::: Voldumvej 80

miðvikudagur, júní 23, 2004  

::: Sameinuð fjölskylda
Þá er fjölskyldan sameinuð á ný eftir nokkurra mánaða aðskilnað og flakk milli landa. Ég flaug til Köben í morgun og næst þegar við fljúgum heim erum við alkomin heim. Við erum öll mjög hamingjusöm að þessu tímabili sé lokið. Nú tekur við pökkun búslóðar og síðast en ekki síst gott sumarfrí.

Það var ekki tilviljun að ég kom í dag. Sóley á nefnilega afmæli í dag. Við fögnuðum þessu með heimsókn í verslunarmiðstöðina Fields - tókum það framyfir miðbæinn vegna slagveðurs og rigningar! Við áttum góðan dag, fengum fínan mat í tilefni dagsins og Sigurveig fékk að fara í leikfangaland í ætt við Ævintýraland í Kringlunni.

Í kvöld tókum við þátt í miðsumarsgleði Dana, en kvöldið hér heitir St. Hans aften. Þetta kvöld eru bál kveikt um gjörvalla Danmörku með tilheyrandi skemmtunum. Hátíðarhöld hér í Rødovre eru haldin í "bakgarðinum" okkar, hinu víðfeðma engi, Damhusengen, sem aðskilur Kaupmannahöfn og Rødovre. Sigurveig var mjög spennt fyrir þessu, enda leiktæki og lotterí á staðnum og popp og saftevand.

Næstu dagar verða skemmtilegir. Ég mun reyndar halda áfram að vinna héðan að utan en það er sannarlega styttra í stelpurnar, sem báðar eru í sumarfríi.

posted by Thormundur | 23:13
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn