::: Voldumvej 80

föstudagur, mars 05, 2004  

::: Helgarfrí!
Loksins er komin helgi. Við Sigurveig erum búnar að vera einar hér á Voldumvej þar sem Þórmundur skrapp heim á frón á mánudaginn. En hann kemur aftur í hádeginu á morgun og verða án efa fagnaðarfundir. Ekki spillir fyrir að það er fríhelgi í boltanum þannig að þessu sinni er nægur tími fyrir fjölskylduna. Maður gæti nú alveg vanist þessum fríhelgum. :-)

Ég og Sigurveig vorum heima í dag þar sem sú stutta (styttri!) var hálflasin. Við gerðum okkur ýmislegt til skemmtunar nema hvað. Við spiluðum Mastermind óteljandi sinnum, lituðum barbiemyndir, reiknuðum sex blaðsíður í Einingu (stærðfræði fyrir 6 ára bekk), töluðum við Elísabetu frænku á msn-inu, bökuðum pönnukökur og spiluðum enn og aftur Mastermind svo eitthvað sé nefnt. Í kvöld "hyggede" við okkur svo yfir Endelig fredag sem er skemmtiþáttur í sjónvarpinu. Með honum poppuðum við og gæddum okkur á gúmmíi. Sigurveigu fannst það ekki leiðinlegt og sagði:"Mamma við skemmtum okkur svo rosalega vel!". Þarf ekki mikið til að gleðja lítið hjarta.

Núna eru þrír leikir eftir í deildarkeppninni hjá okkur Rødovre-píum. Við eigum víst fræðilega möguleika á að lenda í 6. sæti sem myndi tryggja okkur áframhaldandi veru í sameinaðri 1. deild. En til þess þarf sex stig úr þessum þremur leikjum. Síðasti leikur vannst auðvitað mjög óvænt - eiginmaður minn er búinn að segja svo skemmtilega frá honum, honum finnst ég auðvitað vera besti markmaður í heimi nema hvað! Nú er svo spurning hvort að sigurinn gefi liðinu aukið sjálfstraust í þá leiki sem eftir eru. En EINI kosturinn við að tapa eins oft og við höfum gert í vetur er sá að það verður svo svakalega gaman að vinna - og ekki spillir fyrir að það sé á móti einu af toppliðunum. Það er búið að draga í næstu umferð bikarkeppninnar. Við spilum á móti Hörpu Vífils og félögum í Ydun - sniðugt þar sem liðin eru farin að æfa saman einu sinni í viku (system sem greinilega er vinsælt í Danmörku). Við hefðum getað lent á móti Slagelse sem var reyndar mitt óskalið. Þar spila bestu handboltakonur heims og það hefði ekki verið leiðinlegt að fá að reyna að verja hjá þeim. En það verður víst að bíða betri tíma.

Ha' en rigtig god weekend!

posted by Soley | 23:30

sunnudagur, febrúar 29, 2004  

::: Glæsilegur sigur
Rødovre-píur komu sannarlega á óvart í kvöld með því að vinna eins marks sigur 26-27 á liðinu í þriðja sæti deildarinnar, Odense. Og í þokkabót vannst sigurinn á útivelli. Og hver tryggði sigurinn? Það gerði Sóley auðvitað! Í þetta sinn kom hún bara af bekknum í vítum en varði líka tvö vítaköst á lokakafla leiksins, hið fyrra þegar fjórar mínútur voru eftir og hið síðara þegar fjórar sekúndur lifðu af leiknum - og kom þannig í veg fyrir að Odense tækist að jafna. Húrra! Ég varð hreinlega að skrifa um þetta áður en Sóley kæmist í tölvuna. Það er alltaf smá hætta að hún gerist hógvær. En vonandi skrifar hún eitthvað meira um málið á næstunni!

Eins og lesendur síðunnar hafa getað fylgst með hefur liðinu gengið nánast allt í mót síðustu mánuði eftir góða byrjun - og svo einn sigur í bikarkeppninni um daginn. En þetta breyttist í kvöld. Og við þennan óvænta sigur eygir Rødovre að nýju litla von um að halda sér í deildinni eða komast í umspil en næstu leikir eru gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Maður leyfir sér þó bara að vera hóflega bjartsýnn því sóknarleikur liðsins hefur verið mjög brokkgengur í vetur.

Við Sigurveig fórum út að borða í kvöld og buðum vinkonum hennar, Michelle og Clöru, með. Ferðinni var heitið á McDonalds sem því miður er alltof nálægt okkur. Það var mikið fjör í boltalandinu en óvæntara var að lítið þurfti að reka á eftir matnum upp í þær. Til þess beitti maður mjög einfaldri taktík. Þær léku sér meðan ég var í biðröðinni en urðu síðan að klára matinn til að komast aftur í boltalandið og opna pokann með dótinu, sem fylgdi glöðu máltíðinni (Happy Meal). Þegar við komum heim fengum við svo þessar fínu fréttir af boltanum.

Til að fyrirbyggja misskilning förum við ekki alltaf á McDonalds þegar mamma er að keppa eða á æfingu. Gerum það bara til hátíðabrigða. Við Sigurveig eldum þess í stað fjölbreyttan mat þrisvar í viku meðan mamma er á æfingu. Eða eins og Sigurveig orðar það: "Er mamma á æfingu? Verður þá pasta í kvöldmatinn?"

posted by Thormundur | 23:17
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn