sunnudagur, ágúst 03, 2003
::: Sigurveig í bústað Sigurveig fór í sumarbústað í gær með vinkonu sinni Clöru og verður til morguns. Þær hafa meðal annars farið á ströndina og eru örugglega mjög ánægðar að geta leikið sér saman að nýju. Við vorum að spjalla við hana í símanum áðan og hún var voða ánægð með ferðina í bústaðinn - og í sjóinn. Sigurveig hefur sannarlega verið eftirsótt eftir komuna hingað því allir krakkarnir á svæðinu vilja leika við hana, nýkomna úr fríinu. Margir hafa greinilega saknað hennar. Húner í óða önn að rifja upp dönskuna sína en nokkrum sinnum hafa slæðst inn nokkur orð, jafnvel setningar, á íslensku.
Á föstudag fór hún í heimsókn á skóladagheimilið, þar sem hún verður hluta úr degi eftir að skóladegi lýkur. Þar hittir hún suma af vinum sínum en þó fara ekki mjög margir úr leikskólanum hennar í Rødovre Skole. Sigurveig er ein fjögur hundruð barna úr bænum sem hefur skólagöngu sína á fimmtudag.
Við "gömlu hjónin" erum hálfeinmana en höfum reynt að nýta tímann til að slappa af meðan Sigurveig er í bústað. Fórum reyndar í miðbæinn í gær og virtumst vera komin úr gönguæfingu. Vorum allavega búin í fótunum eftir daginn. Sóley nýtti sér tækifærið meðan útsölurnar eru enn í gangi. Í kvöld ætlum við að fara í Tívolí tvö ein.
Hér er sama blíðan og verður næstu daga, sbr. þessa spá upp á glampandi sól og 25 stiga hita fimm daga í röð. Hver þarf að fara til Spánar þegar veðrið er svona í Kaupmannahöfn? Þóra og Bjössi munu njóta góðs af því þau eru á leið í frí til Kaupmannahafnar í næstu viku.
posted by Thormundur |
17:22
fimmtudagur, júlí 31, 2003
::: Komin til baka Þá erum við komin aftur á Voldumvej eftir frábæra ferð heim til Íslands. Allt er á sínum stað. Það er alltaf gott að koma á heimili sitt aftur þótt maður sakni strax fjölskyldu og vina. Ferðin tókst vel en við komumst jafnframt að því að þrjár vikur væru varla nóg til að hitta alla - svona eftir eitt ár í burtu. Við þökkum kærlega fyrir öll matarboðin, heimsóknirnar, sumarbústaðaferðirnar og alla samveruna.
Það var svolítið sérstakt að koma inn í íbúðina að nýju. Viðarlyktin var sú sama og þegar við fluttum inn fyrir tæpu ári enda allir gluggar búnir að vera lokaðir lengi. Veðrið er afskaplega gott. Hér er algjört sólarlandaveður og erum við strax orðin sveitt í sólinni. Það þarf vart að taka það fram að Sóley fór strax út að hlaupa eftir að við höfðum tekið allt upp úr töskum - hún fór auðvitað hringinn í kringum Damhusengen. Sömuleiðis þarf vart að taka fram að Sigurveig fór beint út að leika og er núna með vinkonu í heimsókn - meðal annars að leika með nýja dótið frá Leifi og Sigurveigu.
Við ættum að vera í aðstöðu til að blogga oftar á næstunni. Annars hefst daglega amstrið strax á morgun. Sigurveig kíkir líklega í stutta heimsókn í skóladagheimilið en hún byrjar í skóla eftir eina viku!
Bestu kveðjur frá Danmörku!
posted by Thormundur |
21:24
|