::: Voldumvej 80

sunnudagur, júlí 11, 2004  

::: Síðasti dagurinn á Voldumvej
Nú er nærri tveggja ára dvöl á Voldumvej á síðasta degi. Næsta nótt verður okkar síðasta á þessum yndislega stað. Gámurinn kemur snemma í fyrramálið og í þessum skrifuðum orðum sitjum við Sóley umkringd kössum í mannhæðarháum stöflum. Við höfum staðið á haus síðustu daga en sjáum nú fyrir endann á þessu.

Sigurveig er hjá pabba og mömmu á Østerbro en þau komu til Danmerkur á fimmtudag - í síðustu heimsókn til okkar hér í Köben. Þau hafa aðstoðað okkur, ekki síst við að hafa ofan fyrir Sigurveigu.

Við skilum þó ekki íbúðinni fyrr en á fimmtudag en dagana þangað til notum við til að þrífa íbúðina hátt og lágt og mála hana. Það síðastnefnda gerum við til að koma í veg fyrir himinháan reikning frá leigusölum fyrir málingarvinnu. Að þessu loknu er stefnan tekin til Noregs þar sem við ætlum að vera í brúðkaupi Ástu Marie frænku minnar og Suman, hins nepalska unnusta hennar.

Síðustu dagar hafa einkennst af kveðjuveislum. Það er í raun magnað hvað við höfum kynnst mörgu góðu fólki, einkum í gegnum handboltaliðið og vinnuna hennar Sóleyjar. Sigurveig hefur líka kvatt vinkonur sínar. Sjálf hélt hún kveðjuveislu í gær fyrir bestu vinkonur sínar héðan af Voldumvej, Clöru og Michelle. Þær léku mjög vel saman, eins og endranær, en það var mjög augljóst að þær vissu hvað væri að gerast.

Sóley hefur kvatt hina og þessa síðustu daga en síðan tókst okkur líka að nýta fyrsta - og sennilega síðasta - sumardag í Danmörku til að fara í okkar fyrstu ferð á Bakken. Þetta var á miðvikudag og þá var ekki rigning, heldur sól og fínn hiti. Við fórum með Heiðu og Jesper og þótt Sigurveig hafi verið duglegust í tækjunum fórum við nú öll saman í einn elsta rússibana heims. Hann er af gamla skólanum, fer bara upp og niður, en auðvitað hratt og gegnum göng. En sem sagt engar lúppur eða 360° brautarhlutar.

Jæja, það verður að halda áfram að pakka.

posted by Thormundur | 21:02

þriðjudagur, júní 29, 2004  

::: Grenjandi rigning og góður gleðskapur
Það var grenjandi rigning nánast í allan dag og dimmt yfir. Veðrið hefur ekki beinlínis verið gott í Danmörku það sem af er sumri en maður verður að vera bjartsýnn. Sólin tekur brátt völdin með tilheyrandi hita. Annað er ekki hægt.

Sóley og Sigurveig fóru í ferðalag í dag heim til Randy, fyrrum samstarfskonu Sóleyjar á leikskólanum, en hún býr syðst á Sjálandi. Þær eru rétt ókomnar eftir tveggja tíma lestarferðalag. Það merkilegasta er auðvitað að samstarfskona hennar fer þessa leið tvisvar á dag á leið úr og í vinnu! Ég heyrði í þeim áðan og var mikið fjör á þeim bænum. Sólin skein meira að segja þarna fyrir sunnan. Greinilegt að veðrið er einna síst í Köben.

Við höfum haft það gott síðustu daga. Haldin var afmælis- og kveðjuveisla á föstudaginn fyrir handboltavinkonur Sóleyjar, vinnufélaga og fleiri vini hennar. Veislan var afskaplega skemmtileg og stóð gleðskapur fram á nótt. Við leigðum samkomusal íbúðahverfisins og þar var borðað, drukkið og dansað að dönskum sið. Sigurveig og vinkona hennar Clara voru auðvitað með í partýinu. Það stóð til að Sigurveig færi heim til vinkonu sinnar í næturgistingu en hún harðneitaði og dansaði áfram til hálfeitt. Þá sofnaði hún bara á einum sófanum!

Sóley fékk ýmsar góðar gjafir, þ.á m. línuskauta frá handboltaliðinu. Gjöfin hitti greinilega í mark því hún hefur farið nokkra hringi í kringum Damhusengið. Það er auðvitað hrein viðbót daglegt skokk í kringum sama engi! Sigurveig er fyrir nokkru búin að læra á línuskauta og þær mæðgur eru góðar saman á skautunum.

Þetta er gott í bili.

posted by Thormundur | 23:07

miðvikudagur, júní 23, 2004  

::: Sameinuð fjölskylda
Þá er fjölskyldan sameinuð á ný eftir nokkurra mánaða aðskilnað og flakk milli landa. Ég flaug til Köben í morgun og næst þegar við fljúgum heim erum við alkomin heim. Við erum öll mjög hamingjusöm að þessu tímabili sé lokið. Nú tekur við pökkun búslóðar og síðast en ekki síst gott sumarfrí.

Það var ekki tilviljun að ég kom í dag. Sóley á nefnilega afmæli í dag. Við fögnuðum þessu með heimsókn í verslunarmiðstöðina Fields - tókum það framyfir miðbæinn vegna slagveðurs og rigningar! Við áttum góðan dag, fengum fínan mat í tilefni dagsins og Sigurveig fékk að fara í leikfangaland í ætt við Ævintýraland í Kringlunni.

Í kvöld tókum við þátt í miðsumarsgleði Dana, en kvöldið hér heitir St. Hans aften. Þetta kvöld eru bál kveikt um gjörvalla Danmörku með tilheyrandi skemmtunum. Hátíðarhöld hér í Rødovre eru haldin í "bakgarðinum" okkar, hinu víðfeðma engi, Damhusengen, sem aðskilur Kaupmannahöfn og Rødovre. Sigurveig var mjög spennt fyrir þessu, enda leiktæki og lotterí á staðnum og popp og saftevand.

Næstu dagar verða skemmtilegir. Ég mun reyndar halda áfram að vinna héðan að utan en það er sannarlega styttra í stelpurnar, sem báðar eru í sumarfríi.

posted by Thormundur | 23:13

laugardagur, maí 29, 2004  

::: Allt að styttast
Um síðustu helgi var ég í Kaupmannahöfn og ekki svo langt þangað til ég kem aftur í heimsókn. Svo er ekki nema rúmur mánuður þar til ég fer alfarinn til Danmerkur til að fara í eins konar sumarfrí og að pakka búslóðinni í gám. Þetta er sem sagt allt að styttast og eins gott.

Við höfum verið ódugleg í blogginu og það er best að ég skrifi örlítið um síðustu helgi. Ég kom nefnilega óvænt í heimsókn, stelpunum til ómældrar gleði. Ég var víst þó heldur leynilegur í þessu og í örfáar sekúndur hélt Sóley að það væri kominn innbrotsþjófur á staðinn. Sigurveig var ekki sofnuð en ég hafði einmitt drifið mig í leigubíl eftir síðdegisflugið til að ná henni vakandi. Urðu fagnaðarfundir.

Þar sem pabbi er ekki alltaf á staðnum núna var ég nánast allan fimmtudaginn "úti að leika" með Sigurveigu og fleirum. Í þetta sinn vildi hún hafa mig með í öllu. Svæðið í kringum Voldumvej er mjög upplagt fyrir feluleiki og það var skipst á að telja og leita.

Við lékum ferðamenn þessa helgi og fórum út að borða, í Tívolí og á tónleika. Við drifum okkur til dæmis loksins á tælenska veitingastaðinn í Rødovre, sem höfum lengi ætlað okkur að heimsækja. Ég get alveg mælt með honum en hann er auðvitað ofurlítið úr leið fyrir almenna ferðamenn. Á föstudaginn fórum við á tónleika með Safri Duo í Tívolí á aðalútisviðinu, Plænen. Þessir dönsku slagverksteknópopparar eru mjög vinsælir í heimalandinu og víða um heim.

Sunnudagurinn fór síðan nær allur í Tívolí. Ég fór með töskurnar á Hovedbanegården og svo vorum við þar þangað til ég fór í flug. Við Sigurveig keyptum okkur "turpas" í öll tæki og nýttum hann vel. Fórum öll helstu tækin og sum oftar en einu sinni. Svo skemmtilega vildi til að við hittum bestu vinkonu Sigurveigar og foreldra hennar í Tívolí og slógumst í för með þeim. Þær litlu gátu þá farið saman í ýmis tæki. Ég reyndi auðvitað að fara sem seinast af stað og græddi klukkutíma vegna seinkunar á brottför.

Eins og við var að búast var þetta mjög skemmtileg heimsókn og maður getur vart beðið eftir þeirri næstu. Það er satt að segja mjög sérstakt að vinna í einu landi og með fjölskylduna í hinu. Þetta er mjög erfitt og eingöngu hægt vegna þess að maður veit að það tekur brátt enda og að þetta auðveldar okkur flutningana til Íslands.

posted by Thormundur | 14:39

föstudagur, maí 14, 2004  

::: Hrærður prins
Eins og margir aðrir tók ég þátt í gleði Dana og horfði á brúðkaup Friðriks og Mary í sjónvarpinu í dag. Ég tók mér sem sagt smá pásu frá vinnunni til að sjá prinsinn tárast, hringana skrúfaða upp á konunglega fingur og kossinn, sem beðið hafði verið af mikilli eftirvæntingu í Danmörku. Sóley og Sigurveig voru enn nær viðburðunum því þær fóru niður í bæ og heilsuðu nánast upp á nýgiftu hjónin á Strikinu - svo nærri gátu þau fylgst með kerruferð brúðarparsins um stræti kóngsins Kaupmannahafnar.

Það sem hrærði mig mest í brúðkaupinu var augnablikið þegar Friðrik táraðist fyrir framan þjóð sína og alheim í beinni sjónvarpsútsendingu. Ég gat auðveldlega sett mig í spor Friðriks. Rétt eins og hann, táraðist ég þegar dyrnar lukust upp í Háteigskirkju fyrir tæpum tveimur árum og Sóley gekk inn kirkjugólfið, íklædd fallega brúðarkjólnum, sem við keyptum einmitt í Danmörku. Sigurveig man mjög vel hvar við keyptum brúðarkjólana - og aldrei bregst það þegar við göngum framhjá búðinni að hún segi: "Þarna keyptum við kjólana fyrir brúðkaupið okkar," með sérstakri áherslu á síðasta orðið.

Það er liðin tæp vika síðan stelpurnar voru hérna hjá mér. Heimsóknin í síðustu viku var frábær. Sigurveig fór nánast beint úr flugvélinni í leikhús að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Hún fór vitanlega líka einn dag í 6 ára gestabekkinn sinn í Hofsstaðaskóla. Við Sóley fórum líka í leikhús og spásseruðum um bæinn og mollin rétt eins og ferðamenn. Talandi um ferðamenn. Ferðamennirnir tveir frá Danmörku voru reyndar frekar óheppnir með veður því hitinn var við og undir frostmark nær alla vikuna meðan sólin skein í Köben. Við fengum þó fáeina góða daga í lokin án kulda og roks.

Næst er komið að mér að heimsækja þær. Stelpurnar koma reyndar ekkert aftur til Íslands fyrr en við flytjum alkomin í lok júlí. Tímasetningar ætla að ganga vel upp því við erum svo heppin að fá nýju íbúðina afhenta 1. ágúst og getum því strax farið að koma okkur vel fyrir.

posted by Thormundur | 23:27

miðvikudagur, apríl 07, 2004  

::: Hróarskelda
Við fórum þúsund ár aftur í tímann í dag. Fórum til Hróarskeldu og skoðuðum bæði Víkingasafnið og Dómkirkjuna. Sigurveig er mjög upptekinn af því hvað gerðist í "gamla daga" og spyr mann reglulega hvort við foreldrarnir höfum verið til í gamla daga. Hún fullyrðir hins vegar að hún hafi ekki verið til í gamla daga. Henni þótti nokkuð spennandi í Víkingasafninu, ekki síst að fá að klæða sig upp eins og Víkingastelpa til forna. Við klæddum okkur öll í þar til gerð föt og létum taka myndir af okkur.

Veðrið er ekki að leika við okkur núna um páskana en var þó þokkalegt í dag. Í gær snjóaði lítillega og eftir þurran dag í dag er búist við rigningu næstu daga. Vonum þó að úr rætist á laugardag þegar við stefnum á ferð til Helsingør. Við teljum okkur þá hafa skoðað mikilvægustu staði á Sjálandi en við höfum farið víða síðustu tvö ár hér í nágrenni Kaupmannahafnar. Í sumar stefnum við hins vegar á yfirreið yfir Fjón og Jótland - svona áður en við yfirgefum landið.

posted by Thormundur | 23:26

þriðjudagur, apríl 06, 2004  

::: Experimentarium
Við fórum í dag á mjög skemmtilegt vísindasafn fyrir börn - Experimentarium. Það er reyndar á mörkunum að kalla megi þetta safn - þetta er meira í líkingu við vísindaskemmtigarð. Þarna gátum við m.a. skoðað skordýr í öllum stærðum og gerðum, rannsakað heilann, gert tilraunir með mannslíkamann ýmsa aðra skemmtilega hluti. Þetta var í senn leikur og lærdómur fyrir okkur öll. Það er óhætt að mæla með þessu safni fyrir börn.

Sigurveig missti í gær sína fjórðu tönn. Nú hefur hún á stuttum tíma misst tennurnar hvorum megin við neðri framtennurnar. Þetta eru flott skörð og Sigurveig frekar stolt eins og fyrri daginn.

Við höfum það mjög gott í páskafríinu okkar. Sigurveig fer auðvitað ekkert í skólann, Sóley er í fríi og ég vinn milli þess sem við gerum eitthvað skemmtilegt. Nú verður maður að nýta tímann vel fyrst maður er hálffluttur til Íslands. Um páskana ætlum við að ferðast svolítið, skreppa til Hróarskeldu til að skoða Víkingasafnið og rölta um bæinn og líka til Helsingør, þar sem við kíkjum líklega á Krónborgarkastala. Í báðum bæjum er mjög skemmtilegur miðbær með verslunum og veitingastöðum við hvert fótmál.

Það er afskaplega þægileg tilfinning að hafa fundið sér íbúð. Það auðveldar flutninga í sumar til mikilla muna. Það var líka ekki seinna vænna því flestir seljendur vilja nokkra mánuði til að afhenda. Sigurveig spurði reyndar um daginn þegar henni var sagt að hún og mamma hennar ætluðu daginn eftir til Íslands til að skoða/kaupa nýja íbúð: "Má ég þá sofa í nýja herberginu mínu." Þetta gekk hratt fyrir sig en ekki alveg svo hratt.

posted by Thormundur | 20:24

föstudagur, apríl 02, 2004  

::: Bogahlíð 7
Hlutirnir hafa gerst hratt í þessari viku. Á þriðjudag skoðaði ég íbúð, á miðvikudaginn flugu Sóley og Sigurveig til Íslands, við gerðum tilboð í gær og í dag var það samþykkt. Við höfum því eignast nýja íbúð og fáum við hana afhenta í haust. Íbúðin er við Bogahlíð 7 og er því nánast í túnfætinum heima - við sjáum gamla garðinn við Stigahlíð úr eldhúsinu.

Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Íbúðin er fimm herbergja íbúð á fyrstu hæð og hentar okkur afar vel. Húsið stendur á horni Bogahlíðar og Grænuhlíðar og snýr raunar út að Grænuhlíð. Staðsetningin gæti ekki verið betri. Hlíðaskóli er í næsta nágrenni en þar var Sigurveig skráð í skóla eftir hádegi í dag. Sóley hefur fengið tilboð um kennarastöðu í Háteigsskóla og þá er heldur ekki of langt fyrir mig að fara í vinnu í miðbænum.

Sigurveig og Sóley verða hér fram á sunnudag en þá förum við öll til Köben til að slappa af saman um páskana. Svo kem ég aftur heim í vinnuna.

Ég hef tekið mér gott hlé frá bloggritun síðustu vikur enda eitthvað bogið við að skrifa á Voldumvej-bloggið á Íslandi. En nú erum við öll á Íslandi og þá er það ekki bara þörf heldur nauðsyn. Sóley hefur haldið uppi heiðri Voldumvej-bloggsins og hefur nánast tekið við sem ritstjóri vefsins! Hver veit nema að Bogahlíðarblogg líti dagsins ljós næsta vetur?

posted by Thormundur | 23:56

sunnudagur, mars 07, 2004  

::: Heim til Íslands
Nú er það endanlega orðið opinbert. Við ætlum að flytja heim til Íslands í sumar. Við sögðum Sigurveigu fréttirnar í morgun og ekki er hægt að segja annað en að það hafi gengið vel. Hún réði sér ekki fyrir kæti og hlakkar mikið til að flytja, eignast nýtt heimili og finna nýjan skóla. Við áttum nú frekar von á því að hún tæki þessu vel en viðbrögð hennar voru framar vonum. Það er mikilvægt að Sigurveig sé glöð með þetta því hún hefur verið mjög ánægð í skólanum hér úti og eignast margar vinkonur.

Við höfum verið mjög ánægð með dvölina í Danmörku en töldum bæði rétt að flytja heim á þessum tímapunkti. Við höfum náð flestum markmiðum okkar með ferðinni og hlökkum til að takast á við ný verkefni heima. Það stóð auðvitað aldrei annað til en að flytja heim. Við höfum þegar hafið fasteignaleit, mest á netinu, en ég kíkti á nokkrar íbúðir í síðustu viku þegar ég var heima. Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leitar að húsnæði. Við ætlum m.a. helst af öllu að kaupa íbúð með breiðbandi þannig að við getum horft á danskar sjónvarpsstöðvar! Þannig gæti Sigurveig til dæmis haldið við dönskunni. Hún gæti fyrst horft á danskan barnatíma og svo á Stundina okkar. Við segjum nánari fréttir af fasteignakaupum þegar þar að kemur.

Og það eru fleiri fréttir. Mér bauðst nýlega gott starf á Íslandi sem ég þáði. Ég hef verið ráðinn til Landsbanka Íslands og mun ritstýra Landsbankavefnum. Afrakstur af því starfi munu menn þó fyrst sjá af alvöru þegar nýr vefur fer í loftið síðar á árinu. En það var ekki eftir neinu að bíða. Ég hef þegar hafið störf sem þýðir að ég verð töluvert á Íslandi næstu mánuði. Ekki þarf ég að hafa áhyggjur af matnum í mötuneytinu, svo mikið er víst!

Að öllum líkindum flytjum við í lok júlí en stefnan er að Sóley klári keppnistímabilið, Sigurveig skólaárið og að við sláum botn í dvöl okkar með sumarfríi í Danmörku. Höfum við hugsað okkur að ferðast vítt og breitt um landið og kynnast því betur svona rétt áður en við yfirgefum það.

posted by Thormundur | 18:30

sunnudagur, febrúar 29, 2004  

::: Glæsilegur sigur
Rødovre-píur komu sannarlega á óvart í kvöld með því að vinna eins marks sigur 26-27 á liðinu í þriðja sæti deildarinnar, Odense. Og í þokkabót vannst sigurinn á útivelli. Og hver tryggði sigurinn? Það gerði Sóley auðvitað! Í þetta sinn kom hún bara af bekknum í vítum en varði líka tvö vítaköst á lokakafla leiksins, hið fyrra þegar fjórar mínútur voru eftir og hið síðara þegar fjórar sekúndur lifðu af leiknum - og kom þannig í veg fyrir að Odense tækist að jafna. Húrra! Ég varð hreinlega að skrifa um þetta áður en Sóley kæmist í tölvuna. Það er alltaf smá hætta að hún gerist hógvær. En vonandi skrifar hún eitthvað meira um málið á næstunni!

Eins og lesendur síðunnar hafa getað fylgst með hefur liðinu gengið nánast allt í mót síðustu mánuði eftir góða byrjun - og svo einn sigur í bikarkeppninni um daginn. En þetta breyttist í kvöld. Og við þennan óvænta sigur eygir Rødovre að nýju litla von um að halda sér í deildinni eða komast í umspil en næstu leikir eru gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Maður leyfir sér þó bara að vera hóflega bjartsýnn því sóknarleikur liðsins hefur verið mjög brokkgengur í vetur.

Við Sigurveig fórum út að borða í kvöld og buðum vinkonum hennar, Michelle og Clöru, með. Ferðinni var heitið á McDonalds sem því miður er alltof nálægt okkur. Það var mikið fjör í boltalandinu en óvæntara var að lítið þurfti að reka á eftir matnum upp í þær. Til þess beitti maður mjög einfaldri taktík. Þær léku sér meðan ég var í biðröðinni en urðu síðan að klára matinn til að komast aftur í boltalandið og opna pokann með dótinu, sem fylgdi glöðu máltíðinni (Happy Meal). Þegar við komum heim fengum við svo þessar fínu fréttir af boltanum.

Til að fyrirbyggja misskilning förum við ekki alltaf á McDonalds þegar mamma er að keppa eða á æfingu. Gerum það bara til hátíðabrigða. Við Sigurveig eldum þess í stað fjölbreyttan mat þrisvar í viku meðan mamma er á æfingu. Eða eins og Sigurveig orðar það: "Er mamma á æfingu? Verður þá pasta í kvöldmatinn?"

posted by Thormundur | 23:17

laugardagur, febrúar 28, 2004  

::: Alein í bakaríið
Sigurveig fór í fyrsta sinn alein í búð í morgun - nánar tiltekið til bakarans og keypti eitt stykki brauð. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hún var stolt. Forsagan er sú að fyrr í vikunni komst hún að því að ein bekkjarsystir hennar fær stundum að labba heim úr skólanum. Síðan hefur hún ekki talað um annað og spurt hvort hún megi ekki líka. Enda þótt bekkjarsystirin búi rétt hjá er stór munur á leiðum þeirra, því Sigurveig þyrfti að fara yfir fjölfarna umferðargötu. Þetta kemur hins vegar ekki til greina að svo stöddu og því gerðum við samning við stelpuna. Hún fékk sem sagt að fara ein í bakaríið - snemma á laugardagsmorgni þegar umferðin er lítil.

Jú, mikið rétt. Sigurveig vaknaði óvenju snemma í morgun því hún var svo spennt. Þegar á hólminn var komið og hún var hálfnuð stíginn út úr íbúðahverfinu sagðist hún ekki þora. Ég hvatti hana áfram af svölunum meðan Sóley þóttist þurfa að fara í þvottahúsið en fór þess í stað upp á götu að fylgjast með bak við tré. (Fyrirgefðu, Sigurveig, ef þú lest þetta tíu árum síðar). Sigurveig safnaði kjarki og hélt áfram leið sinni í bakaríið. Ferðin gekk mjög vel og hún kom með nýtt, ilmandi brauð í morgunmatinn. Hún var afar stolt og fullvissaði okkur um að hún hefði fengið bæði afganginn og rétt brauð.

Nú er bara að vona að þessi málamiðlun haldi og að hún telji ferðina í bakaríið nægilega mikla áskorun í bili.

posted by Thormundur | 22:42

miðvikudagur, febrúar 11, 2004  

::: Ein tönn farin
Sigurveig missti eina tönn í dag. Hún er því með fallegt skarð í neðri góm. Hún er að vonum stolt stúlka og fannst flottast að draga hana sjálf úr. Ég get lofað því að myndir af tannlausu stelpunni verður sett á netið við fyrsta tækifæri ásamt fleiri myndum. Það er töluverður þrýstingur á myndir ef marka má gestabókina.

Ég fór með tannlausu stúlkuna á tónleika í dag með einni vinsælustu barnastjörnu Dana, Anne Gadegaard, sem vann danska söngvakeppni í anda Eurovision. Hún var með tónleika í verslunarmiðstöðinni Fisketorvet og máttum við þakka fyrir að sjá eitthvað. Smygluðum okkur reyndar inn á veitingastað með útsýni yfir sviðið. Talandi um Eurovision. Sigurveig er upprennandi Eurovision-aðdáandi. Hún heldur mikið upp á "íslenska" lagið sem Danir völdu sem sitt framlag í keppninni í ár. Ég sýndi henni hvernig hægt er að horfa og hlusta á lagið í tölvunni - og síðan hefur hún viljað horfa á það nokkrum sinnum á dag.

posted by Thormundur | 23:09

laugardagur, febrúar 07, 2004  

::: Íslenska lagið vann!
Það var sungið, dansað og fagnað á Voldumvej í kvöld. Danir héldu nefnilega undankeppni sína fyrir Eurovision í kvöld með pompi og prakt. Og viti menn. Íslenska lagið vann! Þetta er sko engin lygi. Það var hinn hálfíslenski Thomas Thordarson sem söng sigurlagið "Sig det' løgn". Ekki nóg með að lagið sé íslenskt heldur er það sungið í sannkallaðri latin salsa-sveiflu sem þýðir að þegar búið verður að þýða textann yfir á ensku verður engin leið að átta sig á að þetta er framlag Dana til Eurovision.

Það kemur skemmtilega á óvart að Danir reyna ekkert að fela hvaðan Thomas á rætur sínar hálfar að rekja. Í kynningu var hann spurður um þetta (skrýtna) nafn Thordarson og stökk hann þá fram úr skápnum og viðurkenndi íslensku sína. Í frétt BT í kvöld segir einfaldlega: "Den 29-årige Tomas Thordarson med islandske rødder vandt i aften det danske Melodi Grand Prix. Sangen "Sig det er løgn" blev stemt ind på en suveræn 1. plads." Staðreyndin er að Thomas þessi er borinn og barnfæddur í Danmörku en faðir hans er alíslenskur. Þetta er hinn nýi Bertel Thorvaldsen. Nýlega kynntist Thomas íslenskum hálfbróður sínum í fyrsta sinn og segja fjölmiðlar að hálfbróðirinn hafi fylgst náið með keppninni frá Íslandi - enda hægt að horfa á danska ríkissjónvarpið á breiðvarpinu!

Við Sigurveig skemmtum okkur konunglega yfir söngvakeppninni meðan Sóley fór í innflutningspartý hjá einni í Rødovre-liðinu, en þar á eftir liggur leið hennar og íslenskra vinkvenna hennar hér úti á dansleik með Skímó, sem haldinn er eftir þorrablót Íslendingafélagsins.

Það skal nefnt hér í framhjáhlaupi að Sóley og co. töpuðu enn og aftur í dag, nú gegn einu af toppliðunum en Sóley lék mjög vel þær mínútur sem hún fékk.

Fyrir þá sem undrast bloggleysi síðustu viku þá eru engar skýringar á því. Alls engar. Maður hefði til dæmis getað gert upp EM í handbolta en það er of seint núna. Allt of seint.

posted by Thormundur | 22:56

sunnudagur, janúar 25, 2004  

::: Gengur betur næst
Ballið er búið hjá strákunum okkar. Við vorum svo nærri því að komast áfram en samt svo fjarri. Þrátt fyrir að við gerðum jafntefli í kvöld fannst manni möguleikinn aldrei mikill. Þetta var greinilega ekki okkar mót. Ef við horfum framhjá hugsanlegum mistökum þjálfara virðist sem liðið hafi aldrei komist í gang. Eftir á að hyggja var það óheppni að mæta heimamönnum í fyrsta leik og möguleikarnir runnu endanlega í sandinn á móti Ungverjum. Gengur betur næst.

Danir eru hins vegar í skýjunum. Þeir áttu stórleik í kvöld og unnu Spánverja þar sem vörn og markvarsla var í heimsmælikvarða. Danska pressan er nú aftur kominn í gírinn enda eiga Danir nú sæmilega mögulega á undanúrslitum. Aðalmarkmiðið (í bili) er þó sæti á Ólympíuleikum en eitt sæti er í boði. En í þeim efnum þurfa þeir að vera ofar en Svíar, Serbar og Ungverjar sem öll berjast um þetta eina sæti.

Nú þarf maður að finna sér einhvern til að halda með. Sóley heldur auðvitað með Dönunum. Ég hef það helst gegn Dönunum hvað þeir geta verið óþolandi ánægðir með sig þegar vel gengur. Það verður að segjast að þeir hafa verið mun hógværari en nokkru sinni áður - enda hafa þær lært af reynslunni, sérstaklega eftir síðasta HM þegar þeir voru nánast krýndir heimsmeitastarar fyrir mótið.

Næsta vika verður spennandi. Spennandi leikir nánast á hverju kvöldi.

posted by Thormundur | 23:55
 

::: Risaeðlur mætast
Keppni á EM er í fullum gangi núna og úr fjölmörgum beinum útsendum að velja í sjónvarpinu. En því miður er íslenski leikurinn hvergi á dagskrá. Í þessum skrifuðu orðum er að hefjast leikur risaeðlanna á mótinu, Svía og Rússa. Sumir leikmenn hafa verið lengur í liðinu en elstu menn muna. Dönsku lýsendurnir kalla leikinn einmitt svar handboltans við Jurassic Park.

Danir voru hársbreidd frá að vinna heimsmeistara Króata í gær eftir hádramatískan leik. Þeir þurfa því að vinna Spánverja í kvöld til að taka tvö stig með sér í milliriðla og eiga séns á undanúrslitum í keppninni. Eins og lesendur vita væntanlega held ég ekki með Dönum í mótinu, frekar en endranær í karlaboltanum. En þegar valið stóð á milli Dana og Króata hélt maður með "samlöndum" sínum. Mér finnast Króatar einfaldlega vera með leiðinlegt lið og spila svolítið "dirty". Þeir hafa líka heppnina og dómara með sér - fengu til dæmis eitt stig af gjöf í leiknum á móti Spáni þegar dómararnir dæmdu kolólöglegt sigurmark þeirra á lokasekúndunni gilt.

Örlög okkar ráðast á eftir. Ef við vinnum komumst við áfram en það verður eiginlega bara til málamynda. Við fáum engin stig með í milliriðil og eigum því engan séns á undanúrslitum - raunar í besta falli möguleika á að spila um 7. sætið. En við þurfum ekkert að örvænta. Við erum með sæti á Ólympíuleikum tryggt og ef við komumst áfram á milliriðil hlýtur markmiðið að vera að vinna einn eða tvo leiki svona til að efla sjálfstraustið.

Maður hefur hins vegar heyrt sögusagnir um að þjálfarar landsliðsins muni segja af sér ef leikurinn tapast í kvöld. Mér fyndist það alveg koma til greina því það er alveg ljóst að Guðmundur Guðmunds og co. hafa gert mistök í undirbúningi mótsins og við val á leikmannahópnum. Guðmundur staðfestir það raunar sjálfur með því að velja ekki Dag og Róbert Sighvats í hópinn fyrir leikinn á móti Tékkum. En þetta kemur allt í ljós á eftir. Ætli maður hlusti ekki á lýsingu á Rás 2 síðustu mínúturnar.

posted by Thormundur | 18:12

fimmtudagur, janúar 22, 2004  

::: Lasnar mæðgur og valdastríð ráðherra
Sóley og Sigurveig eru báðar lasnar og voru heima í dag. Sóley var nú aðeins slöpp um síðustu helgi en um það bil þegar hún var að koma til á þriðjudag fékk hún bylmingshögg í höfuðið á æfingu og hefur verið hálf vönkuð síðan. Íslendingar eru greinilega löndum sínum verstir - en það var aumingja Heiða liðsfélagi hennar sem varð fyrir þeirri ógæfu að láta verja frá sér með þessum hætti. Sigurveig fékk hins vegar ælupest í nótt en virðist strax vera að ná sér. Henni þótti nú ekkert leiðinlegt að vera heima í dag og horfði á sjónvarp, spilaði og hlustaði á tónlist í allan dag. Ég var hins vegar sendur út í kuldann til að kaupa eitt og annað handa sjúklingunum - ís, nammi, ávexti og hitamæli.

Mál málanna hér í Danmörku er hins vegar nýjar uppljóstranir á stormasömum samskiptum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem jafnframt eru formenn aðalsamstarfsflokkanna í ríkisstjórn, Venstre og Konservative. Ekstra Bladet komst nefnilega yfir myndefni frá danska ríkisútvarpinu, sem klippt var burtu við gerð heimildarmyndar um leiðtogafund ESB undir stjórn Dana síðastliðið haust. Myndinni var ætlað að varpa ljósi á baktjaldamakkið á leiðtogafundinum og styrka stjórn danska forsætisráðherrans á fundinum. Óklippt þótti heimildamyndin töluvert umdeild enda voru kvikmyndamenn svo að segja með í öllum plottum og baktjaldamakki. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, fékk þá að heyra það frá kollegum sínum í Evrópu og sumir gengu svo langt að kalla hann asna (hver annar en Chirac).

En aftur að efninu. Málið er hið pínlegasta fyrir ríkisstjórnina. Það er fyrst og fremst Anders Fogh sem situr í súpunni. Hann er vondi kallinn á myndunum og að mati margra opinbera þær ráðríki hans og miskunnarlausan stjórnunarstíl (minnir þetta á einhvern?). Á myndskeiðunum kemur greinilega í ljós hvernig hann niðurlægir utanríkisráðherrann, Per Stig Möller, og tekur loks af honum öll völd við samningaborðið. Á einu myndskeiðinu sést hvar Per Stig kvartar yfir því að fá ekki að viðra hugmyndir sínar. Anders Fogh svarar þá með þjósti: "Nú, hefur þú einhverjar hugmyndir?" Fleiri myndskeið eru til þar sem utanríkisráðherrann er svínaður til, m.a. af fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherrans sem í einu myndbroti ræðir "vandamálið með utanríkisráðherrann" við innanríkisráðherrann, Bertel Haarder, sem er samflokksmaður Anders Fogh.

Þáttur danska ríkisútvarpsins er athyglisverður. Í fyrsta sinn í sögunni hafa myndbrot lekið úr aðalstöðvum DR. Forráðamenn DR eru vitanlega í áfalli vegna upplýsingalekans og hóta öllu illu; hyggjast refsa þeim sem "lak" myndunum og hóta Ekstra Bladet málsókn. Ekstra Bladet upplýsir hins vegar að DR og danska forsætisráðuneytið hefðu komist að samkomulagi um að ráðuneytið fengi að ritskoða efni við framleiðslu þáttarins - undir því yfirskyni að verja danska þjóðarhagsmuni. Með því hafa þeir hins vegar gerst sekir í að taka þátt í áróðursstríði forsætisráðherrans með því að framleiða heimildamynd í samstarfi við ráðuneytið.

Anders Fogh hefur reynt að gera lítið úr þessu máli en það er ekki enn séð fyrir endanum á því. Utanríkisráðherrann er í Afríku og undirbýr væntanlega næstu skref sín úr fjarlægð eins og Hannes. Stjórnmálasérfræðingar telja valdastríð ráðherranna mjög skaðlegt fyrir stöðu Dana í utanríkismálum - enda vilja Danir gjarnan leika aðalhlutverk á vettvangi alþjóðastjórnmála og innan ESB.

posted by Thormundur | 18:52

fimmtudagur, janúar 15, 2004  

::: Ljúft að vinna Dani
Það er alltaf ljúft að vinna Dani. Ísland yfirspilaði Dani á löngum köflum í handboltalandsleiknum í kvöld. Við horfðum á leikinn í óbeinni og strákarnir okkar stóðu sig mjög vel. Danir afsökuðu sig í bak og fyrir eftir leikinn og fyrir vikið varð sigurinn ljúfari. Þeir sögðust hafa verið svo þreyttir eftir erfiða æfingu í gær, úrslitin hafi ekki verið aðalatriðið og að markmiðið hafi fremur verið að gera tilraunir með eitt og annað í vörn og sókn. Allt klassískar afsakanir.

En það er eitt sem Danir öfunda okkur mikið af - það er Óli Stefáns. Þeir halda hreinlega ekki vatni yfir honum og hrósuðu honum í hvert sinn sem hann ýmist skoraði eitt af sínum níu mörkum eða gaf eina af sínum óteljandi stoðsendingum á línunni. Sannkallaður stórleikur hjá honum. Satt að segja lék allt íslenska landsliðið vel í leiknum en sérlega gaman að sjá að Snorri Steinn og Reynir voru mjög góðir og virðast geta leikið lykilhlutverk á EM eftir viku.

Meira um handbolta og EM síðar.

posted by Thormundur | 23:53

fimmtudagur, janúar 01, 2004  

Gleðilegt ár!
Við óskum lesendum gleðilegs ár og þökkum fyrir lesturinn á síðasta ári. Við höfum lítið skrifað á síðuna að undanförnu enda mjög upptekin við jólahald á Íslandi. Við höfum reyndar fengið góða hvíld frá netinu því það er engin nettenging á Holtsgötu - og við höfum sannarlega ekki nennt að blogga í boðum - fyrr en nú! Það mun færast meira líf í bloggið þegar við erum komin aftur á Voldumvej. Það styttist víst í það.

posted by Thormundur | 19:27

sunnudagur, desember 07, 2003  

::: Dvínandi trú á jólasveininn?
Allt þar til í morgun hefur trú Sigurveigar á jólasveininn verið einlæg og óbifuð. Það gerðist á hinn bóginn í morgun að Sigurveig dró í efa að jólasveinninn hefði gefið henni gjöf morgunsins og gaf í skyn að hugsanlega hefðum við komið þar nærri! Þvílík firra! :-)

Fyrir þá sem undrast að hún hafi fengið gjöf frá jólasveininum í morgun skal það útskýrt að hér í Danmörku tíðkast sú hefð að gefa svokallaðar kalender-gjafir frá fyrsta degi desember-mánaðar. Ekki gátum við látið Sigurveigu bíða eftir íslensku jólasveinunum meðan aðrir krakkar í bekknum fá litlar gjafir á hverjum degi. En við höfum hugsað okkur að láta hana setja skóinn í gluggann og telja henni trú um að íslenski jólasveinninn komi hingað með Iceland Express á hverjum degi. Sennilega þarf þó engar slíkar skýringar. Jólasveinninn getur allt, farið með gjafir til barna í öll hús á hverri nóttu og jafnvel inn um læstar og lokaða glugga!

En aftur að trúnni. Við létum sem ekkert væri og játuðum ekki sök okkar - ekki að sinni. Hún sat þó á rúminu og horfði á okkur tortryggnislega. Þetta voru erfið augnablik en svo skiptum við bara um umræðuefni. Hún var líka ánægð með gjöfina og uppgötvar líkast til fljótt að það borgar sig að trúa á jólasveininn!

posted by Thormundur | 23:56

laugardagur, desember 06, 2003  

::: Bloggað í eitt ár!
Fjölskyldan Voldumvej 80 á eins árs bloggafmæli í dag. Fyrsta bloggfærslan var skrifuð 6. desember fyrir ári síðan og við erum enn að. Við þökkum lesendum kærlega fyrir góðar viðtökur en bloggið hefur ásamt spjalli á MSN-inu fært okkur nær fjölskyldu og vinum - og sömuleiðis lækkað símreikninga okkar töluvert. Við lofum því að halda ótrauð áfram skrifum á síðuna okkar.

Annars er allt gott að frétta héðan. Í gærkvöldi buðum við Sóleyju Grétars og Edu í mat og voru það fyrstu kynni okkar af hinum spænska kærasta Sóleyjar. Við komumst m.a. að því að Edu spilaði handbolta á sínum yngri árum. Sigurveig var stjarnfræðilega feimin að þessu sinni og fór ekki úr skel sinni fyrr en seint um kvöldið þegar svefngalsinn tók völdin.

Töluvert var fjallað um veðrið hér úti í gær og síðustu nótt í íslenskum fjölmiðlum. Við erum heil á húfi! Við fórum nú að mestu á mis við "óveðrið" en vindurinn barði húsið þó óvenjusterkt um það leyti sem við vorum að fara að sofa. Í okkar augum var þetta þó meira í ætt við íslenskan stinningskalda - eða eitthvað álíka.

posted by Thormundur | 17:27

föstudagur, nóvember 28, 2003  

::: Nýjar myndir
Þá eru loksins komnar nýjar myndir á myndavef fjölskyldunnar. Þar eru glænýjar myndir frá afmælisdegi Sigurveigar og komu afa Dóra í gær. Aldrei er að vita nema fleiri myndir birtist næstu daga og vikur. Fylgist því vel með!

posted by Thormundur | 16:17

miðvikudagur, nóvember 26, 2003  

::: Hún á afmæli í dag!
Sigurveig á afmæli í dag. Hún er orðin sex ára gömul! Hún hefur hlakkað mikið til dagsins og í morgun vaknaði hún hress og kát einu ári eldri. Hún fékk vitanlega að taka upp pakkann frá mömmu og pabba áður en hún fór í skólann. Pakkarnir voru tveir. Hún byrjaði á þeim litla og var afskaplega glöð með innihaldið - því þar fékk hún geisladisk með lögunum úr Eurovision-keppni barnanna. Þar á hún nokkur uppáhaldslög. Seinni pakkinn var aðeins stærri og pappírinn fékk að fjúka hratt og örugglega. Gleðin var ekki síðri þegar hún uppgötvaði að hún hefði fengið tæki "til að spila diska" eins og hún orðaði það. Hún fékk sem sagt ferðageislaspilara - svona lítinn ghettoblaster. Tækinu var stungið í samband, diskurinn settur í og síðan dansað við nokkur lög. Eftir morgunmat að eigin vali lá svo leiðin í sex ára bekkinn í skólanum.

Vikan verður sannkölluð afmælisvika. Tilviljun ræður því að hún heldur í raun þrisvar upp á afmælið! Á laugardaginn verður haldin stór veisla með öllum stelpunum úr bekknum hennar. Strákarnir mega "auðvitað" ekki koma! Afi Dóri kemur svo á morgun og þá verður fagnað og sjálfsagt teknir upp einhverjir íslenskir pakkar. Í dag verður hins vegar haldin lítil veisla - svona á sjálfan afmælisdaginn - en í hana eru boðnar tvær bestu vinkonur hennar úr nágrenninu. Önnur þeirra hefði ekki komist á laugardaginn þannig að niðurstaðan varð ein lítil veisla, ein afaveisla og ein stór bekkjarveisla.

Myndavefurinn góði hefur fengið töluverða hvíld síðustu mánuði en nú stendur til að ráða bót á því. Ég get lofað því að við allra fyrsta tækifæri verða settar inn nýjar myndir - meðal annars af afmælisbarninu og gestum hennar næstu daga.

posted by Thormundur | 09:55

laugardagur, nóvember 22, 2003  

::: Innkaupaleiðangur
Við létum loks verða af því. Fengum lánaðan bíl nágranna okkar og fórum í innkaupaleiðangur í stóru búðirnar, Ikea, Elgiganten, Toys 'R' Us og Føtex. Við slógum nokkrar flugur í einu höggi og nýttum bílinn vel. Í Ikea keyptum við dótakistu handa Sigurveigu, sem lengi hefur staðið til að kaupa í stíl við rúmið hennar. Eitt og annað smálegt og ódýrt fékk að fylgja með - svona til málamynda - en við vorum svo heppin að kistan var seld á hálfvirði.

Því næst héldum við í Elgiganten (Elko) og keyptum afmælisgjöf handa Sigurveigu. Jú, hún var með en okkur tókst að afvegaleiða hana með ýmsum hætti. Hver gjöfin er verður upplýst síðar. Næsti áfangastaður var Toys 'R' Us. Þar náðum við að kaupa minnst fjórar jólagjafir á einu bretti. Þar fengum við líka allt í afmælisveislu Sigurveigar - diska, glös, rör, servíettur og fleira. Í ár verður Braatz-dúkku þema. Loks enduðum við í Føtex til að gera helgarinnkaupin.

Þegar heim var komið varð handlagni heimilisfaðirinn að taka upp verkfæri sín því Sigurveig gat ekki beðið eftir dótakistunni góðu. Svo var dótinu raðað í kistuna eftir kúnstarinnar reglum. Sóley var þá farinn út að hitta Jónu og Sóleyju Grétars - og það endaði þannig að Sigurveig fór ekki að sofa fyrr en um ellefu. Fyrir utan smíðarnar kom í ljós að það er hlaupinn aukinn afmælisspenningur í stelpuna. Við mamma hennar viðurkenndum að við værum búin að kaupa gjöfina hennar og meðan hún var ekki að smíða eða raða í kistuna leitaði hún hátt og lágt í íbúðinni eftir gjöfinni. Hún fann að lokum tvo grunsamlega kassa í plastpökum en ég sagðist ekkert vita. Staðreyndin var að hún hafði fundið gjöfina og nú verð ég að finna nýjan felustað.

posted by Thormundur | 23:41

föstudagur, nóvember 14, 2003  

::: 12 ár
Við Sóley eigum afmæli í dag. Við höfum þekkst, verið á föstu, trúlofuð og að lokum gift samtals í 12 ár! Þessu ætlum við að fagna í kvöld með því að fara út að borða. Ánægjan verður tvöföld því að Vala og Jói ætla að borða með okkur. Þau eru hér í helgarferð með vinnunni hans Jóa.

Við völdum mexíkanskt í kvöld en Sóley er frekar svag fyrir því. Við pöntuðum borð á einum besta mexíkanska staðnum í bænum, El Viejo Mexico, sem einfaldlega merkir gamla Mexíkó. Staðurinn er á Store Kongensgade skammt frá Kongens Nytorv og Nýhöfn.

posted by Thormundur | 17:09

fimmtudagur, nóvember 13, 2003  

::: Ég held með ...
Sigurveig kom mér skemmtilega á óvart um síðustu helgi. Þar sem ég horfði spenntur á viðureign stórliðanna tveggja í dönsku knattspyrnunni, Brøndby og FC København, spurði hún mig hvaða lið væru að spila - og fylgdi því eftir með að spyrja með hverjum ég héldi. Ég sagði henni að ég héldi með FCK, liðinu í hvítu búningunum. Þá sagðist mín sko halda með Brøndby!

Nú voru góð ráð dýr. En þar sem þetta snerist hvorki um KR eða Manchester United var ég pollrólegur. Það væri nú kannski ekki svo hræðilegt að hún héldi með öðru liði en pabbi gamli. Ég brosti bara og spurði hana hvers vegna hún héldi með Brøndby, liðinu í gulu búningunum. Fyrst sagði hún "bara" en að lokum tókst mér að staðfesta grun minn. "Allir í bekknum mínum halda með Brøndby," sagði hún stolt. "Nema Khalid. Hann heldur með FCK." Og nafnið sagði hún fullkomnum hreim og réttri áherslu, þ.e. þungri áherslu á K-ið.

Nú skal það upplýst að mjög margir í Rødovre halda með Brøndby enda nágrannabæir hér í Vestvolden, en svo kallast svæðið vestur og suður af Kaupmannahöfn. FCK er hins vegar klassískt stórborgarstórlið - líkt og KR - og þess vegna hef ég haldið með þeim!

En aftur að sögunni. Þegar ég hafði komist að því hvaðan hún vissi allt um Brøndby og FCK, virtist sem hún sæi eitthvað að sér og Brøndby-brosið hvarf skyndilega. "En ég vil halda með sama liði og þú, pabbi," sagði hún með klökkri röddu. Ég fullvissaði hana hins vegar um að hún ætti að halda með því liði sem hún vildi (en nefndi auðvitað ekki að þessi regla ætti helst ekki að gilda um KR). Og að það væri bara mjög gaman að allir í bekknum héldi með Brøndby.

Hún tók þessum rökum vel en sneri síðan endanlega á mig. "Vilt þú ekki halda með mínu liði?" sagði hún og setti upp vonarsvipinn sem feður falla gjarnan fyrir - þann sama og hún notar þegar hún biður lymskulega um nammi. Ég reyndi að koma til móts við hana og bauðst til að halda líka með hennar liði og hélt þá að ég væri hólpinn. Aldeilis ekki. "Það er ekki hægt að halda með mörgum liðum," sagði hún þá frekar hneyksluð. Sigurveig hitti auðvitað naglann á höfuðið. Maður getur ekki haldið með tveimur knattspyrnuliðum. Hver heldur bæði með Manchester United og Arsenal eða bæði KR og Val?

Í tilefni af þessu öllu saman hyggst ég nota tækifærið og kenna henni sitthvað um umburðarlyndi í samskiptum áhangenda erkifjenda í knattspyrnu. :-) Það er uppeldisleg skylda mín að fullvissa hana um að hún megi halda með Brøndby - en jafnframt að ég megi nú kannski halda áfram stuðningi við mitt lið. Við förum kannski saman á næsta leik, ég í hvítu og hún í gulu. Áfram FCK / Brøndby!

posted by Thormundur | 21:30

miðvikudagur, október 29, 2003  

::: Nýjustu tölur úr Rødovre Skole
Sigurveig fór í heimsókn til skólahjúkrunarfræðingsins í dag. Fékk ég að fara með til að fylgjast með vexti og viðgangi dótturinnar. Í stuttu máli er Sigurveig hraust, í meðallagi há og þung og með ágæta sjón og heyrn. Fyrir fróðleiksfúsa reyndist hún vera 22,2 kíló að þyngd og 118,5 sentimetra há. Hún á þá bara eftir um það bil hálfan metra í mömmu sína og örlítið meira í pabba sinn.

posted by Thormundur | 13:09

sunnudagur, október 26, 2003  

::: Vaknaði klukkutíma fyrr
Sigurveig vaknaði klukkan sjö í morgun! Klukkutíma fyrr en venjulega um helgar. En samt vaknaði hún á sama tíma og alltaf. Ástæðan. Jú, klukkunni var flýtt um einn klukkutíma í nótt. Það þýðir auðvitað að nú munar ekki nema einum tíma á Íslandi og Danmörku.

Sigurveig bauð afa Dóra formlega í afmælið sitt í gær og varð mjög glöð þegar hann "óvænt" sagði já takk. Þar með verður að minnsta kosti einn fulltrúi stórfjölskyldunnar í afmælisveislunni. Pabbi og mamma voru hérna í fyrra þegar Sigurveig varð fimm. Afmælisveislan verður nokkuð stærri núna því núna býður Sigurveig öllum stelpunum úr bekknum hennar. 10 stykki þar. Það var nefnilega ákveðið á foreldrafundi nýlega að það yrði að bjóða annað hvort öllum stelpum eða öllum strákunum - nú eða öllum bekknum ef út í það er farið. Þetta er sjálfsagt mál og eðlilegt en flestir ætla nú að byrja á að bjóða stelpunum eða strákunum.

Ekki þarf að taka fram að Sigurveig er á þeim aldri núna að vænta má erfiðra spurninga í ætt við "af hverju er himinninn blár?" Ég lenti sérstaklega í erfiðum málum fyrir viku þegar við horfðum saman á hina klassísku kvikmynd "Aftur til framtíðar" með Michael J. Fox. "Af hverju vill hann fara til gamla daga?" var ein af þeim augljósari. "Hvernig fer maður til fortíðar?" Málið varð hins vegar nokkuð snúnara þegar mynd númer tvö var í sjónvarpinu í gærkvöldi en þar fer Fox bæði til framtíðar og fortíðar. Sú mynd er reyndar miklu síðri en sú fyrsta og töluvert "ljótari" þegar ung börn eru annars vegar. Hún var þó ekki sofnuð þegar sögupersónurnar hitta sjálf sig í framtíðinni, þrjátíu árum eldri. Þetta kallaði á margar spurningar - sem sumar voru einfaldlega best læknaðar með að syngja spyrjandann í svefn!

posted by Thormundur | 13:28

laugardagur, október 11, 2003  

::: Búið spil
Hvað er hægt að segja? Ég sá þetta reyndar ekki en hlustaði á lýsingu. Samkvæmt henni hitti Baggalútur naglann á höfuðið að einu leyti:

Dómarinn var augljóslega
ekki á okkar bandi
og hinir drullusokkarnir
frá miklu stærra landi.

Maður er samt stoltur af strákunum okkar. Þeir gerðu sitt besta. Við misstum möguleikann í raun og veru með því að tapa í tvígang gegn Skotum - og svo nýttum við ekki færin í heimaleiknum gegn Þjóðverjum, þegar við vorum óvænt mun betri aðilinn. Það var víst engin spurning hverjir voru betri í kvöld. Og Litháar náðu ekki að bjarga okkur. En samt spyr maður sig hvað hefði gerst ef mark Hermanns hefði fengið að standa. Líklegasta svarið er að Þjóðverjar hefðu skorað aftur en ábyrgð rússneska dómarans er mikil. Ég læt þetta flakka þótt ég hafi ekki séð atvikið. Endurskoða kannski álit mitt ef ég sé þetta. En hafa skal það sem betur hljómar. :-)

Nú er bara að standa sig í næstu forkeppni og gefa Ásgeiri og Loga tækifæri á að halda áfram. Áfram Ísland!

posted by Thormundur | 19:15
 

::: Stuðningur undirbúinn
Jæja. Mikilvægasti landsleikur Íslandssögunnar hefst eftir rúma tvo tíma. Ég hef undirbúið mig andlega með því að hlusta á stuðningslag Baggalúts í tíma og ótíma. Lagið er algjör snilld. Hins vegar er það engin snilld að þýska sjónvarpsstöðin ARD ætlar að svíkja mig og aðra Íslendinga í útlöndum. Allir leikir í riðlinum hafa verið sýndir þar en leikurinn í dag er sýndur á ZDF, stöð sem ekki einu sinni finnst meðal 212 stöðva í Jónshúsi. En ég ætla nú samt að kveikja á ARD kl. 17 ef þeim hefur snúist hugur. Leikurinn er ekki í sjónvarpsdagskránni - en maður verður að trúa á kraftaverk. Ég hef satt að segja verið fremur miður mín út af þessu. Ég treysti alveg á að sjá leikinn í sjónvarpi, fyrst maður fór ekki á völlinn. Fyrst svíkur KSÍ íslensku þjóðina með því að þiggja innan við helming miða á leikinn og nú þetta.

Í staðinn á ég kost á að horfa á Skota taka á móti Litháum en við eigum vitanlega mikið undir í þeim leik. Ef Skotar ná ekki sigri erum við öruggir með annað sæti hvernig sem fer í Hamborg. Þá get séð Dani mæta Bosníumönnum í ljónagryfju hinna síðarnefndu í Sarajevo. Danir verða að vinna til að tryggja sæti sitt en ella fara þeir í umspil. Loks verður leikur Tyrkja og Englendinga sýndur en það er sannkölluð háspenna - lífspenna.

Sóley er komin til Holstebro að fagna þrítugsafmæli Ingu Fríðu með Íslendinganýlendunni þar og fleiri góðum gestum. Reyndar erum við Sigurveig bæði hálflasin en sá slappleiki kemur endanlega í veg fyrir ýmsar brjálaðar hugmyndir sem skotið höfðu upp í kollinn á mér - eins og að keyra yfir landamærin til Þýskalands (bara þrír tímar eða svo) og horfa á leikinn í þarlendri krá. Nei, ætli maður verði ekki að láta Bjarna Fel nægja. :-) Áfram Ísland!

posted by Thormundur | 14:48

miðvikudagur, október 08, 2003  

::: Sigurveig og Mary standa sig vel
Ég lofaði að segja frá frammistöðu tilvonandi drottningar Dana á blaðamannafundi hennar og Friðriks krónprins. Til að gera langa sögu stutta heillaði Mary blaðamenn úr skónum. Hún ávarpaði fundinn fyrst á dönsku og gerði það með bravúr. Hún var vissulega búinn að læra textann sinn utanað - en framburðurinn var furðu góður. Hún viðurkenndi reyndar hlæjandi að hún væri taugaóstyrk: "Jeg håber De vil kunne forstå, at jeg er en lille smule nervøs," sagði hún einfaldlega. Hún reyndi meira að segja að svara spurningum á dönsku en skildi þó ekki alltaf spurningarnar - Danir tala heldur ekkert sérstaklega skýrt. Friðrik ljómaði af hamingju en ekki verður þó sagt um hann að hann sé mælskur. Sérstaklega missteig hann sig þegar hann var beðinn að lýsa Mary en niðurstaðan var eitthvað á þessa leið: "Hun er den person, der sidder her ved siden af mig."

Koss á opinberum vettvangi lét líka á sér standa, eins og á svölunum fyrr um daginn. Annar koss á hönd Mary var allt og sumt sem Friðrik gaf dönsku þjóðinni. Sagði að alvöru koss biði betri tíma - brúðkaupsdagsins. Þegar allt er á botninn er hvolft eru Danir mjög ánægðir með ráðahaginn og hafa tekið mjög vel á móti stelpunni frá Tasmaníu.

Sigurveig stendur sig líka vel. Við fengum það staðfest á foreldrafundi í skólanum í dag. Kennararnir hrósuðu henni fyrir að sýna mikinn áhuga og taka þátt í öllum verkefnum og leikjum af fullum krafti. Við erum auðvitað mjög stolt af henni!

posted by Thormundur | 18:38
 

::: Kysstust ekki
Stóra stundin er runnin upp. Friðrik og Mary eru búin að stíga fram á sjónarsviðið og veifa til fólksins. Þau voru glöð en hálffeimin. Mary hefur lært að veifa konunglega og stóð sig með prýði. Konunglega parið var klappað upp þrisvar og kom því alls fjórum sinnum fram. Það kom sjónvarpsmönnum í opna skjöldu því talið var að allt væri þegar þrennt væri! Krafa fólksins var að fá einn vænan koss en hin nýtrúlofuðu urðu ekki við þeirri kröfu. Friðrik kyssti Mary reyndar á hönd hennar og allan tímann stóðu þau þétt hvort að öðru og litu ástfangin út. Ekki er meira í konunglegum fréttum. Læt kannski vita hvernig henni tekst upp í dönskunni seinna í dag!

posted by Thormundur | 12:23
 

::: 14. maí 2004
Þá er það ljóst. Konunglegt brúðkaup Friðriks krónprins og Mary Donaldson verður haldið föstudaginn 14. maí á næsta ári. Það er mér mikil ánægja að bjóða lesendum í brúðkaupið hér í Kaupmannahöfn. Brúðkaupið verður haldið í dómkirkju Kaupmannahafnar, Vor Frue Kirke, sem er á besta stað í elsta hluta miðbæjarins. Í kirkjunni eru t.d. fjölmörg verk íslenska myndhöggvarans Bertel Thorvaldsens þannig að þetta verður sannkallað íslenskt brúðkaup!? Ólíklegt er þó að maður fái sæti í kirkjunni - en það er ekki síðra að horfa á brúðkaupið í beinni útsendingu í stofunni hér á Voldumvej. Þeir sem koma gagngert af þessu tilefni fá kaffi og kökur í tilefni dagsins.

Ég er annars búinn að horfa á beina útsendingu í rúma tvo tíma í tilefni af opinberri staðfestingu á trúlofun Friðriks og Mary. Og það verður bein útsending í allan dag! Ríkisráðsfundi er nýlokið þar sem endanlega var samþykkt að "leyfa" unga parinu að giftast. Eftir rúman hálftíma fær maður að sjá parið á svölum Amalienborgarhallar, þar sem það lætur hylla sig af almúganum. Talið er að rúmlega tíu þúsund manns verði á hallartorginu þegar flest er. Svo bíður maður, eins og aðrir, eftir blaðamannafundi sem haldinn verður síðar í dag en þar kemur í ljós hversu góða dönsku Mary talar. Þess er vænst að hún tali og jafnvel svari spurningum á dönsku, líkt og svilkona hennar, Alexandra prinsessa fyrir átta árum þegar hún trúlofaðist Jóakim prins.

Rétt í þessu varð ég vitni að því þegar Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, tók í höndina á Mary Donaldson. Og svo koll af kolli, allir ráðherrarnir fá tækifæri til að heilsa upp á tilvonandi drottningu Dana. Þetta er óheyrilega spennandi. :-)

posted by Thormundur | 11:29

mánudagur, september 29, 2003  

::: Heimsókn og handbolti
Pabbi og mamma flugu heim í dag eftir nokkurra daga viðdvöl hér í bænum. Þau komu á miðvikudag úr hitanum í Grikklandi og gátu því kælt sig aðeins niður. Sigurveig gat sýnt afa sínum og ömmu skólann sinn þegar þau komu að sækja hana á fimmtudaginn. Og svo gisti hún auðvitað hjá þeim á Livjægergade á Østerbro. Við Sóley nýttum tækifærið og fórum tvö ein í bæinn, út að borða - og svo í bíó. Það er mjög langt síðan við höfum farið saman í bíó. Við sáum nýja danska gamanmynd - Rembrandt - sem segir frá nokkrum brjóstumkennanlegum smákrimmum sem í misgripum stela verðmætu málverki eftir Rembrandt. Við getum vel mælt með henni ef hún ratar í kvikmyndahúsin heima.

Liðið hennar Sóleyjar lék sinn fyrsta deildarleik í gær en því miður gat Sóley ekki verið með vegna meiðsla. Liðið byrjaði tímabilið betur en í fyrri og vann viðureign sína gegn nýliðunum frá Albertslund. Í ár verður ekki aðeins keppt um sæti í úrvalsdeild heldur sæti í nýrri sameinaðri 1. deild. Nú er keppt í tveimur riðlum - vesturriðli með liðum frá Jótlandi og austurriðli þar sem eigast við lið á Sjálandi og Fjóni. Fallbaráttan verður því harðari í ár því sex efstu liðin vinna sér sæti í sameinaðri fyrstu deild en hin fimm "falla" í aðra deild. Þeir sem vilja fylgjast með úrslitum í austurriðli fyrstu deildar geta gert það á þessari síðu.

posted by Thormundur | 23:10

þriðjudagur, september 23, 2003  

::: Myrkur um hábjartan dag
Rafmagnsleysið í dag hafði ekki teljanleg áhrif á fjölskyldulífið þótt það hefði varað í rúma sex tíma. Verst var að vera netlaus allan tímann. Ég var reyndar búinn að búa mig undir að borða vatn og brauð bæði í hádegismat og kvöldmat en rafmagnið skilaði sér í tæka tíð fyrir kvöldmat.

Danir eru reyndar svolítið sjokkeraðir yfir því að rafmagnið skuli fara á öllu Sjálandi og lama atvinnulíf og samgöngur. Það hefur ekki gerst síðan 1981. Reyndar var nokkuð heppilegt að þeir gátu skellt skuldinni á Svía þar sem Kaupmannahöfn og restin af Sjálandi er tengt inn á sænska rafmagnsnetið. Vonandi slettist ekkert upp á vinskap þjóðanna eins og í gamla daga. Þá gætu Svíar bara slökkt á Dönum í eitt skipti fyrir öll.

Sigurveig lærði eitt og annað um rafmagn og rafmagnsleysi í dag. Maður reyndi sitt besta að útskýra þetta allt saman. Alvarlegustu áhrifin á hennar líf var að hún missti af barnatímanum klukkan sex. Rafmagnið kom reyndar á aftur um leið og barnatímanum lauk klukkan hálf sjö. Í staðinn fékk hún að horfa á hluta af söngvamyndinni um hana Regínu - í hundraðasta sinn! Sigurveig horfði nokkrum sinnum á hana í síðustu viku þegar hún var lasin.

posted by Thormundur | 23:56

föstudagur, september 19, 2003  

::: Á leið til Grikklands
Nei, við erum ekki á leið til Grikklands! En foreldrar mínir komu við hjá okkur í gær og héldu síðan áleiðis til grísku eyjarinnar Egínu í dag. Það verður án efa frábært en þau koma svo aftur til okkar í næstu viku og stoppa nokkra daga í Köben. Okkur þótti afskaplega gott að hitta þau og enn betra er að fá þau tvisvar í heimsókn!

Sigurveig hefur verið lasin síðustu þrjá daga og ekkert farið í skólann. Lasleikinn spillti þó ekki gleðinni að fá afa og ömmu í heimsókn. Hún fékk nokkrar sendingar að heiman, þ.á m. fyrstu Blíðfinnsbókina, prinsessubol, smá nammi og síðast en ekki síst svolítið námsefni úr sex ára bekk. Við ætluðum reyndar að senda hana í íslenskuskóla í Jónshúsi en hættum við. Okkur þótti of mikið álag að láta hana byrja í tveimur skólum og mæta eldsnemma í skóla sex morgna í röð. Íslenskuskólinn byrjar nefnilega klukkan níu í Jónshúsi en ferðalagið þangað tekur rúmlega hálftíma.

posted by Thormundur | 18:21

mánudagur, september 15, 2003  

::: Gleymdi því alveg
Sigurveig getur verið lúmsk gleymin. Á laugardaginn fékk hún að fara með mömmu sinni "að keppa" en Rødovre liðið var á móti nærri Farum. Aðstæður voru hinar bestu fyrir börn, þar á meðal sérstakt leikhorn í veitingasalnum. Svo fékk Sigurveig pening fyrir nammi. Sóley lét hana fá 20 krónur fyrir bland í poka en sagði henni að biðja afgreiðslufólkið að gefa henni 15 krónur til baka. Þegar hún kom til baka var hún með grunsamlega stórt bros og ótrúlega stóran poka. Þegar mamma hennar spurði hana um afganginn varð hún hálf skömmustuleg en svaraði einlæglega: "'Eg gleymdi því alveg!"

Af mótinu var það að frétta að liðið hennar Sóleyjar náði öðru sæti en verra var að Sóley meiddi sig að nýju í lærvöðva. Hún hafði meitt sig á æfingu nýlega en náð sér furðanlega fljótt. Vöðvinn gaf sig hins vegar aftur um helgina og því verður Sóley að hvíla á næstunni og sleppa æfingunum næstu daga.

posted by Thormundur | 18:37

miðvikudagur, september 10, 2003  

::: Verðum að vinna
Niðurstaða kvöldsins - eftir sigur Þjóðverja á Skotum - er að við verðum að vinna Þjóðverja til að eiga möguleika á áframhaldandi þátttöku í EM - án þess að þurfa að treysta á önnur úrslit. Jafntefli dugar heldur ekki, ef Skotar vinna sinn lokaleik, því þá gilda innbyrðis viðureignir liðanna, okkur í óhag. En kannski munu Litháar draga okkur áleiðis til Portúgal? Nái þeir að vinna Skota eða gera jafntefli við þá er 2. sætið okkar - hið minnsta. Gætum þá mætt Spánverjum, Hollendingum, Englendingum eða jafnvel Dönum.

Það var góður skammtur af boltanum í sjónvarpinu í kvöld. Danir voru arfaslakir gegn Rúmenum og rétt mörðu jafntefli með marki þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Engir fögnuðu meira en Norðmenn og það var mun skemmtilegra að fylgjast með útsendingu í norska sjónvarpinu en því danska. Danir voru svo fúlir yfir lélegum leik sinna manna að þeir fögnuðu varla jöfnunarmarkinu. Besta sjónvarpsefnið var þó upphitunin fyrir leikinn í Þýskalandi en þar var Ísland nefnt í öðru hverju orði. Rudi Völler virðist hafa unnið hylli almennings fyrir að hafa ausið úr skálum reiði sinnar yfir þýska fjölmiðla. Fórnarlömb reiðilesturs Völlers voru mun kurteisari í dag og reyndu greinilega að vera taktískir. Leikurinn var bara svona og svona en upphitun, hálfleiksanalýsa og viðtöl eftir leikinn voru hins vegar skemmtiefni. Talandi um skemmtiefni. Hér voru Danir rétt í þessu að birta valin brot af reiðilestri Völlers í einu fótboltamagasíninu. Þetta var náttúrulega hrein snilld hjá Völler. Fékk núna danskan texta með og gat skilið hvert orð.

Leikurinn í bikarnum heima var að klárast. Ekki þýðir að gráta úrslitin. Við erum Íslandsmeistarar!

posted by Thormundur | 23:54
 

::: Heitar umræður
Ég vil benda lesendum á að heitar umræður hafa spunnist í gestabókinni um gildi þess að blogga um fótbolta, fótboltagláp og fótboltalýsingar, svo nokkuð sé nefnt. Ég vísa á bug allri gagnrýni sem birst hefur og lofa því að hér á síðunni verður áfram skrifað um fótbolta í tíma og ótíma. Að sama skapi þakka ég mömmu fyrir gott innlegg. Ég tek skýrt fram að þetta var ekki pantað lögfræðilegt álit! Hún kann bara gott að meta. :-)

Með gagnrýni sinni óttast ég að gagnrýnendur hafi kallað yfir sig meira fótboltablogg. Ég tel mig vitanlega knúinn að sýna í verki að ég er trúr ritstjórnarstefnu minni. En mér finnst þó í ljósi aðstæðna rétt að vara viðkvæmar sálir við lestri Voldumvej-bloggsins í dag og á morgun - vegna aukinnar hættu á fótboltabloggi. Í kvöld verða nefnilega leiknir mjög mikilvægir leikir í undankeppni EM og kann vel að vera að ég þurfi að tjá mig um þá. Til dæmis munu Danir heyja mikla orrustu við Rúmena á Parken um tryggt sæti í Portúgal. Mega Danir vart mæla af eftirvæntingu og spennu. Annar spennandi leikur fer fram á Old Trafford þar sem Englendingar taka á móti Liechtenstein. Spennan í leiknum snýst þó ekki svo mjög um úrslit leiksins heldur um það hvort þrír lykilleikmenn kræki sér í gult spjald - og missi þar af leiðandi af hreinum úrslitaleik gegn Tyrkjum í október. Fátt hefur verið um meira rætt í Englandi síðustu daga en um gul spjöld og afleiðingar þeirra. Og ekki má gleyma viðureign Þjóðverja og Skota. Þar rambar stórþjóð á barmi taugaáfalls.

Staðreyndin er nefnilega sú að fótbolti hefur gífurleg áhrif á samfélag manna. Það er því óhjákvæmilegt að taka fótbolta á dagskrá. Og fótbolti verður sannarlega á dagskrá í sjónvarpinu í kvöld.

posted by Thormundur | 15:25

laugardagur, september 06, 2003  

::: Þjóðverjar stálheppnir - segja Þjóðverjar
Já, við lékum firnavel í kvöld en samt er maður hálfsvekktur. Hálfsvekktur að hafa ekki skorað markið sem við áttum svo skilið. Þetta var með betri leikjum sem Ísland hefur leikið, en hefði hæglega orðið einn af bestu leikjum Íslands frá upphafi hefðum við skorað markið. Þjóðverjarnir voru sannarlega stálheppnir að ná jafntefli - sem Þjóðverjarnir viðurkenndu sjálfir í lýsingu sinni á ARD1. Það var mjög athyglisvert að fylgjast með leiknum í þýsku sjónvarpi. Lýsingin var fagmannleg fram í fingurgóma. Lýsandinn vonast auðvitað eftir þýskum sigri en leggur hins vegar hlutlægt mat á framvindu leiksins. Hann dró til dæmis ekki í efa nokkurt af gulu spjöldunum sem Þjóðverjar kræktu sér í.

Ég var svo heppinn að Sigurveig fékk heimsókn frá vinkonu akkúrat á meðan á leik stóð og því gat ég einbeitt mér að leiknum :-). Sóley er í æfingaferð á Jótlandi og því stefndi í að Sigurveig þyrfti að horfa á pabba sinn stjarfan yfir sjónvarpinu í tvo tíma. Ég var reyndar svo einbeittur í áhorfinu að ég var næstum búinn að ávarpa stelpurnar á þýsku, þegar ég bað þær einhverju sinni að hafa sig hægar og leika í herberginu. Danke schön!

Við Sigurveig vörðum annars lunganum af deginum í Tívolí. Hún var svo spennt fyrir ferðinni að við vorum komin á staðinn klukkan hálf tólf! Þá uppgötvaði ég að öll stóru tækin opna ekki fyrr en klukkan tvö. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Við urðum því að gera okkur "smábarnatækin" að góðu. Sigurveig er orðin svo stór að hringekjan er tæplega nógu spennandi. Við unnum einn skopparabolta í einum básnum, það var allt og sumt, og fengum okkur nammi og gos meðan við biðum eftir rússíbönunum og öðrum spennandi tækjum. Vorum auðvitað bæði með túrpassa í öll tæki. Við byrjuðum á Hraðlest Óðins, sem er hraðasti rússibaninn. Sigurveig er alvön, búin að fara nokkrum sinnum, ég var að fara í fyrsta sinn. Vá, maður! Mér fannst þetta næstum of mikið! Ég er reyndar enginn sérstakur unnandi rússíbana. Síðar um daginn fórum við svo í gamla góða rússibanann, Rutschebanen, sem er sá elsti í heimi, og mér líkaði mun betur við hann. Við héldum loks heim eftir rúmlega fimm tíma keyrslu í tækjum og tólum - í tæka tíð fyrir landsleikinn góða.

Og hann var skemmtilegur þrátt fyrir markaleysið. En svekkjandi vegna markaleysisins.

posted by Thormundur | 23:59

mánudagur, september 01, 2003  

::: Við erum meistarar!!!
Annað árið í röð fagna ég Íslandsmeistaratitli KR í Danmörku. Við urðum meistarar í kvöld eftir glæsilegan sigur á útivelli gegn Grindavík - og það þegar tvær umferðir eru eftir. Yfirburðirnir eru augljósir. KR hefur haft yfirburði í deildinni síðustu ár - fjórir Íslandsmeistaratitlar á fimm árum. Ekki amalegt.

Ég tók á móti Sóleyju og Sigurveigu á Kastrup í dag en þær skruppu í örferð til Íslands um helgina. Fóru á laugardag, gagngert til að Sóley gæti mætt í brúðkaup Gumma og Guðrúnar. Sigurveig var nokkurs konar leynigestur, fáir vissu af komu hennar. Mæðgurnar skemmtu sér afskaplega vel þótt tíminn væri skammur.

Ég fékk íslenskt nammi frá Sóleyju að launum fyrir að hafa sinnt smá fjáröflunarstarfi fyrir handboltaliðið í fjarveru Sóleyjar. Nammið var sannarlega vel þegið; Rís, Staur og Nóa-Síríus súkkulaði. Sigurveig kom líka með pakka handa mér, sem vissi á gott varðandi knattspyrnuleikinn í kvöld. Pabbi og mamma höfðu nefnilega fundið gamlan KR-búning, sem ég notaði í körfuboltanum í eldgamla daga. Búningurinn, númer 14 auðvitað, passar hins vegar nú mjög vel á Sigurveigu, sem kjóll! Hún er alsæl með búninginn/kjólinn.

Til hamingju með titilinn, KR-ingar allra landa!

posted by Thormundur | 22:20

fimmtudagur, ágúst 28, 2003  

::: Aftur í 6 ára bekk
Ég settist á skólabekk í morgun, nánar tiltekið í sex ára bekk! Sigurveig bauð mér í heimsókn í skólann sinn og var ég gestanemandi í 0. C. Krakkarnir í bekknum voru því 20 í dag en ekki 19 eins og venjulega. Börnunum stendur til boða að bjóða foreldrum með sér í skólann í vetur, hvoru í einn dag. Sigurveig vildi strax fá annað hvort okkar með sér í skólann en ein mamman hafði einmitt komið í heimsókn í síðustu viku. Kennarinn í fjölskyldunni fer án efa síðar í vetur!

Sigurveig var afskaplega spennt yfir því að taka pabba sinn með en var frekar feimin þegar á hólminn var komin. Það er eðlilegt enda hlýtur að vera sérstakt að hafa pabba sinn eða mömmu með sér í skólanum. Við byrjuðum daginn á afslöppun, lögðumst á gólfið með lokuð augun meðan kennarinn las upp nöfnin og því næst stutta sögu. Síðan settust allir í hring og farið í nafnaleiki en krakkarnir eru enn að læra öll nöfn hvers annars. Svo var sungið og trallað til að vekja liðið. Sigurveig var yfirleitt með á nótunum og kunni margt af textum, meðan pabbi hennar reyndi að læra þá jafnóðum eða mumla bara eitthvað. Eitt lagið kunni maður þó - það var Atti katti nóa. Textinn er reyndar örlítið öðruvísi á dönsku en auðlærður :-)

Það var sem sagt sungið, leikið og lært í dag. Í einum tímanum unnum við verkefni þar sem börnin áttu að teikna mynd af sér - en einhverra hluta vegna var mér hlíft við að teikna mynd af mér! Í öðru verkefni átti að lita mynd fána, les danska fánann, en við teiknuðum auðvitað þann íslenska í staðinn. Vitanlega voru frímínútur í hávegum hafðar. Við fórum þá í snú-snú og feluleik svo nokkuð sé nefnt.

Þetta var mjög skemmtilegur dagur og fróðlegt að fylgjast með skólastarfinu svona í upphafi námsferilsins. Ég vona að ég fái að fara með Sigurveigu í fyrsta tímann í menntaskóla þegar þar að kemur. Hún hlýtur að vilja það!

posted by Thormundur | 23:39

mánudagur, ágúst 25, 2003  

::: Íþróttasjónvarpsdagur
Nýliðinn sunnudagur hefur verið helgaður iðkun sjónvarpsíþrótta. Hver viðburðurinn hefur rekið annan, eins og títt er á sunnudögum en úrvalið var óvenju mikið í dag.

Þetta byrjaði allt í Ungverjalandi en þaðan var bein útsending frá Formúlunni. Glæsilegur sigur hjá Alonso en að sama skapi virðist Ferrari eitthvað vera að förlast. Að minnsta kosti verður ólýsanleg spenna í síðustu þremur keppnunum. Því næst var skipt yfir til Parísar og fylgst með sænsku frjálsíþróttadrottningunni, Carolinu Klüft, tryggja sér öruggan sigur í sjöþraut á HM í frjálsum. Við horfðum vitanlega á þetta í sænska sjónvarpinu þar sem lýsendur voru tárvotir af stolti - og öll fjölskylda hennar í viðtölum. Carolina er langvinsælasti íþróttamaður Svía í dag og var valin íþróttamaður ársins í Svíþjóð í fyrra - og ekki bara það heldur var hún líka valin maður ársins í Svíþjóð í fyrra. Þá fylgdist maður einnig með farsanum í 100 m hlaupinu og yfirburðum Eþíópíumanna í 10 km hlaupinu svo eitthvað sé nefnt.

Meðan það var rólegt á Stade de France skipti maður reglulega yfir á beinar útsendingar frá þýska boltanum og þeim danska. Mig vantar reyndar þann enska.

Eftir kvöldmat kveikti maður á Rás 2 á tölvunni og hlustaði á Bjarna Fel (aleinan) lýsa stórleiknum heima á KR-velli. Stórsigurinn var óvæntur en afskaplega gleðilegur - og án efa mjög verðskuldaður. Öruggur 4-0 sigur gegn Fylki er gott vegarnesti fyrir lokaumferðirnar. Um leið og lokaflautið gall á KR-velli var komið að spænska boltanum. Þar mættust Real og Real (Madrid og Mallorca) í fyrri viðureign meistara og bikarmeistara síðasta árs, þar sem heimamenn frá Mallorca höfðu betur 2-1. Næsti leikur á miðvikudag. Og nú skömmu fyrir miðnætti er loks komið að golfi. Rétt í þessu var skipt yfir til Bandaríkjanna þar sem maður getur fylgst með lokaholunum á síðasta hring á NEC International. Þetta er eitt af stóru mótunum, þegar frá eru talin risamótin. Gott ef ekki þetta mót telst ekki eitt af mótunum þar sem keppt er um óopinberan heimsmeistaratitil í golfi.

Það er óhætt að segja að sportið hafi verið yfirgnæfandi í dag. HM í frjálsum er reyndar rétt að byrja og því hægt að horfa á útsendingar þaðan alla vikuna. Og ef það er ekki útsending í danska sjónvarpinu, er afar líklegt að meira sé sýnt í sænska sjónvarpinu, en ef allt um þrýtur verður maður að treysta á Eurosport. Það kom líka á daginn því vegna tafanna, sem urðu vegna mótmæla Jon Drummonds í 100 m í dag, brunnu dönsku og sænsku sjónvarpsstöðvarnar inni á tíma og gátu ekki sýnt úrslitin í 100 m kvenna. Þá kom til kasta Eurosport sem klikkaði auðvitað ekki heldur sýndi allt saman. Ekki var verra að Marion Jones aðstoðaði við lýsinguna.

posted by Thormundur | 00:24

miðvikudagur, ágúst 20, 2003  

::: Kætumst meðan kostur er
Það er óhætt að kætast yfir því, að nú um stundarsakir, eru Íslendingar efstir í forriðli fyrir stórkeppni í knattspyrnu - vafalaust í fyrsta sinn (nema við höfum einhvern tímann spilað fyrsta leik og slysast til að vinna). Þjóðverjar eiga reyndar leik til góða en við hugsum ekki um það núna! :-) Mér skilst hins vegar á heimildarmönnum mínum að leikurinn í kvöld gegn Færeyingum hafi ekki verið mikið fyrir augað. Bæði lið hafi verið mjög slöpp - svo ekki verði meira sagt. En sigur hafðist engu að síður. Það skiptir mestu máli. En það er um að gera að kætast meðan kostur er - við fáum ekki oft tækifæri til að fagna efsta sæti í riðli. Nema við vinnum Þjóðverja - tvívegis!

Ég fann leikinn vitanlega hvergi í sjónvarpi eins og búast mátti við. Ég hlustaði því á leikinn í útvarpi og gaf Útvarpi Sögu tækifæri. Ekki veit ég hver lýsti, það var ekki Valtýr Björn. Ég hætti að hlusta á RÚV því það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar Bjarni Fel er með gest í lýsingu. Það fer ekki vel saman. Bjarni Fel er bestur aleinn!

Nú bíða tveir "úrslitaleikir" gegn Þjóðverjum. Spurningin er hins vegar hvort Þjóðverjar séu raunverulega orðnir nógu slappir að við eigum séns í þá - og þar með möguleika á áframhaldandi þátttöku. Þeir mörðu jú Færeyinga og hafa átt í miklum erfiðleikum í flestum leikjum sínum hingað til. Á móti kemur að þetta eru síðustu leikir riðilsins og þá má eiga von á því að Þjóðverjar láti sverfa til stáls. Þetta kemur víst nógu fljótt í ljós. Ég get hins vegar treyst því nokkurn veginn að þýska sjónvarpsstöðin ARD sýni næsta leik! Þeir munu án efa ferðast með allt sitt hafurtask til Íslands, setja upp stórt stúdíó með yfirsýn yfir Laugardalsvöll og sýna leikinn beint. Ég verð í sófanum þann 6. september.

posted by Thormundur | 22:33
 

::: ARD bregst
Ég lagði allt mitt traust á ARD 1. En þeir virðast ætla að bregðast mér. Þeir munu ekki sýna leikinn í beinni í kvöld. Jú, við erum að tala um stórleikinn Færeyjar-Ísland. Þýska sjónvarpsstöðin hefur nefnilega sýnt ýmsa leiki úr riðlinum, þ.á m. Ísland-Færeyjar fyrr í sumar. Sjálfsagt skiptir máli að Þýskaland leikur vináttuleik við Ítalíu á sama tíma og sá leikur virðist hafa verið valinn til sýningar frekar en hið þýðingarmikla uppgjör í Þórshöfn. Ekki skil ég það. Maður kíkir nú samt á netið til að kanna hvort leikurinn verði í beinni á ruv.is. Er þó ekki sérstaklega vongóður um það. Samningar um sýningarrétt banna það örugglega. Í staðinn lætur maður sér nægja beina útsendingu frá Parken þar sem Danir taka á móti Finnum og síðar um kvöldið beina útsendingu frá leik Englendinga og Króata. Það ætti að duga.

posted by Thormundur | 15:45

miðvikudagur, ágúst 13, 2003  

::: Meiri hagvöxtur og "betra" veður
Hagvöxtur jókst töluvert í Danmörku í dag. Ástæðan? Jú, Sóley og Þóra fóru saman í verslunarleiðangur í bæinn. Nokkrir pokar voru afrakstur leiðangurins og átti Þóra þó vinninginn með 3 pokum gegn 2. Sem betur fer var flest allt keypt á útsölu. Í þokkabót ákváðum við að láta verða af því að kaupa nýja ryksugu! Peningarnir voru því ryksugaðir af reikningi okkar í dag :-)

Það er líka að frétta að komið er "betra" veður - réttara sagt skaplegra veður. Sólin er horfin tímabundið en von er á henni á föstudag eða laugardag aftur. Hitinn lækkaði nú síðdegis í dag úr um 30 gráðum niður undir 25. Það munar um það. Og fersk gola í kaupbæti. Þetta er í raun veður að mínu skapi. Hitinn og sólin hefur verið næsta óbærileg síðustu daga með tilheyrandi svitabaði og flugnabitum. Og í þessum skrifuðu orðum byrjar að rigna. Ekki vanþörf á.

Bjössi og Þóra eru að koma í mat til okkar í kvöld en þau fara heim á morgun. Bjössi fór í síðasta danska golfið í dag en hann uppgötvaði mjög skemmtilegan golfvöll í Rungsted um daginn og fór aftur í dag. Matarboðið í kvöld er eins konar afmælisboð fyrir Bjössa en eins og fram kom í síðasti bloggi er drengurinn að eldast.

posted by Thormundur | 18:34

laugardagur, ágúst 09, 2003  

::: Skovtur í Rósenborgargarði
Við erum nýkomin úr lautarferð í Rósinborgargarðinum með Bjössa og Þóru. Við tókum okkur til og fórum með brauð og álegg, drykki og snakk, glös og hnífapör - og borðuðum í garðinum að hætti Dana. Garðurinn skartar sínu fegursta í þessu einstaka veðri sem er hér upp á hvern dag. Við komum okkur fyrir, smurðum okkur mat og supum á öl og gosi. Algjör snilld. Við Bjössi skoruðum svo á tvo heimamenn í fótbolta á malbikuðum velli sem er í garðinum. Skemmst er frá því að segja að við sýndum snilldartakta og rúlluðum andstæðingum okkar upp í tveimur leikjum, þeim fyrri 5-0 og þeim síðari 5-3. Eftir sigrana töldum við ljóst að 14-2 ófaranna hefði verið hefnt.

Eftir sannkallað svitabað í boltanum héldum við stoltir með stelpunum heim á leið - en löbbuðum auðvitað í gegnum miðbæinn í leiðinni og virtum fyrir okkur fjölskrúðugt mannlífið. Götulistamenn voru áberandi, ekki síst listamenn með málverk og teikningar. Bjössi og Þóra höfðu hrifist mjög af einni myndinni - og svo fór að lokum að Bjössi fékk hana í afmælisgjöf frá okkur, enda nýorðinn hálffimmtugur.

Í gær buðum við Ingu Steinunni og litlu Söndru Sól í mat og voru þær hjá okkur lengi. Reyndar var Hjölla líka boðið en hann var að kveðja vin sinn sem var á leið til Íslands. Það var gaman að fá mæðgurnar í heimsókn og síðar um kvöldið litu Bjössi og Þóra við hjá okkur.

posted by Thormundur | 23:48

fimmtudagur, ágúst 07, 2003  

::: Sigurveig byrjuð í skóla!
Það er sannkallaður merkisdagur í dag. Fyrsti skóladagur Sigurveigar. Eftir smá upphitun á skóladagheimilinu síðustu daga hófst regluleg kennsla í dag. Foreldrum var boðið með og dagurinn byrjaði á sal með skólastjóra og öllum kennurum. Síðan fóru börnin í sínar stofur meðan foreldrum var boðið í kaffi. Eins og fram hefur komið, verður Sigurveig í børnehaveklasse C eða 0.C eins og hann er líka kallaður. Það er 19 krakkar í bekknum og fimm starfsmenn! Umsjónarkennarinn er mjög söngelskur og heitir Bjarne en honum til aðstoðar verða tveir aðstoðarkennarar (sem sinna líka annarri kennslu) og tveir leikskólakennarar, sem sjá um börnin úr C-bekknum á skóladagheimilinu eftir hádegi.

Skóladagurinn var reyndar stuttur í dag enda engin ástæða að byrja of hratt. En þau lærðu samt ýmislegt fyrsta daginn. Þau lærðu til dæmis söng um ljón í Afríku - sem þau sungu svo fyrir okkur foreldrana. Þá var líka farið yfir tvo bókstafi til að kanna hvað krakkarnir kynnu. Og stafirnir voru ekki valdir af handahófi. Þetta voru stafirnir I og S. Allir kunnu þá stafi að því er virtist og fyrir hvað þeir standa séu þeir settir saman. Enda fengu krakkarnir ís að launum. Ekki amaleg byrjun á skólagöngunni. Vonandi halda börnin ekki að gefinn verði ís á hverjum skóladegi!

Ekki verður annað séð en að Sigurveig kunni vel við sig í skólanum og á skóladagheimilinu. Hún hefur verið mjög spennt yfir því að byrja en spurði okkur þó að því um daginn hvers vegna hún byrjaði í skóla bara fimm ára gömul! Við höfum nefnilega stundum talað um fyrsta skólaárið sem sex ára bekk - að íslenskri vísu. Hún er sérstaklega stolt af skólatöskunni sinni, bleikri Lego tösku með fiðrildaskreytingu, og hefur beðið lengi eftir að fá að nota hana. Við keyptum hana nefnilega strax í júní!

Við höfum sett glóðvolgar myndir frá fyrsta skóladeginum á myndasíðu fjölskyldunnar. Njótið vel.

posted by Thormundur | 18:58

sunnudagur, ágúst 03, 2003  

::: Sigurveig í bústað
Sigurveig fór í sumarbústað í gær með vinkonu sinni Clöru og verður til morguns. Þær hafa meðal annars farið á ströndina og eru örugglega mjög ánægðar að geta leikið sér saman að nýju. Við vorum að spjalla við hana í símanum áðan og hún var voða ánægð með ferðina í bústaðinn - og í sjóinn. Sigurveig hefur sannarlega verið eftirsótt eftir komuna hingað því allir krakkarnir á svæðinu vilja leika við hana, nýkomna úr fríinu. Margir hafa greinilega saknað hennar. Húner í óða önn að rifja upp dönskuna sína en nokkrum sinnum hafa slæðst inn nokkur orð, jafnvel setningar, á íslensku.

Á föstudag fór hún í heimsókn á skóladagheimilið, þar sem hún verður hluta úr degi eftir að skóladegi lýkur. Þar hittir hún suma af vinum sínum en þó fara ekki mjög margir úr leikskólanum hennar í Rødovre Skole. Sigurveig er ein fjögur hundruð barna úr bænum sem hefur skólagöngu sína á fimmtudag.

Við "gömlu hjónin" erum hálfeinmana en höfum reynt að nýta tímann til að slappa af meðan Sigurveig er í bústað. Fórum reyndar í miðbæinn í gær og virtumst vera komin úr gönguæfingu. Vorum allavega búin í fótunum eftir daginn. Sóley nýtti sér tækifærið meðan útsölurnar eru enn í gangi. Í kvöld ætlum við að fara í Tívolí tvö ein.

Hér er sama blíðan og verður næstu daga, sbr. þessa spá upp á glampandi sól og 25 stiga hita fimm daga í röð. Hver þarf að fara til Spánar þegar veðrið er svona í Kaupmannahöfn? Þóra og Bjössi munu njóta góðs af því þau eru á leið í frí til Kaupmannahafnar í næstu viku.

posted by Thormundur | 17:22

fimmtudagur, júlí 31, 2003  

::: Komin til baka
Þá erum við komin aftur á Voldumvej eftir frábæra ferð heim til Íslands. Allt er á sínum stað. Það er alltaf gott að koma á heimili sitt aftur þótt maður sakni strax fjölskyldu og vina. Ferðin tókst vel en við komumst jafnframt að því að þrjár vikur væru varla nóg til að hitta alla - svona eftir eitt ár í burtu. Við þökkum kærlega fyrir öll matarboðin, heimsóknirnar, sumarbústaðaferðirnar og alla samveruna.

Það var svolítið sérstakt að koma inn í íbúðina að nýju. Viðarlyktin var sú sama og þegar við fluttum inn fyrir tæpu ári enda allir gluggar búnir að vera lokaðir lengi. Veðrið er afskaplega gott. Hér er algjört sólarlandaveður og erum við strax orðin sveitt í sólinni. Það þarf vart að taka það fram að Sóley fór strax út að hlaupa eftir að við höfðum tekið allt upp úr töskum - hún fór auðvitað hringinn í kringum Damhusengen. Sömuleiðis þarf vart að taka fram að Sigurveig fór beint út að leika og er núna með vinkonu í heimsókn - meðal annars að leika með nýja dótið frá Leifi og Sigurveigu.

Við ættum að vera í aðstöðu til að blogga oftar á næstunni. Annars hefst daglega amstrið strax á morgun. Sigurveig kíkir líklega í stutta heimsókn í skóladagheimilið en hún byrjar í skóla eftir eina viku!

Bestu kveðjur frá Danmörku!

posted by Thormundur | 21:24

miðvikudagur, júlí 23, 2003  

::: Mikið að gera!
Það hefur sannarlega margt á daga okkar drifið síðustu daga. Við höfum farið í brúðkaup, í sumarbústað, heimsóknir og nokkur matarboð. Og öll kvöld fram að brottför eru skipulögð. Ótrúlegt. Framundan eru m.a. tvær sumarbústaðaferðir, matarboð og saumaklúbbur hjá Sóleyju.

Það voru vinir okkar Jóhanna og Pálmi, sem létu pússa sig saman á laugardaginn var í einstöku veðri í Digraneskirkju. Veislan var haldin í félagsheimili Kópavogs. Brúðkaupið var afskaplega skemmtilegt, maturinn frábær og félagsskapurinn skemmtilegur. Þetta var reyndar eitt af þeim brúðkaupum þar sem við þekktum ekkert sérstaklega marga fyrirfram. Ég fékk það mikilvæga hlutverk að taka vídeómyndirnar. Maður vonar bara að þær verði sæmilegar. Við erum einmitt að fara í sumarbústað á eftir með hjónunum - í Úthlíð í Biskupstungum.

Sigurveig hefur fengið að gista hér og þar síðustu daga, m.a. hjá Bjössa og Þóru. Hún skemmtir mjög vel hér á Íslandi og nýtur hverrar mínútu. Þó hefur hún svolítið pláss fyrir "heimþrá" en í gær langaði hana mikið til að heyra í vinkonu sinni Clöru. Við náðum sambandi við Clöru og þær spjölluðu svolítið saman í símanum. Það var svolítið fyndið að Sigurveig ruglaðist pínulítið og spurði hana einnar spurningar á íslensku - en var að öðru leyti fljót að taka upp dönskuna og hreiminn góða.

Annars fór Sigurveig í langa heimsókn til vinkonu sinnar, Söru Margrétar, á mánudag en hún býr einmitt í Stigahlíðinni. Við höfðum skipulagt að hún hitti Söru við gott tækifæri en tilviljunin réði því að í síðustu viku hittust vinkonurnar þrisvar á Austurvelli, ótrúlegt en satt. Sigurveig var hjá Söru allan daginn og léku sér bæði úti (í gamla góða garðinum) og inni.

Við fórum í bæinn á laugardaginn og þá tók Þóra þessar myndir.

posted by Thormundur | 17:59

mánudagur, júlí 14, 2003  

::: Veislumatur á hverjum degi
Það er ákveðinn lúxus að koma heim í sumarfrí frá útlöndum. Maður fær veislumat, næstum því á hverjum degi. Nú er nýlokið matarboði á Bræðraborgarstíg með Brynju og Vatnari. Og margt á döfinni í þessari viku.

Um helgina skelltum við okkur í sumarbústað í Norðurárdalnum. Við skildum rigninguna eftir í Reykjavík og nutum sólar í bústaðnum. Þar var spilað, leikið og grillað - svo var sofið - og síðan aftur spilað, leikið og grillað meira. Sigurveig og Sóley komu í dag en ég fékk far í bæinn með fjölskyldunni úr Lautarsmára í gær.

Sigurveig kom í bæinn, einni tönninni færri. Hin framtönnin í neðri datt úr á laugardag og eftir stendur þetta líka myndarlega skarð.

Fyrir þá sem lesa í Danmörku skal tekið fram að hér er hið besta veður. Gott veður á Íslandi er auðvitað miklu betra en í útlöndum. :-)

posted by Thormundur | 23:53

þriðjudagur, júlí 08, 2003  

::: Manstu?
Allt gott að frétta. Við höfum verið dugleg að hitta fólk og skemmta okkur. Ég er reyndar kominn í nokkurs konar sumarvinnu - sem er hið besta mál. Svo eru bara tveir dagar í Sóleyju. Margar heimsóknir okkar bíða komu hennar.

Við fórum í afmæli til Helgu Jóhönnu í gærkvöldi í Keflavík. Hún átti stórafmæli en ég man þó ekkert hvað hún er gömul, réttara sagt ung. :-) Við náðum sem sagt heilsa upp á allt Oddsgengið og fleiri til. Sigurveig hitti ársgamla Huldu Sóllilju (Gumma og Guðrúnar) og þær náðu afskaplega vel saman. Rétt eins og Elías og Sigurveig þegar þau hittust fyrir helgi. Veislan var auðvitað glæsileg - rækjubrauðtertan klikkaði ekki.

Talandi um veitingar. Maður hefur reynt að bragða á ýmsu íslensku nammi síðustu daga - nema hvað. Rís, Staur, Síríuslengja, bananabitar, Sambó-lakkrísreimar og Appolló lakkrísrúlla er meðal þess sem maður hefur rennt niður með íslenska kókinu. Íslenskt nammi er eiginlega óhæfilega gott.

Sigurveig er dugleg að spyrja mann hvort maður muni ekki eftir þessu eða hinu. Við höfum líka farið á ýmsar gamlar slóðir. Keyrðum til dæmis um Stigahlíðina um helgina en veðrið var ekki nógu gott til að hún gæti leikið í garðinum og hitt gömlu vinina. Í staðinn fórum við að rifja upp hverjir bjuggu hvar: "Manstu ekki hver bjó hérna?" spurði Sigurveig. Hún svaraði sjálf og við fundum hús Söru Margrétar, Úlla og Róberts Snæs. Svo kíkir hún fljótlega í heimsókn Mána, besta vinar síns úr leikskólanum.

Það er nóg að gera. Ekki síst hjá Sigurveigu. Við höfum sofið fimm nætur á Íslandi. Ég hef sofið einn í fjórar nætur.

posted by Thormundur | 22:42

laugardagur, júlí 05, 2003  

::: Ísland - best í heimi
Við Sigurveig erum komin heim og njótum lífsins. Við höfum fengið hlýjar móttökur, gott að borða og hitt fjölskyldu og vini (eigum þó enn langt í land að hitta alla). Meðan við erum hér heima verðum við með bækistöðvar okkar á Holtsgötu - í íbúð Oddnýjar ömmu minnar heitinnar. Það mun sannarlega fara vel um okkur þar. Sigurveig er reyndar búin að gista bæði í Hofslundinum og á Bræðraborgarstígnum og því hef ég séð minnst af henni. Nú bíðum við bara eftir Sóleyju sem kemur á fimmtudaginn.

Áður en maður kom var það svolítið sérstök tilfinning að vera á leiðinni heim í sumarleyfi eftir tæpt ár í útlöndum. Eftir komuna fannst mér hins vegar eins ég hefði aldrei farið - fannst ég vera kominn heim. Það hefur svo sem aldrei staðið annað til en að flytja aftur heim eftir dvöl okkar ytra. En hafi þess þurft - hefur maður bara styrkst í þeirri trú sinni. Við ætlum að njóta tímans í Danmörku en hlökkum til að koma alkomin heim.

Það er ekki hægt að segja að margt hafi breyst hér heima. Það er búið að byggja stöku ný hús og hótel (tók sérstaklega eftir því) og breikka einhverjar götur og brýr. Ég gekk um miðbæinn í gærkvöldi og þar var allt við það sama. Þó hefur einhverjum veitingastöðum verið lokað, nöfnum annarra verið breytt og einhverjir nýir bæst við í flóruna. Svo er líka "ánægjulegt" að endurnýja kynnin við alla jeppana í umferðinni. Ég hef satt að segja aldrei skilið þá áráttu manna að eignast stóran jeppa til að komast innan úr Grafarvogi eða Garðabæ niður í miðbæ. Allt síðasta ár rakst ég einungis á einn Landcruiser í Kaupmannahöfn.

En eitt verð ég að játa. Vera mín í Danmörku hefur breytt einu hjá mér. Mér finnst hreinlega ekki lengur eins spennandi að fá mér eina pylsu á Bæjarins bestu - til þess eru danskar pylsur of góðar. Ég fékk mér eina Bæjarins fyrr í dag og mér fannst hún reyndar góð. En hún stóð hins vegar ekki undir væntingum :-) Þetta var ekki sama upplifunin og í gamla daga þegar maður, nýkominn frá útlöndum, hljóp rakleiðis niður í bæ gagngert til þess að fá eina með tómat og steiktum - og kók með. Dönsku pylsurnar hafa ruglað mig í ríminu.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að íslenskt kók er enn best í heimi. Og að sama skapi er Ísland enn best í heimi!

PS: Sóley hefur sannarlega staðið í ströngu í dag. Hún gerði sér lítið fyrir og hjólaði 172 kílómetra - ég endurtek 172 kílómetra - í maraþonhjólreiðakeppni fyrir almenning sem ber nafnið Sjælland Rundt. Ég ætla að leyfa henni sjálfri að blogga um þetta við tækifæri - sennilega þegar hún er búin að hvíla sig. En það er ekki hægt annað en að vera stoltur af henni!

posted by Thormundur | 22:17

miðvikudagur, júlí 02, 2003  

::: Pakkað - nýjar myndir
Jæja. Nú er verið að pakka á fullu. Sigurveig sér um sína tösku og vill helst enga aðstoð. Við tökum sjálfsagt alltof mikið með en þetta eru þó fjórar vikur. Ég byrjaði á að leyfa Sigurveigu að velja föt úr skúffunum sínum og þá kemur í ljós hvað er í uppáhaldi. En reyndar vildi hún bara helst taka allt. Sem betur fer hefur hún ekki lagt fram neinar óskir um að taka allt dótið sitt með - við tökum bara valdar Barbie-dúkkur, eitt spil og nokkrar litabækur og bækur fyrir svefninn.

Við komum sem sagt á morgun. Sigurveig átti erfitt með að sofna í gærkvöldi og maður getur bara reynt að ímynda sér hvernig það verður í kvöld. Verst er auðvitað að Sóley kemur eftir viku - en það er allt út af vinnunni. Hún fær svo fáa daga í sumarfrí á launum. Ástæðan er að orlofsárið hér er almanaksárið og því gildir bara tímabilið sept-des. Það hefði alveg farið með tekjur okkar hefði hún verið allan mánuðinn burtu.

Ég vil vekja athygli á því að komnar eru nýjar myndir á myndavefinn. Þetta er myndir af Sigurveigu tannlausri, diskóteki á leikskólanum og frá heimsókn Ara Halldórs til okkar um daginn. Verði ykkur að góðu. Næstu myndir koma í ágúst!

posted by Thormundur | 20:35

föstudagur, júní 27, 2003  

::: Leikskólagöngu lokið!
Sigurveig fer ekki framar í leikskóla. Síðasti dagurinn hennar á Egegården var í dag. Af því tilefni hélt hún veislu með súkkulaðiköku og sleikjó. Ekki amalegt. Það er ekki hægt að segja annað en að Sigurveig hafi verið heppin með leikskóla. Tíminn á Furuhlíð og Reynihlíð á Hamraborg var frábær og danski leikskólinn reyndist henni mjög vel. Fólkið sem hefur annast hann þennan tíma hefur verið einstakt. Það er ekkert hægt að orða það öðruvísi. Kærar þakkir - ef einhver skyldi vera að lesa.

Við héldum síðbúið afmælisboð fyrir Sóleyju í kvöld. Hún átti auðvitað afmæli á mánudaginn var. Við buðum fullt af fólki en fengum fjóra í heimsókn. Fámennt en góðmennt. Röð tilviljana varð til þess að hinir og þessir komust ekki. Skyndileg ferðalög, vinna og flutningar héldu nokkrum gestum frá glæsilegum veitingum sem Sóley reiddi fram. Það þýðir bara að það var meira handa hverjum og einum!

Tónleikum Iron Maiden á Hróarskeldu var að ljúka. 75 þúsund manns að horfa - þar af nokkur hundruð Íslendingar. Ég hitti söngvara hljómsveitarinnar í dag og tók í höndina á þessum prúða manni - og flugmanni. Það var mjög fróðleg reynsla.

posted by Thormundur | 23:47

fimmtudagur, júní 26, 2003  

::: Fyrsta skólataskan keypt
Við keyptum skólatösku handa Sigurveigu í dag - á næstsíðasta degi hennar í leikskóla. Nú er bara einn dagur eftir, svo tekur við sumarfrí og loks hefst skólagangan.

Fyrsta skólataskan hennar Sigurveigar er ein með öllu frá Lego, sérstaklega hönnuð fyrir hennar aldur. Í töskunni eru fullt af hólfum fyrir eitt og annað, þ.á m. nestisboxið og vatnsbrúsa. Og viti menn. Hólfið fyrir nestisboxið er álfóðrað til að halda réttum hita á nestinu. Magnað. Þá fylgir sérstök leikfimitaska sem taka má af og síðast en ekki síst er pennaveski í stíl. Við drifum okkur að kaupa í dag því þessa dagana eru útsölur í Danmörku og nýja Lego-línan var á sérstöku kynningarverði. Sigurveig hafði séð töskuna áður og hafði heillast. Sigurveig er auðvitað alsæl með töskuna og sýnir hana öllum sem skoða vilja.

Nú er bara vika í að við Sigurveig fljúgum heim. Það þýðir að það eru tvær vikur í Sóleyju. Við getum ekki beðið.

posted by Thormundur | 23:28

miðvikudagur, júní 18, 2003  

::: 0. C
Við erum nýkomin af kynningarfundi í skólanum hennar Sigurveigar, Rødovre Skole. Okkur leist afar vel á. Sigurveig verður í bekk sem heitir því fallega nafni 0. C! Það skýrist af því að skólaskylda hefst ekki fyrr en við sjö ára aldur og það er því sjö ára bekkur sem fær að heita 1. bekkur. Allrafyrsti bekkurinn nefnist reyndar líka børnehaveklasse.

Það verður fámennt en góðmennt í 0. C. Alls verður 21 barn í bekknum, 11 stelpur og 10 strákar. Aðalkennarinn heitir Bjarne og er hress náungi. Hann leggur mikla áherslu á að börnin læri að umgangast og virða hvert annað, lestur og skrift komi jafnóðum. Kennarinn er tónlistarmaður og segist grípa í gítarinn sinn á hverjum degi. Sóley fór einmitt í heimsókn í bekk til hans um daginn með tvö börn úr leikskólanum sínum í kynningu - og þá var Bjarne með gítarinn og börnin syngjandi. Ekki amalegt.

Bekkurinn hennar Sigurveigar verður með stofu í álmu sem nýlega hefur verið tekin alveg í gegn - stofurnar eru sem nýjar og aðstaðan glæsileg. Við komumst líka að því að þrjár stelpur úr leikskólanum hennar verða með Sigurveigu í bekk. 0. C verður því án efa hinn hressasti bekkur. Við foreldrarnir erum spennt eftir þessa heimsókn og Sigurveig - sem skildi ekki alveg hvers vegna hún mátti ekki fara með - verður án efa ánægð í nýja skólanum sínum. Og þetta byrjar allt saman 7. ágúst.

Annars er allt gott að frétta. Eftir Tívolíbombuna um helgina með Ara Halldóri hefur verið hjólað, spilað, farið í bæinn og í keilu. Ari hjólar auðvitað út um allt - ekki síst hringinn í kringum engið. Reyndar sprakk afturdekkið á sunnudag þegar þau Sóley voru á leið í bæinn. Við létum gera við það - en það var skammvinn sæla. Það sprakk aftur á sama dekki í dag! Viðgerð á morgun. Síðast en ekki síst höfum við Ari háð mikla baráttu í tölvuleikjum á netinu. Við bætum stigametin til skiptis og spennan er mikil. Tilkynning um það hvor okkar á metið á sunnudag þegar Ari fer verður kannski birt hér á blogginu.

posted by Thormundur | 21:44

fimmtudagur, júní 12, 2003  

::: Ari Halldór á leiðinni
Þetta blogg mun ekki snúast um fótbolta. Ég fékk einmitt kvörtun í gær frá tryggum lesanda þess efnis að ég bloggaði allt of mikið um fótbolta, að bloggin að undanförnu væru eintóm fótboltablogg. Þessi tímabæra gagnrýni á skrif mín um fótbolta hefur verið tekið til greina og því mun ég ekkert skrifa um fótbolta að þessu sinni. Það væri auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að gera fótbolta að umtalsefni. Sem sagt: Ekki meiri fótbolti að sinni. Blaðran er sprungin.

Það sem stendur upp úr hjá okkur núna er að hinn nýfermdi Ari Halldór kemur til landsins í kvöld og ætlar að vera hjá okkur í tíu daga. Satt að segja getur Sigurveig varla beðið. Við getum heldur ekki beðið. Við förum auðvitað í Tívolí, á Bakken og á sólarströnd svo fátt eitt sé nefnt. Svo er meira að segja bæjarhátíð hér í Rødovre um þessa helgi. Búið að setja upp heilt tívolísvæði við ráðhúsið, skammt frá Rødovre Centrum (fyrir þá sem þekkja vel til hér í bænum)! Það lítur út fyrir þokkalegt veður næstu daga, 20 stig og sól með stöku skúrum einn og einn dag.

posted by Thormundur | 13:59

miðvikudagur, júní 11, 2003  

::: Ekki lengur efstir
Hið óhjákvæmilega gerðist. Þjóðverjar unnu. En þeir skoruðu ekki fyrr en á 89. mínútu og maður var farinn að halda að Færeyingum tækist að halda jöfnu. Við erum því ekki lengur efstir. Verðum þó í öðru sæti í nokkrar vikur - kannski lengur. Hver veit. Þjóðverjar voru jafn heppnir og við gegn Færeyingum. Þetta var einstefna allan tímann en tvö mörk í lokin slökktu vonir frænda vorra. Maður sárvorkennir þeim. Jafntefli gegn Þjóðverjum hefði verið magnaður árangur. En Færeyingar geta verið stoltir, það var svo sem engin hætta á að þeir skoruðu en þeir sýndu einstaka baráttu og góðan varnarleik. Léku eins og Íslendingar hafa verið svo þekktir fyrir í gegnum tíðina!

posted by Thormundur | 23:08
 

::: Þjóðverjar bitrir
Það er hálfleikur í Færeyjum og við erum enn efstir í riðlinum. Ég sá myndir úr leiknum og hann var víst ekkert spes. Mörkin voru þó góð og þrjú mörk og þrjú stig í höfn. Þýski íþróttafréttamaðurinn var reyndar svo bitur að ég hef aldrei heyrt annað eins. Hann skildi ekki hvernig leikur Litháa og Íslands gat verið leikur um tímabundið efsta sæti. Hann var svo neikvæður að það var bara fyndið. Þegar Ísland skoraði fyrsta markið sagði hann að loksins væru einhver merki um að leikinn væri fótbolti á vellinum. Að lokum gerði hann bara grín að því að Ísland væri efst í riðlinum. Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið neinn snilldarleikur en fyrr má nú fyrr vera biturðin. Vonandi fáum við tækifæri til að láta hann sjá eftir þeim orðum. :-) Við gætum hugsanlega náð af þeim stigi eða þremur heima og strítt þeim í Hamborg 11. október. Ég væri alveg til að fara á þann leik. Ef við vinnum Færeyjar í haust spilum við um sæti í úrslitum EM í tveimur leikjum gegn Þjóðverjum. :-) Ég segi ef því við eigum síst af öllu sigur vísan gegn Færeyingum. Það er ekkert öruggt í fótbolta. Það eigum við Íslendingar að vita best sjálfir. En það er gaman meðan vel gengur.

posted by Thormundur | 21:53
 

::: Efstir í riðlinum!
Þegar þetta er skrifað erum við efstir í riðlinum eftir frábæran útisigur gegn Litháum, 0:3. Það er ekki oft sem maður getur sagt þetta. Þjóðverjar eru reyndar rétt að hefja leik gegn Færeyjum og geta náð efsta sætinum með líklegum sigri. En hverjum er ekki sama. Við erum efstir!

Ég hlustaði auðvitað á Bjarna Fel á Rás 2 og það var yndislegt. Maður var reyndar rosalega stressaður því hann var svo fljótur að æsa sig. Maður ruglaðist líka oft því það var lítill munur á lýsingum hans á okkar sóknum/mörkum og markvörslu Árna Gauts. Maður var því ekki alltaf viss hvorum megin vallar hættan var. Besta atriðið í lýsingunni var þegar aðstoðarmaður hans, Viðar Halldórsson, öskraði: "Hann lamdi strákinn," og átti þar við einn leikmann Litháa, sem "lamdi" semsagt son hans Arnar Þór, og hlaut rautt spjald fyrir. Maður heyrði ákaflega vel angistina í rödd hans þegar hann endurtók þetta aftur og aftur - fimm sinnum held ég: "Hann lamdi strákinn!"

Annars fæ ég að sjá útdrátt úr leiknum á þýsku stöðinni ARD í hálfleik í leik Færeyinga og Þjóðverja. Ég ætla miklu frekar á horfa á þann leik en hundleiðinlegan leik Lúxemborgara og Dana en þar er 0:1 í hálfleik. Maður heldur auðvitað stíft með Færeyingum, ekki bara okkar vegna heldur af sannri frændsemi.

posted by Thormundur | 21:07

laugardagur, júní 07, 2003  

::: Danir höfðu sigur
Leikurinn á Parken var ekki sá besti sem maður hefur séð en hann var afskaplega spennandi. Danir höfðu sigur þótt ekkert mark hefði verið skorað síðustu 90 mínúturnar! Eina markið kom á fjórðu mínútu og satt að segja ógnuðu Norðmenn mjög lítið allan leikinn. Með það í huga var sigurinn fyllilega verðskuldaður. Danir höfðu meira vilja og meiri trú á því sem þeir voru að gera. En riðillinn er orðinn mjög spennandi, Danir og Norðmenn með tíu stig og Rúmenar með níu. Nú eiga Danir Lúxemborgara í næsta leik á útivelli en Norðmenn taka á móti Rúmenum heima. Nóg í bili um fótbolta. Meiri Evrópubolti á miðvikudag.

posted by Thormundur | 21:21
 

::: Náði sigurmarkinu heima
Hálfleikur hér úti en Ísland hafði sigur heima gegn Færeyjum. Haldið þið ekki að ég hafi ekki séð sigurmarkið í beinni! Leikurinn var í beinni á þýsku stöðinni ARD (Þjóðverjar með okkur í riðli) en útsendingin var ekki í auglýstri dagskrá. Ég hafði auðvitað kannað málið. Ég var hins vegar svo heppinn að kíkja yfir á ARD þegar það var dauður punktur í leik Dana og Norðmanna. Viti menn - tíu mínútur eftir. Ég hafði þó fylgst með leiknum á netinu og vissi að við höfðum ekki nýtt nokkur færi og að Færeyingar hefðu jafnað úr eina færi sínu. En svo kom Tryggvi og skallaði okkur til sigurs. Naumur en afar sanngjarn sigur. Þetta þýðir að þrátt fyrir allt erum við enn með í baráttunni, ekki síst eftir jafntefli Skota og Þjóðverja í dag.

Annars eru Danir yfir gegn Norðmönnum 1:0. Jesper Grønkjær skoraði eftir aðeins fjórar mínútur. Ég heyrði í Sóleyju áðan. Hún hélt að þakið myndi hrynja yfir sig þegar Danir fögnuðu. Annars hefur hún ekki selt neinn bjór - hún var sett í pylsurnar!

posted by Thormundur | 20:20
 

::: Ólýsanleg stemmning
Það er hálfleikur heima og 25 mínútur í stórleikinn á Parken. Sóley sjálfsagt búinn að selja tugi lítra af bjór. Við fórum annars í bæinn í dag og hittum Pálma. Urðu fagnaðarfundir. Við gengum um bæinn og upplifðum einstaka stemmningu. Þúsundir Dana og Norðmanna voru að hita sig upp fyrir leikinn með söng, hvatningaröskrum og bjórdrykkju. Bærinn var rauður og hvítur aðallega en íslensku fánalitirnir voru líka áberandi - það er í norsku útgáfunni.

Við komum við í Nýhöfn og það var ótrúleg sjón. Höfnin var troðfull af glöðum fótboltaáhangendum beggja landsliða og þegar við komum voru menn að keppa í þjóðsöng. Danir unnu vitanlega enda miklu fleiri og þjóðsöngurinn auðveldari í flutningi. Það flottasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað hér í Danmörku er reyndar þegar áhorfendur á Parken syngja þjóðsöng sinn allir sem einn. Maður fær gæsahúð. 40 þúsund manns sem syngja í takt. Alveg hreint magnað.

En hvort ég held með Dönum? Það er ekki alveg víst. Ég vona allavega að Ole Gunnar Solskjær skori nokkur mörk. Ef Danir skora fleiri verðskulda þeir sigur.

posted by Thormundur | 19:07

fimmtudagur, júní 05, 2003  

::: Önnur löng helgi framundan
Í dag er þjóðhátíðardagur Dana, Grundlovsdagen. Dagurinn stendur þó vart undir nafni því engin þjóðhátíð er haldin, engar skrúðgöngur og engar skipulagðar skemmtanir. Á þessum degi minnast menn fyrstu stjórnarskrár Dana sem tók gildi þann 5. júní 1849. Nýjasta útgáfa stjórnarskrárinnar fagnar hins vegar fimmtugsafmæli sínu í ár. Þjóðhátíðardagurinn er frídagur víðast hvar og jafnframt byrjun á annarri langri helgi. Reyndar er vinnudagur á morgun - svona til málamynda - en svo koma þrír frídagar vegna hvítasunnuhelgarinnar.

Það er margt sem til stendur að gera um helgina en efst á lista er heimsókn Pálma vinar okkar, sem er í ferðalagi um Svíþjóð og Danmörku með samkennurum sínum úr Safamýrarskóla. Við munum hitta hann um helgina en hann var væntanlegur til Köben í dag frá einu úthverfa borgarinnar - Malmö í Svíþjóð. :-)

Annars bíður danska þjóðin í eftirvæntingu eftir uppgjöri Dana við Norðmenn á knattspyrnuvellinum, nánar tiltekið á Parken á laugardaginn. Þjóðirnar leika í sama riðli í undankeppni EM og óhætt er að segja að allt sé á öðrum endanum hér í Danmörku - og auðvitað líka í Noregi. Fyrri leikur liðanna í riðlinum endaði með jafntefli 2:2. Eftir þann leik hófst mikið orðaskak milli þjálfara annars vegar og fjölmiðla í hvoru landi hins vegar. BT hóf sálfræðistríðið að nýju í upphafi vikunnar með háðulegri úttekt á frændþjóð sinni sem þeir kölluðu þjóð tapara. Greinin vakti strax hörð viðbrögð í Noregi, sem kallaði á andsvör í dönsku pressunni og svo framvegis. Leikmönnum hefur hins vegar verið bannað að tjá sig, að minnsta kosti bannað að vera ögrandi í viðtölum. Norðmenn standa vel að vígi fyrir leikinn, eru efstir í riðlinum með 10 stig en Danir í öðru sæti með 7 stig. Það þarf því engan snilling til að átta sig á mikilvægi leiksins. Danir verða helst að vinna því aðeins efsta liðið tryggir sér farseðil til Portúgal. Liðin í öðru sæti þurfa hins vegar í umspil. Hins vegar snýst þessi leikur ekki síður um stolt en stig.

Ég verð því miður að láta mér nægja að horfa á leikinn í sjónvarpi en Sóley fær hins vegar að fara á Parken! Hún mun þó sjá minnst af leiknum því hún og liðsfélagar hennar í handboltanum munu selja bjór á leiknum til að afla fjár fyrir liðið. Nóg að gera hjá henni! Ég öfunda hana samt mjög mikið því stemmningin verður engu lík á leiknum. Það hef ég upplifað tvisvar, þótt stemmningin hafi orðið heldur súr þegar leið á leikinn í seinna skiptið.

posted by Thormundur | 23:53

sunnudagur, júní 01, 2003  

::: Fjögurra daga helgi
Það hefur sannarlega verið líf í tuskunum hér á Voldumvej þessa helgi, sem var í lengri kantinum í þetta sinn, eða heilir fjórir dagar. Sóley og Sigurveig fengu frí á föstudeginum eins og siður er í skólum og leikskólum eftir uppstigningardag.

Langa helgin byrjaði mjög vel. Ég sótti Sigurjón á Kastrup á fimmtudagskvöldið og hann snæddi hjá okkur kvöldverð og fékk síðan húsaskjól. Við spjölluðum fram á nótt um allt milli himins og jarðar og meira til. Morguninn eftir drifum við okkur niður í bæ og náðum góðum göngutúr í miðbænum - og einum øl á Nýhöfn - áður en hann hélt aftur á flugvöllinn til að ná vélinni heim.

Við vorum síðan boðin í grillveislu um kvöldið hjá nágrönnum okkar, Lars og Ninet, og fengum gómsæta rifjasteik með tilheyrandi meðlæti. Clara og Sigurveig fengu pylsur og léku við hvern sinn fingur. Daginn eftir fékk Sigurveig boð um að fara með vinkonu sinni í húsdýragarð í Hróarskeldu.

Boðið var endurgoldið í dag þegar Sóley fór með stelpurnar á sólarströnd við Klampenborg. Var ég búinn að nefna að það hefur verið sól og 25 stiga hiti alla helgina eins og reyndar alla síðustu viku líka? Þá er ég búinn að því. Stúlkurnar voru á ströndinni langt fram eftir degi og komu dasaðar heim eftir busl í heitum sandinum en kannski ekki svo heitum sjónum. Hann á eftir að hitna betur.

Síðasta verk okkar þessa helgi var að kíkja á nýfædda dóttur Ingu Steinunnar og Hjölla á fæðingardeildinni á Hvidovre Hospital. Litla dúllan fæddist í gærmorgun - þann 31. maí - og var 16 merkur og 52 cm. Nýbakaðir foreldrarnir tóku sig afar vel út með dömuna sína - heilsuhrausta og sérlega hárprúða. Til lykke Inga og Hjölli!

posted by Thormundur | 23:29

laugardagur, maí 31, 2003  

::: Karfan minni en mér sýndist!
Ég verð að koma að smá leiðréttingu. Ég var að sjá endursýningu úr úrslitaleiknum á HM í kafsundknattleiknum í íþróttafréttum. Karfan er sennilega bara hálfur metri í þvermál. Þetta er auðvitað lykilatriði. Annars kærðu Norðmenn úrslitin, töldu sig hafa jafnað leikinn og þess vegna var mikið endursýnt úr leiknum. En kæruna var hafnað. Svíar eru heimsmeistarar og Þjóðverjar í kvennaflokki. Líður ykkur ekki betur við að vita þetta allt saman?

Ég var líka að komast að því að þessi íþrótt er stunduð hér í Rødovre og er lið bæjarins meðal þeirra fjögurra bestu í landinu. Náði silfri á danska meistaramótinu árið 2000! Það er spurning hvort maður ætti að byrja að æfa. Eftir nokkur ár hér myndi maður auðvitað stofna kafsundknattleiksdeild KR!

posted by Thormundur | 18:29
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn