::: Voldumvej 80

föstudagur, maí 14, 2004  

::: Hrærður prins
Eins og margir aðrir tók ég þátt í gleði Dana og horfði á brúðkaup Friðriks og Mary í sjónvarpinu í dag. Ég tók mér sem sagt smá pásu frá vinnunni til að sjá prinsinn tárast, hringana skrúfaða upp á konunglega fingur og kossinn, sem beðið hafði verið af mikilli eftirvæntingu í Danmörku. Sóley og Sigurveig voru enn nær viðburðunum því þær fóru niður í bæ og heilsuðu nánast upp á nýgiftu hjónin á Strikinu - svo nærri gátu þau fylgst með kerruferð brúðarparsins um stræti kóngsins Kaupmannahafnar.

Það sem hrærði mig mest í brúðkaupinu var augnablikið þegar Friðrik táraðist fyrir framan þjóð sína og alheim í beinni sjónvarpsútsendingu. Ég gat auðveldlega sett mig í spor Friðriks. Rétt eins og hann, táraðist ég þegar dyrnar lukust upp í Háteigskirkju fyrir tæpum tveimur árum og Sóley gekk inn kirkjugólfið, íklædd fallega brúðarkjólnum, sem við keyptum einmitt í Danmörku. Sigurveig man mjög vel hvar við keyptum brúðarkjólana - og aldrei bregst það þegar við göngum framhjá búðinni að hún segi: "Þarna keyptum við kjólana fyrir brúðkaupið okkar," með sérstakri áherslu á síðasta orðið.

Það er liðin tæp vika síðan stelpurnar voru hérna hjá mér. Heimsóknin í síðustu viku var frábær. Sigurveig fór nánast beint úr flugvélinni í leikhús að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Hún fór vitanlega líka einn dag í 6 ára gestabekkinn sinn í Hofsstaðaskóla. Við Sóley fórum líka í leikhús og spásseruðum um bæinn og mollin rétt eins og ferðamenn. Talandi um ferðamenn. Ferðamennirnir tveir frá Danmörku voru reyndar frekar óheppnir með veður því hitinn var við og undir frostmark nær alla vikuna meðan sólin skein í Köben. Við fengum þó fáeina góða daga í lokin án kulda og roks.

Næst er komið að mér að heimsækja þær. Stelpurnar koma reyndar ekkert aftur til Íslands fyrr en við flytjum alkomin í lok júlí. Tímasetningar ætla að ganga vel upp því við erum svo heppin að fá nýju íbúðina afhenta 1. ágúst og getum því strax farið að koma okkur vel fyrir.

posted by Thormundur | 23:27
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn