::: Voldumvej 80

sunnudagur, júlí 11, 2004  

::: Síðasti dagurinn á Voldumvej
Nú er nærri tveggja ára dvöl á Voldumvej á síðasta degi. Næsta nótt verður okkar síðasta á þessum yndislega stað. Gámurinn kemur snemma í fyrramálið og í þessum skrifuðum orðum sitjum við Sóley umkringd kössum í mannhæðarháum stöflum. Við höfum staðið á haus síðustu daga en sjáum nú fyrir endann á þessu.

Sigurveig er hjá pabba og mömmu á Østerbro en þau komu til Danmerkur á fimmtudag - í síðustu heimsókn til okkar hér í Köben. Þau hafa aðstoðað okkur, ekki síst við að hafa ofan fyrir Sigurveigu.

Við skilum þó ekki íbúðinni fyrr en á fimmtudag en dagana þangað til notum við til að þrífa íbúðina hátt og lágt og mála hana. Það síðastnefnda gerum við til að koma í veg fyrir himinháan reikning frá leigusölum fyrir málingarvinnu. Að þessu loknu er stefnan tekin til Noregs þar sem við ætlum að vera í brúðkaupi Ástu Marie frænku minnar og Suman, hins nepalska unnusta hennar.

Síðustu dagar hafa einkennst af kveðjuveislum. Það er í raun magnað hvað við höfum kynnst mörgu góðu fólki, einkum í gegnum handboltaliðið og vinnuna hennar Sóleyjar. Sigurveig hefur líka kvatt vinkonur sínar. Sjálf hélt hún kveðjuveislu í gær fyrir bestu vinkonur sínar héðan af Voldumvej, Clöru og Michelle. Þær léku mjög vel saman, eins og endranær, en það var mjög augljóst að þær vissu hvað væri að gerast.

Sóley hefur kvatt hina og þessa síðustu daga en síðan tókst okkur líka að nýta fyrsta - og sennilega síðasta - sumardag í Danmörku til að fara í okkar fyrstu ferð á Bakken. Þetta var á miðvikudag og þá var ekki rigning, heldur sól og fínn hiti. Við fórum með Heiðu og Jesper og þótt Sigurveig hafi verið duglegust í tækjunum fórum við nú öll saman í einn elsta rússibana heims. Hann er af gamla skólanum, fer bara upp og niður, en auðvitað hratt og gegnum göng. En sem sagt engar lúppur eða 360° brautarhlutar.

Jæja, það verður að halda áfram að pakka.

posted by Thormundur | 21:02
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn