::: Voldumvej 80

miðvikudagur, apríl 07, 2004  

::: Hróarskelda
Við fórum þúsund ár aftur í tímann í dag. Fórum til Hróarskeldu og skoðuðum bæði Víkingasafnið og Dómkirkjuna. Sigurveig er mjög upptekinn af því hvað gerðist í "gamla daga" og spyr mann reglulega hvort við foreldrarnir höfum verið til í gamla daga. Hún fullyrðir hins vegar að hún hafi ekki verið til í gamla daga. Henni þótti nokkuð spennandi í Víkingasafninu, ekki síst að fá að klæða sig upp eins og Víkingastelpa til forna. Við klæddum okkur öll í þar til gerð föt og létum taka myndir af okkur.

Veðrið er ekki að leika við okkur núna um páskana en var þó þokkalegt í dag. Í gær snjóaði lítillega og eftir þurran dag í dag er búist við rigningu næstu daga. Vonum þó að úr rætist á laugardag þegar við stefnum á ferð til Helsingør. Við teljum okkur þá hafa skoðað mikilvægustu staði á Sjálandi en við höfum farið víða síðustu tvö ár hér í nágrenni Kaupmannahafnar. Í sumar stefnum við hins vegar á yfirreið yfir Fjón og Jótland - svona áður en við yfirgefum landið.

posted by Thormundur | 23:26

þriðjudagur, apríl 06, 2004  

::: Experimentarium
Við fórum í dag á mjög skemmtilegt vísindasafn fyrir börn - Experimentarium. Það er reyndar á mörkunum að kalla megi þetta safn - þetta er meira í líkingu við vísindaskemmtigarð. Þarna gátum við m.a. skoðað skordýr í öllum stærðum og gerðum, rannsakað heilann, gert tilraunir með mannslíkamann ýmsa aðra skemmtilega hluti. Þetta var í senn leikur og lærdómur fyrir okkur öll. Það er óhætt að mæla með þessu safni fyrir börn.

Sigurveig missti í gær sína fjórðu tönn. Nú hefur hún á stuttum tíma misst tennurnar hvorum megin við neðri framtennurnar. Þetta eru flott skörð og Sigurveig frekar stolt eins og fyrri daginn.

Við höfum það mjög gott í páskafríinu okkar. Sigurveig fer auðvitað ekkert í skólann, Sóley er í fríi og ég vinn milli þess sem við gerum eitthvað skemmtilegt. Nú verður maður að nýta tímann vel fyrst maður er hálffluttur til Íslands. Um páskana ætlum við að ferðast svolítið, skreppa til Hróarskeldu til að skoða Víkingasafnið og rölta um bæinn og líka til Helsingør, þar sem við kíkjum líklega á Krónborgarkastala. Í báðum bæjum er mjög skemmtilegur miðbær með verslunum og veitingastöðum við hvert fótmál.

Það er afskaplega þægileg tilfinning að hafa fundið sér íbúð. Það auðveldar flutninga í sumar til mikilla muna. Það var líka ekki seinna vænna því flestir seljendur vilja nokkra mánuði til að afhenda. Sigurveig spurði reyndar um daginn þegar henni var sagt að hún og mamma hennar ætluðu daginn eftir til Íslands til að skoða/kaupa nýja íbúð: "Má ég þá sofa í nýja herberginu mínu." Þetta gekk hratt fyrir sig en ekki alveg svo hratt.

posted by Thormundur | 20:24
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn