::: Voldumvej 80

laugardagur, mars 13, 2004  

::: Já ég veit ...
... að ég er ekki nógu dugleg að blogga. Það er bara svo mikið að gera og mikið að hugsa um þessa dagana að maður gefur sér ekki tíma til að setjast niður og blogga. Reyni að bæta úr því enda er það brátt ég ein sem ber ábyrgð á fréttaflutningi hér frá Voldumvej. Þórmundur fer til Íslands á morgun og byrjar í nýju vinnunni í Landsbankanum á mánudaginn. Það verða mikil viðbrigði fyrir okkur öll að vera aðskilin og söknuðurinn verður mikill. En nútímatækni hjálpar til að gera þetta allt saman pínulítið auðveldara. Þórmundur kemur líka af og til í heimsókn og hver veit nema við skreppum. Svo verður frábært þegar við sameinumst öll aftur í sumar og flytjum svo til Íslands.

Eins og þið vitið er Sigurveig mjög ánægð með að vera að flytja heim aftur. Ýmsar pælingar hafa verið í gangi hjá henni sem hefur verið frábært að hlusta á hana segja frá. "Frábært, þá get ég heimsótt ömmu og afa alltaf þegar mig langar ... það geta bara ALLIR komið í afmælið mitt, ekki bara pakkar í pósti ... mamma þá kemst ég í afmælið hans Mána (gamall vinur úr Hamraborg) ... pabbi, svo fer ég með þér í vinnuna og svo fer ég bara með afa heim ..." Svona mætti lengi telja, hún er allavega mjög sátt við stöðu mála.

Í dag ætlum við að nýta daginn vel og gera eitthvað skemmtilegt saman. Dagskráin er ekki ákveðin enda svo sem aukaatriði, aðalatriðið að vera öll saman. Ég stillti klukkuna hálfa átta til að ná að setja í þvottavélarnar sem ég átti pantaðar. Hélt að ég gæti læðst niður í þvottahús og svo hoppað upp í rúm að sofa aftur. Nei ... litla heimasætan vaknaði auðvitað þannig að við erum komin á fætur, eldhress. Hvað er annars betra en að fara snemma á fætur á laugardögum og ekki að þurfa að fara í vinnuna. Það er bara æðislegt.

Á morgun keppum við Rødovre-píur á móti Helsingør. Nú verðum við hreinlega að vinna til að eiga möguleika á góðri lokaniðurstöðu í deildinni. Lena, vinstri skyttan okkar, er í banni, Jolene miðju/hornamaður okkar er farin til útlanda - en við hinar verðum nú bara að hysja upp um okkur buxurnar og spila almennilega. Ég var nú einhvern tíma frambærileg hægri skytta ... ænei, ég held mig bara við markið. :-)

posted by Soley | 08:12

sunnudagur, mars 07, 2004  

::: Heim til Íslands
Nú er það endanlega orðið opinbert. Við ætlum að flytja heim til Íslands í sumar. Við sögðum Sigurveigu fréttirnar í morgun og ekki er hægt að segja annað en að það hafi gengið vel. Hún réði sér ekki fyrir kæti og hlakkar mikið til að flytja, eignast nýtt heimili og finna nýjan skóla. Við áttum nú frekar von á því að hún tæki þessu vel en viðbrögð hennar voru framar vonum. Það er mikilvægt að Sigurveig sé glöð með þetta því hún hefur verið mjög ánægð í skólanum hér úti og eignast margar vinkonur.

Við höfum verið mjög ánægð með dvölina í Danmörku en töldum bæði rétt að flytja heim á þessum tímapunkti. Við höfum náð flestum markmiðum okkar með ferðinni og hlökkum til að takast á við ný verkefni heima. Það stóð auðvitað aldrei annað til en að flytja heim. Við höfum þegar hafið fasteignaleit, mest á netinu, en ég kíkti á nokkrar íbúðir í síðustu viku þegar ég var heima. Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leitar að húsnæði. Við ætlum m.a. helst af öllu að kaupa íbúð með breiðbandi þannig að við getum horft á danskar sjónvarpsstöðvar! Þannig gæti Sigurveig til dæmis haldið við dönskunni. Hún gæti fyrst horft á danskan barnatíma og svo á Stundina okkar. Við segjum nánari fréttir af fasteignakaupum þegar þar að kemur.

Og það eru fleiri fréttir. Mér bauðst nýlega gott starf á Íslandi sem ég þáði. Ég hef verið ráðinn til Landsbanka Íslands og mun ritstýra Landsbankavefnum. Afrakstur af því starfi munu menn þó fyrst sjá af alvöru þegar nýr vefur fer í loftið síðar á árinu. En það var ekki eftir neinu að bíða. Ég hef þegar hafið störf sem þýðir að ég verð töluvert á Íslandi næstu mánuði. Ekki þarf ég að hafa áhyggjur af matnum í mötuneytinu, svo mikið er víst!

Að öllum líkindum flytjum við í lok júlí en stefnan er að Sóley klári keppnistímabilið, Sigurveig skólaárið og að við sláum botn í dvöl okkar með sumarfríi í Danmörku. Höfum við hugsað okkur að ferðast vítt og breitt um landið og kynnast því betur svona rétt áður en við yfirgefum það.

posted by Thormundur | 18:30
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn