tækist að jafna. Húrra! Ég varð hreinlega að skrifa um þetta áður en Sóley kæmist í tölvuna. Það er alltaf smá hætta að hún gerist hógvær. En vonandi skrifar hún eitthvað meira um málið á næstunni!

Eins og lesendur síðunnar hafa getað fylgst með hefur liðinu gengið nánast allt í mót síðustu mánuði eftir góða byrjun - og svo einn sigur í bikarkeppninni um daginn. En þetta breyttist í kvöld. Og við þennan óvænta sigur eygir Rødovre að nýju litla von um að halda sér í deildinni eða komast í umspil en næstu leikir eru gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Maður leyfir sér þó bara að vera hóflega bjartsýnn því sóknarleikur liðsins hefur verið mjög brokkgengur í vetur.

Við Sigurveig fórum út að borða í kvöld og buðum vinkonum hennar, Michelle og Clöru, með. Ferðinni var heitið á McDonalds sem því miður er alltof nálægt okkur. Það var mikið fjör í boltalandinu en óvæntara var að lítið þurfti að reka á eftir matnum upp í þær. Til þess beitti maður mjög einfaldri taktík. Þær léku sér meðan ég var í biðröðinni en urðu síðan að klára matinn til að komast aftur í boltalandið og opna pokann með dótinu, sem fylgdi glöðu máltíðinni (Happy Meal). Þegar við komum heim fengum við svo þessar fínu fréttir af boltanum.

Til að fyrirbyggja misskilning förum við ekki alltaf á McDonalds þegar mamma er að keppa eða á æfingu. Gerum það bara til hátíðabrigða. Við Sigurveig eldum þess í stað fjölbreyttan mat þrisvar í viku meðan mamma er á æfingu. Eða eins og Sigurveig orðar það: "Er mamma á æfingu? Verður þá pasta í kvöldmatinn?"

posted by Thormundur | 23:17
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn