::: Voldumvej 80

föstudagur, apríl 02, 2004  

::: Bogahlíð 7
Hlutirnir hafa gerst hratt í þessari viku. Á þriðjudag skoðaði ég íbúð, á miðvikudaginn flugu Sóley og Sigurveig til Íslands, við gerðum tilboð í gær og í dag var það samþykkt. Við höfum því eignast nýja íbúð og fáum við hana afhenta í haust. Íbúðin er við Bogahlíð 7 og er því nánast í túnfætinum heima - við sjáum gamla garðinn við Stigahlíð úr eldhúsinu.

Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Íbúðin er fimm herbergja íbúð á fyrstu hæð og hentar okkur afar vel. Húsið stendur á horni Bogahlíðar og Grænuhlíðar og snýr raunar út að Grænuhlíð. Staðsetningin gæti ekki verið betri. Hlíðaskóli er í næsta nágrenni en þar var Sigurveig skráð í skóla eftir hádegi í dag. Sóley hefur fengið tilboð um kennarastöðu í Háteigsskóla og þá er heldur ekki of langt fyrir mig að fara í vinnu í miðbænum.

Sigurveig og Sóley verða hér fram á sunnudag en þá förum við öll til Köben til að slappa af saman um páskana. Svo kem ég aftur heim í vinnuna.

Ég hef tekið mér gott hlé frá bloggritun síðustu vikur enda eitthvað bogið við að skrifa á Voldumvej-bloggið á Íslandi. En nú erum við öll á Íslandi og þá er það ekki bara þörf heldur nauðsyn. Sóley hefur haldið uppi heiðri Voldumvej-bloggsins og hefur nánast tekið við sem ritstjóri vefsins! Hver veit nema að Bogahlíðarblogg líti dagsins ljós næsta vetur?

posted by Thormundur | 23:56
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn