::: Voldumvej 80

föstudagur, apríl 02, 2004  

::: Bogahlíð 7
Hlutirnir hafa gerst hratt í þessari viku. Á þriðjudag skoðaði ég íbúð, á miðvikudaginn flugu Sóley og Sigurveig til Íslands, við gerðum tilboð í gær og í dag var það samþykkt. Við höfum því eignast nýja íbúð og fáum við hana afhenta í haust. Íbúðin er við Bogahlíð 7 og er því nánast í túnfætinum heima - við sjáum gamla garðinn við Stigahlíð úr eldhúsinu.

Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Íbúðin er fimm herbergja íbúð á fyrstu hæð og hentar okkur afar vel. Húsið stendur á horni Bogahlíðar og Grænuhlíðar og snýr raunar út að Grænuhlíð. Staðsetningin gæti ekki verið betri. Hlíðaskóli er í næsta nágrenni en þar var Sigurveig skráð í skóla eftir hádegi í dag. Sóley hefur fengið tilboð um kennarastöðu í Háteigsskóla og þá er heldur ekki of langt fyrir mig að fara í vinnu í miðbænum.

Sigurveig og Sóley verða hér fram á sunnudag en þá förum við öll til Köben til að slappa af saman um páskana. Svo kem ég aftur heim í vinnuna.

Ég hef tekið mér gott hlé frá bloggritun síðustu vikur enda eitthvað bogið við að skrifa á Voldumvej-bloggið á Íslandi. En nú erum við öll á Íslandi og þá er það ekki bara þörf heldur nauðsyn. Sóley hefur haldið uppi heiðri Voldumvej-bloggsins og hefur nánast tekið við sem ritstjóri vefsins! Hver veit nema að Bogahlíðarblogg líti dagsins ljós næsta vetur?

posted by Thormundur | 23:56

mánudagur, mars 29, 2004  

::: Sigurveig fimleikastjarna!
Á laugardaginn tók Sigurveig þátt í fimleikasýningu Orient, en þar hefur hún æft s.l. tvö ár. Að sjálfsögðu stóð mín dama sig eins og hetja og lét tilfinninganæmu mömmu sína fá mörg tár í augun. Hún dansaði af mikilli innlifum og brosti út af eyrum á sama tíma. Það er með ólíkindum hvað hún er orðin stór stelpa, að sjá hana dansa fyrir framan á þriðja hundrað manns, er alveg ótrúlegt. Nú getur hún ekki beðið eftir að sýna pabba sínum sýninguna á videói, enda tókum við allt saman upp. Núna er enda bara fjórir dagar þangað til við sameinumst á ný. Við hlökkum mikið til og ætlum að nýta tímann vel um páskana. Það verður líka stór dagur á laugardaginn, húsbóndinn á afmæli.

Gummi, Guðrún og Hulda Sóllilja yfirgáfu svæðið í morgun eftir frábæra helgi. Það er nú meira hvað hún Hulda Sóllilja er mikil rúsína. Þær frænkur náðu mjög vel saman og léku sér vel alla helgina. Hulda var sérstaklega hrifin af kisu sem Bjössi og Þóra gáfu Sigurveigu þegar þau voru í sinni fyrstu heimsókn hérna hjá okkur. Sigurveig spilaði öll uppáhalds dönsku lögin sín fyrir frænku sína og spurði svo "Finnst þér þetta gott lag?" Þá svaraði Hulda iðulega: "Nei", en vildi þó alltaf heyra fleiri og fleiri lög. Á föstudaginn fórum við út að borða á Jensens Bøfhus. Laugardaginn notuðu þau í bænum meðan við Sigurveig vorum á sýningunni. Við fórum í dýragarðinn í gær og skemmtum okkur konunglega. Svo fékk ég að passa Huldu Sóllilju í gærkvöldi og gekk það eins og í sögu enda erum við orðnar miklar vinkonur. Elsku Gummi, Guðrún og Hulda Sóllilja, takk fyrir frábæra helgi!

Í gær lauk keppnistímabilinu okkar Rødovr-pía þrátt fyrir góðan sigur á Freja. Roar og Fredericia unnu sína leiki sem varð til þess að við lentum í 8. sæti, sem þýðir fall í 2. deild á næsta ári. Það má segja að þetta hafi verið afar svekkjandi eftir fjóra sigurleiki í röð hjá okkur. En það var of seint í rassinn gripið og að sjálfsögðu okkar eigin sök að þetta fór svona. Vonandi vinna píurnar góða sigra á næsta keppnistímabili, öðlast gott sjálfstraust og komast aftur í 1. deild áður en langt um líður.

posted by Soley | 22:05
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn