::: Voldumvej 80

sunnudagur, maí 04, 2003  

::: Við erum meistarar!
Enski meistaratitillinn er í höfn hjá United! Einstakur sigur minna manna eftir spennandi tímabil. Titillinn er fyllilega verðskuldaður, við erum einfaldlega með besta liðið. Við áttum reyndar í höggi við fantagott lið í baráttunni um titilinn en sýndum okkar besta eftir áramót. Höfum ekki tapað leik í deildinni síðan á annan í jólum og töpuðum heldur ekki leik gegn fjórum næstbestu liðunum í allan vetur.

Gleggstu menn hafa hugsanlega tekið eftir því að ég hef nánast ekkert bloggað um enska boltann í allan vetur. Þetta er sennilega einhvers konar hjátrú. Það kemur alltaf í bakið á manni að vera með miklar yfirlýsingar á miðju tímabili. Nú er hins vegar rík ástæða til að blogga - og að fagna. Það er hafið yfir allan vafa hverjir eru bestir. Tölurnar tala sínu máli, frammistaða okkar segir allt sem segja þarf.

Við Bjössi, vinur minn, fögnuðum titlinum með því að vera í símasambandi frá því að Leeds skoraði þriðja mark sitt fáeinum mínútum fyrir leikslok! Ég hef því miður lítið séð af leikjum vetrarins - ég næ ekki réttu stöðinni. Þess í stað fékk lýsingu á lokamínútunum í símann. Það var flott! Við Sigurveig fögnuðum eftir leikinn með því syngja hástöfum "We are the Champions". Hún var kannski ekki alveg með á tilefninu en var þó alveg jafn glöð. Hún náði viðlaginu smám saman eftir nokkrar spilanir!

Þetta er í annað sinn sem ég fagna meistaratitli hér á Voldumvej með tilheyrandi gleðilátum. Í september hlustaði ég á lýsingu Rásar 2 í beinni á netinu þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Það var yndislegt. Sem sagt: KR er Íslandsmeistari og Manchester United Englandsmeistari. Það getur ekki verið betra!

posted by Thormundur | 22:55

þriðjudagur, apríl 29, 2003  

::: La posta italiana e molto lenta!
Þann 9. apríl sendi Sigurveig póstkort frá Ítalíu til mömmu sinnar, sem þá var flogin aftur til Danmerkur. Póstkortið kom í dag 29. apríl! Ég endurtek: Í dag. Það tók ítölsku póstþjónustuna sem sagt heila 20 daga að senda póstkort frá Bologna til Rødovre. Fyrirsögnin hér að ofan dregur fram kjarna málsins: Ítalska póstþjónusta er mjög sein!

Nú veit ég að þetta er ekki tilviljun. Daginn eftir sendi ég tvö póstkort til Íslands og fyrir fáeinum dögum kannaði ég hvort þau væru komin. Það voru þau auðvitað ekki. Ég veit líka að þetta er ekki dönsku póstþjónustunni að kenna. Hún er svo snögg að sendi maður sjálfum sér bréf frá pósthúsi að morgni getur maður allt eins átt von á því að finna það í póstkassanum síðdegis. Íslenska póstþjónustan er heldur ekki svo galin.

Hvert póstkortið hefur farið er fróðlegt rannsóknarefni. Fór það frá Bologna til Rómar af því að öll bréf fara fyrst til Rómar? Fór það hugsanlega þaðan til Mílanó af því að þaðan eru hugsanlega fleiri flug til Danmerkur en frá Róm. Eða fór póstkortið ef til vill fyrst til ítalska bæjarins Rodigo í Lombardia-héraði vegna þess að bæjarheitið er svo "líkt" Rødovre? Sennilegra er kannski að póstpoki með póstkortinu hafi bara hreinlega týnst um það leyti sem starfsmenn Poste Italiane flýttu sér heim í siestuna! Hvað á maður annars að halda?

Kortið er þó komið og því má segja að hér gildi máltækið: Betra er seint en aldrei. Önnur máltæki (úr smiðju Sverris Stormskers) ættu reyndar miklu betur við um ítölsku póstþjónustuna. Þar stendur valið helst á milli "Illu er best ólokið" eða "Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur frestað lengur".

posted by Thormundur | 16:07
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn