sunnudagur, júlí 11, 2004
::: Síðasti dagurinn á Voldumvej Nú er nærri tveggja ára dvöl á Voldumvej á síðasta degi. Næsta nótt verður okkar síðasta á þessum yndislega stað. Gámurinn kemur snemma í fyrramálið og í þessum skrifuðum orðum sitjum við Sóley umkringd kössum í mannhæðarháum stöflum. Við höfum staðið á haus síðustu daga en sjáum nú fyrir endann á þessu.
Sigurveig er hjá pabba og mömmu á Østerbro en þau komu til Danmerkur á fimmtudag - í síðustu heimsókn til okkar hér í Köben. Þau hafa aðstoðað okkur, ekki síst við að hafa ofan fyrir Sigurveigu.
Við skilum þó ekki íbúðinni fyrr en á fimmtudag en dagana þangað til notum við til að þrífa íbúðina hátt og lágt og mála hana. Það síðastnefnda gerum við til að koma í veg fyrir himinháan reikning frá leigusölum fyrir málingarvinnu. Að þessu loknu er stefnan tekin til Noregs þar sem við ætlum að vera í brúðkaupi Ástu Marie frænku minnar og Suman, hins nepalska unnusta hennar.
Síðustu dagar hafa einkennst af kveðjuveislum. Það er í raun magnað hvað við höfum kynnst mörgu góðu fólki, einkum í gegnum handboltaliðið og vinnuna hennar Sóleyjar. Sigurveig hefur líka kvatt vinkonur sínar. Sjálf hélt hún kveðjuveislu í gær fyrir bestu vinkonur sínar héðan af Voldumvej, Clöru og Michelle. Þær léku mjög vel saman, eins og endranær, en það var mjög augljóst að þær vissu hvað væri að gerast.
Sóley hefur kvatt hina og þessa síðustu daga en síðan tókst okkur líka að nýta fyrsta - og sennilega síðasta - sumardag í Danmörku til að fara í okkar fyrstu ferð á Bakken. Þetta var á miðvikudag og þá var ekki rigning, heldur sól og fínn hiti. Við fórum með Heiðu og Jesper og þótt Sigurveig hafi verið duglegust í tækjunum fórum við nú öll saman í einn elsta rússibana heims. Hann er af gamla skólanum, fer bara upp og niður, en auðvitað hratt og gegnum göng. En sem sagt engar lúppur eða 360° brautarhlutar.
Jæja, það verður að halda áfram að pakka.
posted by Thormundur |
21:02
þriðjudagur, júní 29, 2004
::: Grenjandi rigning og góður gleðskapur Það var grenjandi rigning nánast í allan dag og dimmt yfir. Veðrið hefur ekki beinlínis verið gott í Danmörku það sem af er sumri en maður verður að vera bjartsýnn. Sólin tekur brátt völdin með tilheyrandi hita. Annað er ekki hægt.
Sóley og Sigurveig fóru í ferðalag í dag heim til Randy, fyrrum samstarfskonu Sóleyjar á leikskólanum, en hún býr syðst á Sjálandi. Þær eru rétt ókomnar eftir tveggja tíma lestarferðalag. Það merkilegasta er auðvitað að samstarfskona hennar fer þessa leið tvisvar á dag á leið úr og í vinnu! Ég heyrði í þeim áðan og var mikið fjör á þeim bænum. Sólin skein meira að segja þarna fyrir sunnan. Greinilegt að veðrið er einna síst í Köben.
Við höfum haft það gott síðustu daga. Haldin var afmælis- og kveðjuveisla á föstudaginn fyrir handboltavinkonur Sóleyjar, vinnufélaga og fleiri vini hennar. Veislan var afskaplega skemmtileg og stóð gleðskapur fram á nótt. Við leigðum samkomusal íbúðahverfisins og þar var borðað, drukkið og dansað að dönskum sið. Sigurveig og vinkona hennar Clara voru auðvitað með í partýinu. Það stóð til að Sigurveig færi heim til vinkonu sinnar í næturgistingu en hún harðneitaði og dansaði áfram til hálfeitt. Þá sofnaði hún bara á einum sófanum!
Sóley fékk ýmsar góðar gjafir, þ.á m. línuskauta frá handboltaliðinu. Gjöfin hitti greinilega í mark því hún hefur farið nokkra hringi í kringum Damhusengið. Það er auðvitað hrein viðbót daglegt skokk í kringum sama engi! Sigurveig er fyrir nokkru búin að læra á línuskauta og þær mæðgur eru góðar saman á skautunum.
Þetta er gott í bili.
posted by Thormundur |
23:07
miðvikudagur, júní 23, 2004
::: Sameinuð fjölskylda Þá er fjölskyldan sameinuð á ný eftir nokkurra mánaða aðskilnað og flakk milli landa. Ég flaug til Köben í morgun og næst þegar við fljúgum heim erum við alkomin heim. Við erum öll mjög hamingjusöm að þessu tímabili sé lokið. Nú tekur við pökkun búslóðar og síðast en ekki síst gott sumarfrí.
Það var ekki tilviljun að ég kom í dag. Sóley á nefnilega afmæli í dag. Við fögnuðum þessu með heimsókn í verslunarmiðstöðina Fields - tókum það framyfir miðbæinn vegna slagveðurs og rigningar! Við áttum góðan dag, fengum fínan mat í tilefni dagsins og Sigurveig fékk að fara í leikfangaland í ætt við Ævintýraland í Kringlunni.
Í kvöld tókum við þátt í miðsumarsgleði Dana, en kvöldið hér heitir St. Hans aften. Þetta kvöld eru bál kveikt um gjörvalla Danmörku með tilheyrandi skemmtunum. Hátíðarhöld hér í Rødovre eru haldin í "bakgarðinum" okkar, hinu víðfeðma engi, Damhusengen, sem aðskilur Kaupmannahöfn og Rødovre. Sigurveig var mjög spennt fyrir þessu, enda leiktæki og lotterí á staðnum og popp og saftevand.
Næstu dagar verða skemmtilegir. Ég mun reyndar halda áfram að vinna héðan að utan en það er sannarlega styttra í stelpurnar, sem báðar eru í sumarfríi.
posted by Thormundur |
23:13
þriðjudagur, júní 22, 2004
::: Brúðkaupsafmæli! Við Þórmundur eigum tveggja ára brúðkaupsafmæli í dag. Við erum enn í brúðkaupsferðinni hérna í Danmörku - með smá fjarveru Þórmundar - og hefur hún verið í einu orði sagt frábær. Á morgun kemur svo minn heittelskaði og við náum að eyða síðustu dögunum hérna á Voldumvej saman. Ótrúlegt að tvö ár séu liðin, við munum daginn í smáatriðum eins og hann hafi verið í gær.
Í dag á hún Unnur Fríða systir mín líka afmæli. Hún er fertug í dag. Við óskum henni innilega til hamingju með daginn - við komum og knúsum hana um leið og við komum heim.
Fréttir af atburðum liðinni daga koma fyrr en varir, við Sigurveig erum búnar að hafa nóg að gera í að kveðja hina og þessa og nú er auðvitað brjálað að gera hjá okkur við að vera í sumarfríi.
posted by Soley |
11:21
miðvikudagur, júní 09, 2004
::: Til hamingju með afmælið elsku mamma! Mamma mín á stórafmæli í dag, hún er orðin sextug, ótrúlegt en satt. Það er verst að við getum ekki samglaðst henni í dag en við gerðum okkar besta og hringdum í hana og sungum afmælissönginn í símann. Við mamma erum einstaklega góðar vinkonur og lít ég mikið upp til hennar. Það verður frábært þegar við erum flutt heim og hægt verður að skreppa í Hofslundinn, setjast við eldhúsborðið og spjalla um allt og ekkert. Elsku mamma, til hamingju með afmælið!
Þórmundur kom til okkar í gær og urðu að sjálfsögðu miklir fagnaðarfundir. Við hófum undirbúning kveðjupartýs fyrir bekkinn hennar Sigurveigar sem við héldum í dag. Partýið gekk eins og í sögu og allir skemmtu sér konunglega. Sem betur fer rigndi ekki eins og spáin hafði lofað og léku krakkarnir sér því úti allan tímann. Róluðu, veguðu, krítuðu, spiluðu tennis og fótbolta, blésu sápukúlur og dönsuðu. Síðan gæddum við okkur á súkkulaðiköku og "pølsehorn" og íslenskum rískubbum. Þetta er frábær bekkur sem hún Sigurveig er í og voru krakkarnir allir sem einn til fyrirmyndar. Þau færðu Sigurveigu kveðjugjöf, "diddle" pennaveski, myndaalbúm og litla öskju og var hún vægast sagt afar ánægð með gjöfina.
posted by Soley |
21:32
sunnudagur, júní 06, 2004
::: Ég er svo stolt af sjálfri mér!!! Ótrúlegt að það sé komið sunnudagskvöld. Við Trine vorum súperduglegar um helgina, kláruðum bæði hjólreiðarnar í gær og hlaupið í dag með miklum stæl. Vægt til orða tekið er ég gjörsamlega dauð í kroppnum - en skrýtið hvað manni líður vel á sama tíma.
Við hjóluðum kílómetrana 112 í gær á 4 tímum og 43 mínútum. Veðrið var frábært til hjólreiða, sólin skein reglulega á okkur, smá rigning og skýjað þess á milli. Við fengum góðar samlokur og ávexti á stoppustöðvunum og náðum þannig að hlaða batteríin. Mamma hennar Trine hjólaði með okkur og kom hálftíma á undan okkur í mark. Hún beið svo eftir okkur og gaf okkur rósir þegar við komum í mark. Það streymdi þægileg ánægjutilfinning um kroppinn minn í gær þegar við fengum gullpening um hálsinn - allir þátttakendur fengu gullpening. Nú finnst mér ég vera orðinn bauni út í gegn - búinn að klára mína fyrstu hjólreiðakeppni. Skide godt!
Í morgun tókum við Sigurveig daginn snemma og hjóluðum af stað um hálf átta. Fann aðeins fyrir því að bossinn var aumur eftir hjólreiðarnar í gær. Við hlupum svo af stað klukkan 10.07 og leiðin lá í gegnum fallegan skóg Farum, 14,3 km. Það kláruðum við á 1 klukkustund og 23 mínútum. Vel af sér vikið - okkur langaði til að skrifa á bolina okkar að við hefðum sko líka hjólað langt í gær. En það var nóg fyrir okkur sjálfar að vita það og fengum við tár í augunum þegar við loksins komum í mark. Enn og aftur tók mamma hennar Trine á móti okkur við mikil fagnaðarlæti. Sigurveig undi sér vel í barnapössuninni á meðan, hún er svo glöð og yndisleg stelpa og á aldrei í vandræðum með að finna sér einhvern til að leika við. Dagurinn í dag hefur svo farið í að slappa af og borða, enda öll orka búin. Nú fer ég að kasta mér á sófann og verð sjálfsagt fljót að sofna.
Nú kemur Þórmundur bara eftir tvo daga. Á morgun koma Hildur vinkona, Bragi og Helgi Hrannar í mat til okkar Sigurveigar. Þau eru í fríi hérna í Danmörku og eru svo yndisleg að gefa sér tíma í að koma í heimsókn.
posted by Soley |
20:50
fimmtudagur, júní 03, 2004
::: Ég er hérna ennþá! Já það er langt síðan ég hef sest niður og gefið mér tíma til að blogga. Ég verð víst að viðurkenna að sólin og góða veðrið hefur aðeins meira aðdráttarafl en tölvan en nú koma smá fréttir af okkur mæðgum.
Sumarið er svo sannarlega komið hérna í Danmörku. Það þýðir að Sigurveig leikur sér úti allan daginn og þá meina ég allan daginn. Mitt helsta hlutverk er þá að hafa mat tilbúinn á borðum þegar hún kemur inn, setja hana í bað á kvöldin og lesa sögu fyrir svefninn. Hún er þó alltaf dugleg að æfa sig að lesa og lesum við því samviskusamlega öll kvöld. Ég eyði miklum tíma á svölunum góðu og síðan fer ég reglulega út að hlaupa. Þá eru nágrannarnir svo indælir að fylgjast með Sigurveigu á meðan. Ég mæti nú líka enn í vinnuna en þar verður minn síðasti vinnudagur 18. júní.
Um helgina verður nóg að gera. Ég, Trine vinkona og mamma hennar ætlum að hjóla Tøse-Runden á laugardaginn. Það eru 112 km sem við eigum að hjóla. Við hjóluðum nú 184 km síðasta sumar þannig að þetta verður örugglega létt og löðurmannlegt ;-). Á sunnudaginn ætlum við að taka þátt í hlaupi, Farum Søløb og kýlum þar á 14 km. Við erum búnar að æfa okkur vel, prófuðum m.a. að hlaupa sömu vegalengd í síðustu viku. Það gekk mjög vel þannig að við ættum að geta staðið okkur með sóma. Sigurveig fær að gista hjá Kristine vinkonu minni frá föstudegi til laugardags þar sem við tökum hjóladaginn afar snemma. Á meðan við hlaupum á sunnudaginn fær hún að leika á leikskvæði í Farum þar sem boðið er upp á barnapössun. Það verður sem sagt nokkrum kaloríum brennt um helgina!
Sem betur fer kemur svo heittelskaður eiginmaður og pabbi til okkar á þriðjudaginn. Hann verður settur í fulla vinnu við að nudda þreyttar tær og auma vöðva :-). Í þetta skipti kemur hann til að taka þátt í kveðjuveislu fyrir bekkinn hennar Sigurveigar sem við höldum á miðvikudaginn. Heimsóknin verður stutt að þessu sinni, hann fer aftur á fimmtudaginn. En við hlökkum rosalega mikið til. Bara fimm dagar þangað til ...
Læt þetta duga í bili, þarf að drífa mig í vinnuna. Ha' det rigtig godt!
posted by Soley |
08:24
laugardagur, maí 29, 2004
::: Allt að styttast Um síðustu helgi var ég í Kaupmannahöfn og ekki svo langt þangað til ég kem aftur í heimsókn. Svo er ekki nema rúmur mánuður þar til ég fer alfarinn til Danmerkur til að fara í eins konar sumarfrí og að pakka búslóðinni í gám. Þetta er sem sagt allt að styttast og eins gott.
Við höfum verið ódugleg í blogginu og það er best að ég skrifi örlítið um síðustu helgi. Ég kom nefnilega óvænt í heimsókn, stelpunum til ómældrar gleði. Ég var víst þó heldur leynilegur í þessu og í örfáar sekúndur hélt Sóley að það væri kominn innbrotsþjófur á staðinn. Sigurveig var ekki sofnuð en ég hafði einmitt drifið mig í leigubíl eftir síðdegisflugið til að ná henni vakandi. Urðu fagnaðarfundir.
Þar sem pabbi er ekki alltaf á staðnum núna var ég nánast allan fimmtudaginn "úti að leika" með Sigurveigu og fleirum. Í þetta sinn vildi hún hafa mig með í öllu. Svæðið í kringum Voldumvej er mjög upplagt fyrir feluleiki og það var skipst á að telja og leita.
Við lékum ferðamenn þessa helgi og fórum út að borða, í Tívolí og á tónleika. Við drifum okkur til dæmis loksins á tælenska veitingastaðinn í Rødovre, sem höfum lengi ætlað okkur að heimsækja. Ég get alveg mælt með honum en hann er auðvitað ofurlítið úr leið fyrir almenna ferðamenn. Á föstudaginn fórum við á tónleika með Safri Duo í Tívolí á aðalútisviðinu, Plænen. Þessir dönsku slagverksteknópopparar eru mjög vinsælir í heimalandinu og víða um heim.
Sunnudagurinn fór síðan nær allur í Tívolí. Ég fór með töskurnar á Hovedbanegården og svo vorum við þar þangað til ég fór í flug. Við Sigurveig keyptum okkur "turpas" í öll tæki og nýttum hann vel. Fórum öll helstu tækin og sum oftar en einu sinni. Svo skemmtilega vildi til að við hittum bestu vinkonu Sigurveigar og foreldra hennar í Tívolí og slógumst í för með þeim. Þær litlu gátu þá farið saman í ýmis tæki. Ég reyndi auðvitað að fara sem seinast af stað og græddi klukkutíma vegna seinkunar á brottför.
Eins og við var að búast var þetta mjög skemmtileg heimsókn og maður getur vart beðið eftir þeirri næstu. Það er satt að segja mjög sérstakt að vinna í einu landi og með fjölskylduna í hinu. Þetta er mjög erfitt og eingöngu hægt vegna þess að maður veit að það tekur brátt enda og að þetta auðveldar okkur flutningana til Íslands.
posted by Thormundur |
14:39
föstudagur, maí 14, 2004
::: Hrærður prins Eins og margir aðrir tók ég þátt í gleði Dana og horfði á brúðkaup Friðriks og Mary í sjónvarpinu í dag. Ég tók mér sem sagt smá pásu frá vinnunni til að sjá prinsinn tárast, hringana skrúfaða upp á konunglega fingur og kossinn, sem beðið hafði verið af mikilli eftirvæntingu í Danmörku. Sóley og Sigurveig voru enn nær viðburðunum því þær fóru niður í bæ og heilsuðu nánast upp á nýgiftu hjónin á Strikinu - svo nærri gátu þau fylgst með kerruferð brúðarparsins um stræti kóngsins Kaupmannahafnar.
Það sem hrærði mig mest í brúðkaupinu var augnablikið þegar Friðrik táraðist fyrir framan þjóð sína og alheim í beinni sjónvarpsútsendingu. Ég gat auðveldlega sett mig í spor Friðriks. Rétt eins og hann, táraðist ég þegar dyrnar lukust upp í Háteigskirkju fyrir tæpum tveimur árum og Sóley gekk inn kirkjugólfið, íklædd fallega brúðarkjólnum, sem við keyptum einmitt í Danmörku. Sigurveig man mjög vel hvar við keyptum brúðarkjólana - og aldrei bregst það þegar við göngum framhjá búðinni að hún segi: "Þarna keyptum við kjólana fyrir brúðkaupið okkar," með sérstakri áherslu á síðasta orðið.
Það er liðin tæp vika síðan stelpurnar voru hérna hjá mér. Heimsóknin í síðustu viku var frábær. Sigurveig fór nánast beint úr flugvélinni í leikhús að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Hún fór vitanlega líka einn dag í 6 ára gestabekkinn sinn í Hofsstaðaskóla. Við Sóley fórum líka í leikhús og spásseruðum um bæinn og mollin rétt eins og ferðamenn. Talandi um ferðamenn. Ferðamennirnir tveir frá Danmörku voru reyndar frekar óheppnir með veður því hitinn var við og undir frostmark nær alla vikuna meðan sólin skein í Köben. Við fengum þó fáeina góða daga í lokin án kulda og roks.
Næst er komið að mér að heimsækja þær. Stelpurnar koma reyndar ekkert aftur til Íslands fyrr en við flytjum alkomin í lok júlí. Tímasetningar ætla að ganga vel upp því við erum svo heppin að fá nýju íbúðina afhenta 1. ágúst og getum því strax farið að koma okkur vel fyrir.
posted by Thormundur |
23:27
fimmtudagur, apríl 29, 2004
::: Loksins er partýið búið! Loksins er ég komin heim úr frábæru partýi! :-) Það má með sanni segja að við Rødovre-píur höfum skemmt okkur vel um síðustu helgi. Mjög danskt partý í alla staða - og þar af leiðandi mjög að skapi mínu. Í upphafi var okkur skipt í fjögur lið og svo hófst keppni í hinum ýmsu greinum. Við byrjuðum á því að höggva eldivið, síðan negldum við nagla í trjábol, spiluðum pílukast, spurningakeppni og punkturinn yfir i-ið var karókí keppni milli liða. Mitt lið mátti því miður státa sig af lélegustu frammistöðunni í karókíi en unnum aftur á móti góðan sigur í samanlagðri keppni í fyrstu þremur greinunum. Að sjálfsögðu var góður matur á boðstólnum og hópurinn gaf sér góðan tíma til að gæða sér á honum. Síðan voru þjálfarar, liðstjóri og sjúkraþjálfari leystir út með gjöfum. Sárabandsgjöfin féll vel í kramið. Síðan kom í ljós að Morten fys eins og við köllum hann er kominn með samning við Slagelse og verður hann þar með sjúkraþjálfari þeirra skvísa á næsta ári. Gott að hann geti notað alla reynsluna úr mínum meðferðum á stjörnum eins og Camillu Andersen. ;-) Hann átti þessa stöðu frábærlega skilið enda frábær sjúkarþjálfari. Seinni hluta kvöldsins þarf vart að lýsa. Dúndrandi stuð í takt við gömul dönsk Júróvisíjón lög. Við Heiða fengum eitt íslenskt júróvisíjon lag, tell me..(man ekki meir)og sungum af mikilli innlifun. Sem sagt geggjað partý! Áframhaldandi partýstand á liðinu er síðan á laugardaginn en þá er haldið lokahóf fyrir allan klúbbinn. Sem sagt, rosa fjör í Rødovre Håndbold Klub.
Ég fór með Sigurveigu í foreldraviðtal á miðvikudaginn. Að þessu sinni voru viðtölin líka fyrir krakkana. Hún fékk toppeinkunn frá kennurunum, stendur sig eins og hetja þessi elska. Þeim finnst yndislegt hvernig hún kemur brosandi inn í stofuna á morgnana og segja að gleði hennar smiti krakkana í bekknum um leið. Hún er mjög vandvirk og tekur þátt í öllu sem bekkur tekur sér fyrir hendi. En Bjarne kennarinn hennar sagðist samt vera mjög fúll út í hana og fjölskyldu hennar - af því hún væri að flytja. Þá sagði Sigurveig: "Ég veit það, það munu allir sakna mín alveg rosalega mikið!"
Jæja, nú ætla ég að fara að drífa mig að horfa á Sex and the City. Læt heyra í mér fljótt aftur.
posted by Soley |
22:10
laugardagur, apríl 24, 2004
::: Svaka partý Eftir klukkutíma leggjum við Rødovre-píur af stað til Ringsted. Þar ætlum við að eyða næsta sólarhring saman og skemmta okkur með tilheyrandi hætti. Við verðum heima hjá Morten sjúkraþjálfaranum okkur. Dagskráin er mjög einföld, hygge, hygge, hygge. Ég tek smá gjöf með handa Morten enda er hann búin að vera mín stoð og stytta í boltanum í vetur. Ég er búin að eyða meiri tíma hjá honum á nuddbekknum og á stofunni hjá honum í vetur heldur en inni á vellinum. Ég pakkaði gjöfinni inn í sárabindi og fannst mér ég alveg svakalega fyndin! Nánari fréttir af partýinu síðar.
Í nótt kom Bjössi bróðir frá Spáni. Hann heldur því miður heim á leið í kvöld aftur þannig að við erum búin að kveðjast nú þegar. Sigurveigu fannst frábært að hitta frænda sinn og var hann svo heppinn að fá "Diddle" pappír að gjöf frá henni. "Diddle" er aðal æðið í skólanum hjá skvísunni, "Diddle" er mús sem prýðir bréfsefni og skiptast allir á mismunandi blöðum, frímerkjum o.s.frv. Sigurveig er sem sagt kominn á býtt-skeiðið, hver hefur ekki gengið í gegnum það.
Núna er Sigurveig farin í afmæli til Michelle vinkonu sinnar. Þetta verður löng afmælisveisla þar sem Sigurveig gistir hjá Michelle og fjölskyldu þar sem mamman er að fara í partý. Á morgun þegar ég sæki hana ætlar Michelle að koma heim með okkur heim og gista. Sem sagt svaka fjör í vændum hjá okkur mæðgum!
Átta dagar í Ísland - og sameiningu fjölskyldunnar aftur. Við hlökkum svakalega til að knúsa pabba - eftir þriggja vikna aðskilnað. Jibbí!
Hvet alla til að skrifa í gestabókina - gaman að fylgjast með hverjir kíkja á síðuna.
Kan I ha' en rigtig god weekend!
posted by Soley |
13:26
sunnudagur, apríl 18, 2004
::: Frábær helgi! Elísabet, Ari Halldór og Elías héldu heim á leið í morgun eftir frábæra dvöl í Danaveldi. Það má með sanni segja að við skemmtum okkur konunglega saman. Þau komu á miðvikudaginn, beint í þvílíka blíðu sem virðist engan endi ætla að taka. Við systurnar byrjuðum auðvitað aðeins á því að kíkja í búðir og gerði ég allt sem í mínu valdi stóð til að systir mín sankaði að sér sem flestum pokum. Má segja að hún hafi staðið sig alveg þokkalega í búðunum. Föstudagurinn var tekinn með trompi. Þau byrjuðu á því að fara í dýragarðinn um morguninn og svo hittumst við í bænum síðdegis. Þá drifum við okkur í Tívolí. Ég, Sigurveig og Ari Halldór keyptum okkur "turpas" þannig að við gátum prófað öll tækin. Elías fékk að sjálfsögðu að prófa öll tæki fyrir gaura á hans aldri - og það sem hann skemmti sér vel. Við Ari Halldór gerðumst svo frökk að prófa nýja rússíbanan, "Dæmonen". Í einu orði sagt var hann brjálæðislegur. Hann fer í þrjá hringi, hrikalega brattur og ógeðslega hraður. Menn segja að turninn sé ekkert miðað við þennan, þannig að maður ætti nú að prófa turninn áður en við flytjum heim. En við sjáum nú til með það. Um miðnætti sáum við síðan opnunarflugeldasýninguna og var hún ekki af verri endanum.
Í gær tókum við því rólega enda alveg búin eftir föstudaginn. Við fórum og sáum Ydun spila við Tvis-Holstebro. Íslendingaliðið frá Holstebro sigraði örugglega í leiknum. Það var mjög gaman að sjá að það voru samlandar mínir sem réðu leikum og lofum á vellinum og stóðu þær sig allar mjög vel. Það verður spennandi að heyra hvernig seinni leikurinn fer - en fyrir þá sem ekki vita eru þessi lið að keppast um að komast í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.
Og í morgun kvöddumst við svo eftir frábæra helgi. Við Sigurveig drifum okkur út að skokka - og hjóla. Eftir hádegi fórum ég, Sigurveig og Clara síðan út á engi að reyna að fljúga flugdrekanum. Það gekk hálf brösulega og við ályktuðum að það hefði verið of mikið rok. Við lékum okkur þess vegna bara á leikvellinum á enginu í staðinn.
Í dag eru fjórtán dagar þangað til að við Sigurveig fáum að knúsa Þórmund aftur. Vonandi verður tíminn fljótur að líða. Við söknum hans að sjálfsögðu mjög mikið. Þegar við vorum búnar að biðja bænirnar þegar Sigurveig var að fara sofa í kvöld sagðist hún þurfa að tala við guð. Þá sagði hún "Góði guð, viltu passa pabba og ömmu og alla sem ég þekki á Íslandi... pabbi minn er sko á Íslandi núna..".
posted by Soley |
22:28
miðvikudagur, apríl 14, 2004
::: Sól og sumarylur! Hér er svo sannarlega komið sumarveður. Á mánudaginn dreif ég mig niður í geymslu og náði í sessurnar í sólstólana. Síðan kom ég mér haganlega fyrir í sólstól - komin í hlýrabol í fyrsta skipti á þessu ári - með Noruh Jones á fóninum. Síðan lá ég eins og skata í sólbaði á meðan Sigurveig lék sér úti á leikvellinum. Rigtig, rigtig hyggeligt!! Spáin hljóðar upp á 16-18 gráður það sem eftir er af vikunni og um helgina. Það er nátttúrulega bara snilld þar sem Elísabet, Ari Halldór og Elías eru einmitt að leggja í hann hingað til Køben í þessum skrifuðu orðum.
Sigurveig greyið varð þó lasin í gærkvöldi. Hún fékk hita og kastaði upp en er miklu betri í dag. Við erum heima og vonandi verður hún orðin eldhress um hádegið þegar innrásin á sér stað. Ekki mikill tími til að verða lasin núna. Annars á ég að losna við spelkuna af fingrinum á morgun. Eins gott enda er ég orðin þokkalega þreytt á þessu. Ég hef verið ansi dugleg að hlaupa undanfarið enda handboltinn búinn. Það er auðvitað þvílíkur lúxus að hafa Damhusengen og Damhussøen hérna bakvið hús - frábær kvennahlaupshringur.
posted by Soley |
09:18
sunnudagur, apríl 11, 2004
::: Barn náttúrunnar Það er sko sannarlega komið gott veður hérna hjá okkur. Sigurveig elskar að vera úti að leika sér og það besta er að hún leikur bara við þá krakka sem eru úti á leikvellinum hverju sinni. Það skiptir minnstu máli hvort hún þekkir þá eða ekki. Þess á milli hjólar hún á hjólinu sínu, skautar um á línuskautunum eða rennir sér á hlaupahjólinu. Hún kom inn klukkan átta í kvöld eftir að hafa verið úti frá því klukkan hálf ellefu í morgun. Skaust rétt inn til að borða páskamatinn. En að sjálfsögðu tók hún daginn snemma enda hlakkaði hún mikið til að borða páskaeggið sitt. Klukkan 06.18 sagði skvísan: Gleðilega páska! Við sömdum um að hún skoðaði bók þar til klukkan yrði sjö. Síðan smakkaði hún alsæl á egginu sínu og klíndi smá súkkulaði í lakið sem mömmunni finnst svo huggulegt. Í kvöld fékk hún sér líka góðan skammt af eggi - þegar hún loksins kom inn.
Við erum búin að hafa það einstaklega gott um páskana hérna á Voldumvej. Við erum fyrst og fremst búin að njóta þess að vera saman enda fer Þórmundur heim til Íslands á morgun. Við hittumst síðan næst 2. maí - 20 dögum síðar - þegar við Sigurveig skreppum heim á klakann í viku. Við eigum eftir að sakna hans mikið en vonandi að vorblíðan eigi eftir að láta tímann líða hratt.
Á miðvikudaginn er síðan von á innrás úr Lautarsmáranum. Elísabet, Ari Halldór og Elías koma í heimsókn og verða hjá okkur fram á sunnudag. Það verður án efa svakalegt fjör og þéttskipuð dagskrá. M.a. ætlum við í Tivoli en það opnar á föstudaginn eftir vetrarlokun. Þar er auðvitað mest spennandi hinn nýi rússíbani, en í honum fer maður í tvo hringi. Sigurveig segist alls ekki vilja prufa hann - enda mætti hún það sjálfsagt ekki jafnvel þótt hún hefði áhuga á því.
posted by Soley |
21:15
miðvikudagur, apríl 07, 2004
::: Hróarskelda Við fórum þúsund ár aftur í tímann í dag. Fórum til Hróarskeldu og skoðuðum bæði Víkingasafnið og Dómkirkjuna. Sigurveig er mjög upptekinn af því hvað gerðist í "gamla daga" og spyr mann reglulega hvort við foreldrarnir höfum verið til í gamla daga. Hún fullyrðir hins vegar að hún hafi ekki verið til í gamla daga. Henni þótti nokkuð spennandi í Víkingasafninu, ekki síst að fá að klæða sig upp eins og Víkingastelpa til forna. Við klæddum okkur öll í þar til gerð föt og létum taka myndir af okkur.
Veðrið er ekki að leika við okkur núna um páskana en var þó þokkalegt í dag. Í gær snjóaði lítillega og eftir þurran dag í dag er búist við rigningu næstu daga. Vonum þó að úr rætist á laugardag þegar við stefnum á ferð til Helsingør. Við teljum okkur þá hafa skoðað mikilvægustu staði á Sjálandi en við höfum farið víða síðustu tvö ár hér í nágrenni Kaupmannahafnar. Í sumar stefnum við hins vegar á yfirreið yfir Fjón og Jótland - svona áður en við yfirgefum landið.
posted by Thormundur |
23:26
þriðjudagur, apríl 06, 2004
::: Experimentarium Við fórum í dag á mjög skemmtilegt vísindasafn fyrir börn - Experimentarium. Það er reyndar á mörkunum að kalla megi þetta safn - þetta er meira í líkingu við vísindaskemmtigarð. Þarna gátum við m.a. skoðað skordýr í öllum stærðum og gerðum, rannsakað heilann, gert tilraunir með mannslíkamann ýmsa aðra skemmtilega hluti. Þetta var í senn leikur og lærdómur fyrir okkur öll. Það er óhætt að mæla með þessu safni fyrir börn.
Sigurveig missti í gær sína fjórðu tönn. Nú hefur hún á stuttum tíma misst tennurnar hvorum megin við neðri framtennurnar. Þetta eru flott skörð og Sigurveig frekar stolt eins og fyrri daginn.
Við höfum það mjög gott í páskafríinu okkar. Sigurveig fer auðvitað ekkert í skólann, Sóley er í fríi og ég vinn milli þess sem við gerum eitthvað skemmtilegt. Nú verður maður að nýta tímann vel fyrst maður er hálffluttur til Íslands. Um páskana ætlum við að ferðast svolítið, skreppa til Hróarskeldu til að skoða Víkingasafnið og rölta um bæinn og líka til Helsingør, þar sem við kíkjum líklega á Krónborgarkastala. Í báðum bæjum er mjög skemmtilegur miðbær með verslunum og veitingastöðum við hvert fótmál.
Það er afskaplega þægileg tilfinning að hafa fundið sér íbúð. Það auðveldar flutninga í sumar til mikilla muna. Það var líka ekki seinna vænna því flestir seljendur vilja nokkra mánuði til að afhenda. Sigurveig spurði reyndar um daginn þegar henni var sagt að hún og mamma hennar ætluðu daginn eftir til Íslands til að skoða/kaupa nýja íbúð: "Má ég þá sofa í nýja herberginu mínu." Þetta gekk hratt fyrir sig en ekki alveg svo hratt.
posted by Thormundur |
20:24
föstudagur, apríl 02, 2004
::: Bogahlíð 7 Hlutirnir hafa gerst hratt í þessari viku. Á þriðjudag skoðaði ég íbúð, á miðvikudaginn flugu Sóley og Sigurveig til Íslands, við gerðum tilboð í gær og í dag var það samþykkt. Við höfum því eignast nýja íbúð og fáum við hana afhenta í haust. Íbúðin er við Bogahlíð 7 og er því nánast í túnfætinum heima - við sjáum gamla garðinn við Stigahlíð úr eldhúsinu.
Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Íbúðin er fimm herbergja íbúð á fyrstu hæð og hentar okkur afar vel. Húsið stendur á horni Bogahlíðar og Grænuhlíðar og snýr raunar út að Grænuhlíð. Staðsetningin gæti ekki verið betri. Hlíðaskóli er í næsta nágrenni en þar var Sigurveig skráð í skóla eftir hádegi í dag. Sóley hefur fengið tilboð um kennarastöðu í Háteigsskóla og þá er heldur ekki of langt fyrir mig að fara í vinnu í miðbænum.
Sigurveig og Sóley verða hér fram á sunnudag en þá förum við öll til Köben til að slappa af saman um páskana. Svo kem ég aftur heim í vinnuna.
Ég hef tekið mér gott hlé frá bloggritun síðustu vikur enda eitthvað bogið við að skrifa á Voldumvej-bloggið á Íslandi. En nú erum við öll á Íslandi og þá er það ekki bara þörf heldur nauðsyn. Sóley hefur haldið uppi heiðri Voldumvej-bloggsins og hefur nánast tekið við sem ritstjóri vefsins! Hver veit nema að Bogahlíðarblogg líti dagsins ljós næsta vetur?
posted by Thormundur |
23:56
mánudagur, mars 29, 2004
::: Sigurveig fimleikastjarna! Á laugardaginn tók Sigurveig þátt í fimleikasýningu Orient, en þar hefur hún æft s.l. tvö ár. Að sjálfsögðu stóð mín dama sig eins og hetja og lét tilfinninganæmu mömmu sína fá mörg tár í augun. Hún dansaði af mikilli innlifum og brosti út af eyrum á sama tíma. Það er með ólíkindum hvað hún er orðin stór stelpa, að sjá hana dansa fyrir framan á þriðja hundrað manns, er alveg ótrúlegt. Nú getur hún ekki beðið eftir að sýna pabba sínum sýninguna á videói, enda tókum við allt saman upp. Núna er enda bara fjórir dagar þangað til við sameinumst á ný. Við hlökkum mikið til og ætlum að nýta tímann vel um páskana. Það verður líka stór dagur á laugardaginn, húsbóndinn á afmæli.
Gummi, Guðrún og Hulda Sóllilja yfirgáfu svæðið í morgun eftir frábæra helgi. Það er nú meira hvað hún Hulda Sóllilja er mikil rúsína. Þær frænkur náðu mjög vel saman og léku sér vel alla helgina. Hulda var sérstaklega hrifin af kisu sem Bjössi og Þóra gáfu Sigurveigu þegar þau voru í sinni fyrstu heimsókn hérna hjá okkur. Sigurveig spilaði öll uppáhalds dönsku lögin sín fyrir frænku sína og spurði svo "Finnst þér þetta gott lag?" Þá svaraði Hulda iðulega: "Nei", en vildi þó alltaf heyra fleiri og fleiri lög. Á föstudaginn fórum við út að borða á Jensens Bøfhus. Laugardaginn notuðu þau í bænum meðan við Sigurveig vorum á sýningunni. Við fórum í dýragarðinn í gær og skemmtum okkur konunglega. Svo fékk ég að passa Huldu Sóllilju í gærkvöldi og gekk það eins og í sögu enda erum við orðnar miklar vinkonur. Elsku Gummi, Guðrún og Hulda Sóllilja, takk fyrir frábæra helgi!
Í gær lauk keppnistímabilinu okkar Rødovr-pía þrátt fyrir góðan sigur á Freja. Roar og Fredericia unnu sína leiki sem varð til þess að við lentum í 8. sæti, sem þýðir fall í 2. deild á næsta ári. Það má segja að þetta hafi verið afar svekkjandi eftir fjóra sigurleiki í röð hjá okkur. En það var of seint í rassinn gripið og að sjálfsögðu okkar eigin sök að þetta fór svona. Vonandi vinna píurnar góða sigra á næsta keppnistímabili, öðlast gott sjálfstraust og komast aftur í 1. deild áður en langt um líður.
posted by Soley |
22:05
fimmtudagur, mars 25, 2004
::: Sigurveig söngstjarna! Sigurveig hélt sína fyrstu tónleika fyrir almenning í gær. Um þessar mundir eru Olsen bræðurnir í miklu uppáhaldi hjá skvísunni og þá auðvitað besta lagið þeirra Smuk som et stjerneskud (sem vann Júróvisjon 2000). Í gær eftir skóla byrjaði hún að hlusta á lagið og söng auðvitað með af mikilli snilld. Ég var að tala við Heiðu í símanum á meðan. Sigurveig hafði lokað hurðinni í herberginu svo að ég gæti nú heyrt eitthvað í henni Heiðu. Síðan kom hún allt í einu fram og náði í flíspeysuna sína en dreif sig inn aftur og hélt áfram að syngja. Þegar hún var búin að hækka heldur mikið í tækinu (og var að spila lagið í 35. skipti!!) ætlaði ég að biðja hana að lækka aðeins. Þegar ég kom inn í herbergið kom í ljós til hvers flíspeysunnar var þörf. Hún hafði galopnað gluggann - sem er mjög stór - sat upp á stól með mígrafón af smábarnakasettutækinu sínu í hendinni og hélt þessa fínu tónleika fyrir vegfarendur á enginu góða. Ég get sagt ykkur að ég var að deyja úr hlátri (hló þau auðvitað ekki), þetta var bara snilld. En ég hvatti hana bara til að halda áfram og dreif mig fram í stofu til að reyna að bæla í mér hláturinn. Þetta var frábær hugmynd hjá henni og hún hefur pottþétt eignast marga aðdáendur!
Gummi frændi kom í gærkvöldi hingað á Voldumvej. Það urðu miklir fagnaðarfundir. Þó að það sé langt síðan við höfum haft svona góðan tíma til að spjalla skipti það engu máli, allt var eins og það var í gamla daga. Síðan bætast Guðrún og Hulda Sóllilja í hópinn á morgun. Sigurveig ætlar ALEIN með hana út að moka, mikið sport að passa litlu frænku. Annars er hún alltaf jafn yndisleg hún Sigurveig, sagði að ef Hulda Sóllilja kæmi áður en hún kæmi heim úr skólanum ætti ég bara að segja henni að hún mætti alveg leika með dótið hennar. Þær eiga eftir að skemmta sér konunglega saman.
Ég fór í myndatöku með fingurinn í dag. Fékk að vita að brotið er á mjög slæmum stað, það er sin sem hangir í brotinu sem er víst ekki gott. Þannig að ég þarf að fara sérlega varlega og fer svo aftur í myndatöku eftir viku.
Sigurveig á að sýna fimleika á laugardaginn. Hún hlakkar mjög mikið til - í fyrra fékk hún nefnilega hlaupabólu og gat því ekki tekið þátt í fimleikasýningu síðasta árs. Sýningin verður í íþróttahúsinu sem ég æfi og keppi í, en nú er það hún sem verður inni á vellinum en ég í áhorfendastúkunni. Sannarlega mikið sport fyrir dömuna, sem á eftir að standa sig eins og hetja.
posted by Soley |
23:16
sunnudagur, mars 21, 2004
::: Rok og rigning! Það má með sanni segja að hér sé íslenskt veður eins og það gerist leiðinlegast, rok og rigning. Við Sigurveig létum okkur þó hafa það og fórum í göngutúr í morgun. Við fórum og keyptum brauð og ávexti á bensínsstöðinni og aðalsportið hjá skvísunni litlu var að labba heim aftur húfulaus. Hana langaði svo mikið til að fá blautt hár. Þar sem mér fannst slíkt hið sama afar spennandi sem barn fékk hún leyfi til þess. Á meðan kólnaði súkkulaðikakan sem við bökuðum í morgun. Þannig að það verður veisla í kaffitímanum hér á Voldumvej.
Við Rødovre-píur gerðum okkur lítið fyrir og unnum Roar í gær. Leikurinn endaði með eins marks sigri en við vorum 4-5 mörkum yfir allan leikinn. Nú þurfum við að vinna Freja á laugardaginn, Roar og Fredericia þurfa að tapa og þá erum við í 6. sætinu umtalaða. Þannig að nú krossleggja allir fingur og tær - ég læt tærnar duga að þessu sinni. Annars hefur fingurinn minn það ágætt. Það er þó mikill sláttur í honum ennþá og skrýtin sviðatilfinning í brotinu. Sjúkraþjálfarinn minn (kalla hann fyrir minn þar sem ég er búin að eyða miklum tíma með honum í vetur) hann Morten sagði að hugsanlega lægi taug þarna nalægt sem ylli þessum sviða. En það verður spennandi að sjá röntgenmyndir á fimmtudaginn.
Á miðvikudaginn kemur Gummi frændi í heimsókn. Hann ætlar auðvitað að gista hjá okkur og eigum við væntanlega eftir að skemmta okkur vel. Hann er að fara á fundi hér í Køben. Síðan á föstudaginn slást Guðrún og Hulda Sóllilja í hópinn. Sigurveig hlakkar mikið til að fá litlu frænku sína til að leika við - þær urðu nefnilega svaka góðar vinkonur um jólin.
12 dagar í Þórmund. Við mægðurnar teljum dagana skipulega á sérútbúnu dagatali. Næsta vika líður væntanlega hratt og svo er maður allt í einu farinn að telja dagana á fingrum annarrar handa.
Við Sigurveig ætlum að fá okkur hangikjöt í kvöldmat. Pabbi var svo yndislegur að koma með það með sér í vetur og tókum við það úr frystinum í gær. Ilmurinn lætur mann bara fá vatn í munninn. Sigurveig er alsæl með þetta enda hangikjöt einn af uppáhaldsréttum hennar. Nammi namm...
posted by Soley |
14:42
föstudagur, mars 19, 2004
::: Oddur Fannar og Tómas Ingi Litlu prinsarnir hafa verið nefndi. Frænkan í Danmörku er afar hrifin af nöfnunum og óskar þeim innilega til hamingju. Allt gengur vel hjá þeim og þeir braggast vel. Bara að ég gæti fengið að sjá þá með berum augum en ég verð víst að bíða aðeins. Sendi áfram góðar hugsanir til þeirra.
Annars má segja að handboltaferli mínum í Danaveldi sé lokið. Í gær fingurbrotnaði ég á æfingu. Þar kom punktinn yfir i-ið á miklum meiðslavetri hjá mér. Ég hef kannski verið að taka út meiðslaleysi á annars löngum handboltaferli. Fremri kjúkan á vísifingri vinstri handar brotnaði. Ég er með spelku á fingrinum og á að hafa hana í fjórar vikur. Ég fékk bolta framan á fingurinn eins og maður hefur nú prófað u.þ.b. milljón sinnum áður, en nú þurfti hann að brotna. Augljós skilaboð - þetta er komið gott, ég er orðin of gömul í þetta. Þannig að nú verð ég að vona að Rødovre-píur klári þetta án mín, en það er nú alltaf söknuður eftir góðum varamönnum. ;-)
Ég held ég skelli mér þá bara í langhlaupin af miklum krafti. Eins og sumir vita er ég á einhven óskiljanlegan hátt mikið fyrir útihlaup. Eftir að Þórmundur fór til Íslands höfum við Sigurveig farið að hlaupa saman, þ.e. ég hlaupandi og Sigurveig á hjólinu. Það finnst okkur mjög skemmtilegt! Fyrr en varir verður hún farin að skokka með mér.
Annars ætlar Sigurveig að passa vel uppá mömmu sína með brotna fingurinn. Í morgun vildi hún helst klæða mig og vildi fara að drífa í uppvaski þar sem mamma hennar ætti erfitt með það. Svo segir hún inn á milli: "Mamma, þú getur ekkert farið á æfingu í kvöld, er það nokkuð? Gott þá verðum við bara saman."
posted by Soley |
12:07
þriðjudagur, mars 16, 2004
::: Til hamingju Dísa, Jöri og Sigrún María! Dísa hetja fæddi stelpu og strák í dag. Þau eru víst stór og stæðileg og allt gekk vel. Við sendum þeim bestu hamingjuóskir hér frá Køben. Maður veit bara ekki í hvorn fótinn maður á að stíga þessa dagana yfir öllum þessum börnum. Langar helst að taka næstu vél heim og knúsa þau öll saman!
Allt gengur vel hjá litlum nýfæddu frændunum mínum. Hvet ykkur til að kíkja á fyrstu myndirnar af þeim á síðunni þeirra á Barnalandi. Þeir eru svo fallegir og yndislegir. Myndin af Helgu með annan þeirra í fanginum fær mann bara til að tárast. Ég samgleðst þeim svo innilega. Eins og þið áttið ykkur kannski á er ég alveg í skýjunum yfir þessu öllu!
Í kvöld er foreldrafundur í skólanum hjá Sigurveigu. Ég fer því ekki á æfingu og mæti á fundinn eins og ábyrgðafullu foreldri sæmir. Pössunarpían okkar hún Cicilia (frænka hennar Clöru) kemur og passar hana. Hún hefur passað Sigurveigu og gekk það bara skínandi vel. Þannig að þær eiga eftir að skemmta sér vel í kvöld. Annars er vert að minnast á að til að lokka danska (og íslenska auðvitað) foreldra á foreldrafund í skólum er yfirleitt boðið upp á áfenga drykki. Í kvöld er byrjað á rauðvíni og ostum! Það er spurning hvort maður byrji að drekka rauðvín í kvöld, nei annars ég held ég láti það bara vera. Þó það væri bara "prinsip" atriði! Það er náttúrulega bara fáránlegt að mínu mati að bjóða upp á áfenga drykki í slíku tilefni.
posted by Soley |
18:15
mánudagur, mars 15, 2004
::: Tvíburar fæddir í fjölskyldunni! Helga Jóhanna og Hjalti eignuðust tvo heilbrigða drengi í gærkvöldi. Ég óska þeim innilega til hamingju. Það er varla færri hamingjusamari en þau núna, enda hefur langþráður draumur þeirra ræst. Þeim lá nú reyndar dálítið á, fæddust níu vikum fyrir tímann. En þetta eru greinilega drengir með sjómannsblóð og spjara sig því vel. Það þarf sjálfsagt engum að koma á óvart að ég grét úr gleði í gærkvöldi. Þetta er allt saman svo yndislegt að ekki er hægt að finna orð sem lýsa því næginlega vel. Enn og aftur til hamingju Helga og Hjalti!
Svo á morgun er stóri dagurinn hjá Dísu, Jöra og Sigrúnu Maríu. Þá eiga tvíburarnir þeirra að koma í heiminn. Þvílíkt barnalán í kringum mann. Ég sendi allar mínar góðu hugsanir til þeirra og hlakka til að fá fréttir. Og ég og Sigurveig hérna í Danmörku á meðan á öllu þessu stendur. En það verður bara enn skemmtilegra að koma heim fyrir vikið.
Svo eru það smáatriðin í samanburði við ofannefndar fréttir. Við Rødovre-píur unnum Helsingør í gær, 21-17. Ég kom inná í einu vítakasti og varði það. Stendur ekki einhvers staðar að það sé gott að eiga góða varamenn?!? Næsti leikur er svo á móti Roar, heimaleikur sem ekki væri leiðinlegt að vinna - hvenær er annars leiðinlegt að vinna?
Þórmundur er kominn á klakann. Við mæðgurnar erum strax farnar að sakna hans mikið og teljum því dagana fram að páskafríinu en þá kemur hann til okkar aftur. Sigurveig er alveg með þetta á hreinu, eftir 16 daga kemur pabbi - með stórt páskaegg!
posted by Soley |
17:47
laugardagur, mars 13, 2004
::: Já ég veit ... ... að ég er ekki nógu dugleg að blogga. Það er bara svo mikið að gera og mikið að hugsa um þessa dagana að maður gefur sér ekki tíma til að setjast niður og blogga. Reyni að bæta úr því enda er það brátt ég ein sem ber ábyrgð á fréttaflutningi hér frá Voldumvej. Þórmundur fer til Íslands á morgun og byrjar í nýju vinnunni í Landsbankanum á mánudaginn. Það verða mikil viðbrigði fyrir okkur öll að vera aðskilin og söknuðurinn verður mikill. En nútímatækni hjálpar til að gera þetta allt saman pínulítið auðveldara. Þórmundur kemur líka af og til í heimsókn og hver veit nema við skreppum. Svo verður frábært þegar við sameinumst öll aftur í sumar og flytjum svo til Íslands.
Eins og þið vitið er Sigurveig mjög ánægð með að vera að flytja heim aftur. Ýmsar pælingar hafa verið í gangi hjá henni sem hefur verið frábært að hlusta á hana segja frá. "Frábært, þá get ég heimsótt ömmu og afa alltaf þegar mig langar ... það geta bara ALLIR komið í afmælið mitt, ekki bara pakkar í pósti ... mamma þá kemst ég í afmælið hans Mána (gamall vinur úr Hamraborg) ... pabbi, svo fer ég með þér í vinnuna og svo fer ég bara með afa heim ..." Svona mætti lengi telja, hún er allavega mjög sátt við stöðu mála.
Í dag ætlum við að nýta daginn vel og gera eitthvað skemmtilegt saman. Dagskráin er ekki ákveðin enda svo sem aukaatriði, aðalatriðið að vera öll saman. Ég stillti klukkuna hálfa átta til að ná að setja í þvottavélarnar sem ég átti pantaðar. Hélt að ég gæti læðst niður í þvottahús og svo hoppað upp í rúm að sofa aftur. Nei ... litla heimasætan vaknaði auðvitað þannig að við erum komin á fætur, eldhress. Hvað er annars betra en að fara snemma á fætur á laugardögum og ekki að þurfa að fara í vinnuna. Það er bara æðislegt.
Á morgun keppum við Rødovre-píur á móti Helsingør. Nú verðum við hreinlega að vinna til að eiga möguleika á góðri lokaniðurstöðu í deildinni. Lena, vinstri skyttan okkar, er í banni, Jolene miðju/hornamaður okkar er farin til útlanda - en við hinar verðum nú bara að hysja upp um okkur buxurnar og spila almennilega. Ég var nú einhvern tíma frambærileg hægri skytta ... ænei, ég held mig bara við markið. :-)
posted by Soley |
08:12
sunnudagur, mars 07, 2004
::: Heim til Íslands Nú er það endanlega orðið opinbert. Við ætlum að flytja heim til Íslands í sumar. Við sögðum Sigurveigu fréttirnar í morgun og ekki er hægt að segja annað en að það hafi gengið vel. Hún réði sér ekki fyrir kæti og hlakkar mikið til að flytja, eignast nýtt heimili og finna nýjan skóla. Við áttum nú frekar von á því að hún tæki þessu vel en viðbrögð hennar voru framar vonum. Það er mikilvægt að Sigurveig sé glöð með þetta því hún hefur verið mjög ánægð í skólanum hér úti og eignast margar vinkonur.
Við höfum verið mjög ánægð með dvölina í Danmörku en töldum bæði rétt að flytja heim á þessum tímapunkti. Við höfum náð flestum markmiðum okkar með ferðinni og hlökkum til að takast á við ný verkefni heima. Það stóð auðvitað aldrei annað til en að flytja heim. Við höfum þegar hafið fasteignaleit, mest á netinu, en ég kíkti á nokkrar íbúðir í síðustu viku þegar ég var heima. Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leitar að húsnæði. Við ætlum m.a. helst af öllu að kaupa íbúð með breiðbandi þannig að við getum horft á danskar sjónvarpsstöðvar! Þannig gæti Sigurveig til dæmis haldið við dönskunni. Hún gæti fyrst horft á danskan barnatíma og svo á Stundina okkar. Við segjum nánari fréttir af fasteignakaupum þegar þar að kemur.
Og það eru fleiri fréttir. Mér bauðst nýlega gott starf á Íslandi sem ég þáði. Ég hef verið ráðinn til Landsbanka Íslands og mun ritstýra Landsbankavefnum. Afrakstur af því starfi munu menn þó fyrst sjá af alvöru þegar nýr vefur fer í loftið síðar á árinu. En það var ekki eftir neinu að bíða. Ég hef þegar hafið störf sem þýðir að ég verð töluvert á Íslandi næstu mánuði. Ekki þarf ég að hafa áhyggjur af matnum í mötuneytinu, svo mikið er víst!
Að öllum líkindum flytjum við í lok júlí en stefnan er að Sóley klári keppnistímabilið, Sigurveig skólaárið og að við sláum botn í dvöl okkar með sumarfríi í Danmörku. Höfum við hugsað okkur að ferðast vítt og breitt um landið og kynnast því betur svona rétt áður en við yfirgefum það.
posted by Thormundur |
18:30
föstudagur, mars 05, 2004
::: Helgarfrí! Loksins er komin helgi. Við Sigurveig erum búnar að vera einar hér á Voldumvej þar sem Þórmundur skrapp heim á frón á mánudaginn. En hann kemur aftur í hádeginu á morgun og verða án efa fagnaðarfundir. Ekki spillir fyrir að það er fríhelgi í boltanum þannig að þessu sinni er nægur tími fyrir fjölskylduna. Maður gæti nú alveg vanist þessum fríhelgum. :-)
Ég og Sigurveig vorum heima í dag þar sem sú stutta (styttri!) var hálflasin. Við gerðum okkur ýmislegt til skemmtunar nema hvað. Við spiluðum Mastermind óteljandi sinnum, lituðum barbiemyndir, reiknuðum sex blaðsíður í Einingu (stærðfræði fyrir 6 ára bekk), töluðum við Elísabetu frænku á msn-inu, bökuðum pönnukökur og spiluðum enn og aftur Mastermind svo eitthvað sé nefnt. Í kvöld "hyggede" við okkur svo yfir Endelig fredag sem er skemmtiþáttur í sjónvarpinu. Með honum poppuðum við og gæddum okkur á gúmmíi. Sigurveigu fannst það ekki leiðinlegt og sagði:"Mamma við skemmtum okkur svo rosalega vel!". Þarf ekki mikið til að gleðja lítið hjarta.
Núna eru þrír leikir eftir í deildarkeppninni hjá okkur Rødovre-píum. Við eigum víst fræðilega möguleika á að lenda í 6. sæti sem myndi tryggja okkur áframhaldandi veru í sameinaðri 1. deild. En til þess þarf sex stig úr þessum þremur leikjum. Síðasti leikur vannst auðvitað mjög óvænt - eiginmaður minn er búinn að segja svo skemmtilega frá honum, honum finnst ég auðvitað vera besti markmaður í heimi nema hvað! Nú er svo spurning hvort að sigurinn gefi liðinu aukið sjálfstraust í þá leiki sem eftir eru. En EINI kosturinn við að tapa eins oft og við höfum gert í vetur er sá að það verður svo svakalega gaman að vinna - og ekki spillir fyrir að það sé á móti einu af toppliðunum. Það er búið að draga í næstu umferð bikarkeppninnar. Við spilum á móti Hörpu Vífils og félögum í Ydun - sniðugt þar sem liðin eru farin að æfa saman einu sinni í viku (system sem greinilega er vinsælt í Danmörku). Við hefðum getað lent á móti Slagelse sem var reyndar mitt óskalið. Þar spila bestu handboltakonur heims og það hefði ekki verið leiðinlegt að fá að reyna að verja hjá þeim. En það verður víst að bíða betri tíma.
Ha' en rigtig god weekend!
posted by Soley |
23:30
sunnudagur, febrúar 29, 2004
::: Glæsilegur sigur Rødovre-píur komu sannarlega á óvart í kvöld með því að vinna eins marks sigur 26-27 á liðinu í þriðja sæti deildarinnar, Odense. Og í þokkabót vannst sigurinn á útivelli. Og hver tryggði sigurinn? Það gerði Sóley auðvitað! Í þetta sinn kom hún bara af bekknum í vítum en varði líka tvö vítaköst á lokakafla leiksins, hið fyrra þegar fjórar mínútur voru eftir og hið síðara þegar fjórar sekúndur lifðu af leiknum - og kom þannig í veg fyrir að Odense tækist að jafna. Húrra! Ég varð hreinlega að skrifa um þetta áður en Sóley kæmist í tölvuna. Það er alltaf smá hætta að hún gerist hógvær. En vonandi skrifar hún eitthvað meira um málið á næstunni!
Eins og lesendur síðunnar hafa getað fylgst með hefur liðinu gengið nánast allt í mót síðustu mánuði eftir góða byrjun - og svo einn sigur í bikarkeppninni um daginn. En þetta breyttist í kvöld. Og við þennan óvænta sigur eygir Rødovre að nýju litla von um að halda sér í deildinni eða komast í umspil en næstu leikir eru gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Maður leyfir sér þó bara að vera hóflega bjartsýnn því sóknarleikur liðsins hefur verið mjög brokkgengur í vetur.
Við Sigurveig fórum út að borða í kvöld og buðum vinkonum hennar, Michelle og Clöru, með. Ferðinni var heitið á McDonalds sem því miður er alltof nálægt okkur. Það var mikið fjör í boltalandinu en óvæntara var að lítið þurfti að reka á eftir matnum upp í þær. Til þess beitti maður mjög einfaldri taktík. Þær léku sér meðan ég var í biðröðinni en urðu síðan að klára matinn til að komast aftur í boltalandið og opna pokann með dótinu, sem fylgdi glöðu máltíðinni (Happy Meal). Þegar við komum heim fengum við svo þessar fínu fréttir af boltanum.
Til að fyrirbyggja misskilning förum við ekki alltaf á McDonalds þegar mamma er að keppa eða á æfingu. Gerum það bara til hátíðabrigða. Við Sigurveig eldum þess í stað fjölbreyttan mat þrisvar í viku meðan mamma er á æfingu. Eða eins og Sigurveig orðar það: "Er mamma á æfingu? Verður þá pasta í kvöldmatinn?"
posted by Thormundur |
23:17
laugardagur, febrúar 28, 2004
::: Alein í bakaríið Sigurveig fór í fyrsta sinn alein í búð í morgun - nánar tiltekið til bakarans og keypti eitt stykki brauð. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hún var stolt. Forsagan er sú að fyrr í vikunni komst hún að því að ein bekkjarsystir hennar fær stundum að labba heim úr skólanum. Síðan hefur hún ekki talað um annað og spurt hvort hún megi ekki líka. Enda þótt bekkjarsystirin búi rétt hjá er stór munur á leiðum þeirra, því Sigurveig þyrfti að fara yfir fjölfarna umferðargötu. Þetta kemur hins vegar ekki til greina að svo stöddu og því gerðum við samning við stelpuna. Hún fékk sem sagt að fara ein í bakaríið - snemma á laugardagsmorgni þegar umferðin er lítil.
Jú, mikið rétt. Sigurveig vaknaði óvenju snemma í morgun því hún var svo spennt. Þegar á hólminn var komið og hún var hálfnuð stíginn út úr íbúðahverfinu sagðist hún ekki þora. Ég hvatti hana áfram af svölunum meðan Sóley þóttist þurfa að fara í þvottahúsið en fór þess í stað upp á götu að fylgjast með bak við tré. (Fyrirgefðu, Sigurveig, ef þú lest þetta tíu árum síðar). Sigurveig safnaði kjarki og hélt áfram leið sinni í bakaríið. Ferðin gekk mjög vel og hún kom með nýtt, ilmandi brauð í morgunmatinn. Hún var afar stolt og fullvissaði okkur um að hún hefði fengið bæði afganginn og rétt brauð.
Nú er bara að vona að þessi málamiðlun haldi og að hún telji ferðina í bakaríið nægilega mikla áskorun í bili.
posted by Thormundur |
22:42
mánudagur, febrúar 23, 2004
::: Fullt í fréttum! Það er sko búið að vera nóg að gera síðustu daga hjá okkur. Mamma hélt heim á leið í gær eftir frábæra heimsókn frá því á þriðjudaginn. Það þarf engan að undra að við höfðum það mjög gott og gerðum ýmislegt skemmtilegt. Veðrið var hreint og beint stórkostlegt alla dagana og vorum við því mikið á labbinu. Sigurveig fór með ömmu sinni í dýragarðinn á föstudaginn og þær skemmtu sér konunglega. Á laugardaginn löbbuðum við Löngulínu og heilsuðum upp á Hafmeyjuna, skunduðum Strikið og enduðum daginn á því að fá okkur heitt súkkulaði og "drømmekage" á Cafe Norden. Á milli þess sem við örkuðum um borgina höfðum við það notalegt hérna heima á Voldumvej og spjölluðum um allt og ekkert - sem sagt fullkomlega velheppnuð heimsókn. Elsku mamma, takk kærlega fyrir okkur.
Úr handboltanum eru góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru að við unnum leik - bikarleik á fimmtudaginn - en slæmu fréttirnar að við töpuðum deildarleik í gær. Ég verð nú að segja að ég er ekkert sérlega bjartsýn á framhaldið, þ.e. að við náum að lenda í einu af sjö efstu sætunum. En maður vonar auðvitað alltaf það besta. Ég spilaði allan bikarleikinn og gekk bara vel, spilaði svo 40 mín í gær og gekk ágætlega. Á sunnudaginn förum við til Odense. Þær eru í þriðja sæti - skrifa um afrek okkar í þeim leik þegar hann hefur verið spilaður. Þannig að krossleggið fingur!
Í gær og í dag er "fastelavn" í Danmörku. Litla heimasætan var vampýra - já þið lásuð rétt vampýra. Hún var hin glæsilegasta vampýra sem uppgötvaði fyrst eftir að búningurinn var keyptur að slíkar verur drykkju blóð! Við fórum í gær á skemmtun hér í nágrenninu til að slá köttinn úr tunnunni. Sigurveig fyllti auðvitað vasana af karamellum sem hrundu úr tunninni. Á eftir var bollukaffi og skemmtiatriði, og viti menn - Sigurveig vékk verðlaun fyrir flottasta búninginn. Hún var auðvitað alsæl þar sem hún fékk stóran nammipoka að launum og ekta bolluvönd. Að því loknu fór hún út að "rasle", þ.e. að ganga í hús, syngja og fá pening að launum. Afrakstur dagsins var 39 danskar krónur. Þær verða væntanlega notaðar í eitthvað sniðugt. Það var síðan haldið upp á fastelavn í skólanum í dag og var svakafjör. Bjarne kennari Sigurveigar var útbúinn sem ofurskvísan Bella, með sítt, ljóst, krullað hár og afar stóran barm. Þetta vakti auðvitað mikla lukku krakkanna sem skemmtu sér síðan vel það sem eftir var af deginum.
Nú er orðið bjart klukkan sjö á morgnana og dimmir fyrst um sexleytið á kvöldin. Þvílíkur munur, maður er tíu sinnum orkumeiri og langar alltaf að gera eitthvað skemmtilegt. Þó var smá snjóföl í morgun en hún var horfin þegar ég hjólaði heim.
Best að fara að sjóða ýsu í matinn handa fjölskyldunni. Mamma kom með nóg af fiski í frystinn og eru allir alsælir með það.
Að lokum, Sæmi frændi til hamingju með afmælið í dag!
posted by Soley |
18:48
mánudagur, febrúar 16, 2004
::: Mamma á leiðinni! Jibbí, á morgun kemur mamma til okkar. Það verður frábært að hafa hana hérna hjá okkur fram á sunnudag. Sigurveig er í vetrarfríi í skólanum og hefur því góðan tíma með ömmu sinni.Einn af kostunum við að búa í útlöndum er að sá tími sem maður hefur með fjölskyldumeðlimum sem koma í heimsókn er nýttur til hins ýtrasta. Fimm dagar með mömmu heima hjá sér er bara snilld - við erum líka svo einstaklega góðar vinkonur og getum spjallað endalaust. Við eigum væntanlega eftir að gera margt skemmtilegt saman - við getum sem sagt varla beðið eftir henni.
Í kvöld kom Valgeir vinur okkar í mat. Hann er á leiðinni á klakann á morgun eftir helgarferð hér í Køben. Við borðuðum góðan mat saman og spjölluðum svo um heima og geima. Á meðan hlustuðum við á nýja diskinn hennar Noruh Jones sem Þórmundur gaf mér í síðustu viku. Hún er náttúrulega alveg frábær söngkona. Var að lesa að hún ætlaði að leita sér sálfræðihjálpar, hún er ekki alveg að höndla þessar vinsældir sínar - hún sem hvorki getur dansað né hefur hugsað sér að sýna naflann sinn (segir hún sjálf). Diskurinn hennar fær toppeinkunn eins og sá fyrri.
Lítið að frétta úr boltanum að þessu sinni. Áttum frí um helgina í fyrsta skipti í langan tíma. Við erum í 7. sæti og þurfum helst að koma okkur upp í það 6. til að losna við umspil. Ég hef verið slæm í hásininni - hef verið einstaklega óheppin með meiðsli í vetur (ég veit ég er orðin of gömul í þetta!) - en jafna mig vonandi fljótt. Keppum í bikarkepninni á fimmtudaginn á móti Nykøbing/Falster og svo á móti Ajax í deildinni á sunnudaginn. Áfram Rødovre!!!
Smá brandari úr vinnunni minni. Þegar ég fékk heilahristinginn um daginn kom mamma eins stráks á deildinni minni til mín og sagði að hann hefði komið í öngum sínum heim og sagt: "Mor, Sóley har fået hjernestop!"
posted by Soley |
23:51
miðvikudagur, febrúar 11, 2004
::: Ein tönn farin Sigurveig missti eina tönn í dag. Hún er því með fallegt skarð í neðri góm. Hún er að vonum stolt stúlka og fannst flottast að draga hana sjálf úr. Ég get lofað því að myndir af tannlausu stelpunni verður sett á netið við fyrsta tækifæri ásamt fleiri myndum. Það er töluverður þrýstingur á myndir ef marka má gestabókina.
Ég fór með tannlausu stúlkuna á tónleika í dag með einni vinsælustu barnastjörnu Dana, Anne Gadegaard, sem vann danska söngvakeppni í anda Eurovision. Hún var með tónleika í verslunarmiðstöðinni Fisketorvet og máttum við þakka fyrir að sjá eitthvað. Smygluðum okkur reyndar inn á veitingastað með útsýni yfir sviðið. Talandi um Eurovision. Sigurveig er upprennandi Eurovision-aðdáandi. Hún heldur mikið upp á "íslenska" lagið sem Danir völdu sem sitt framlag í keppninni í ár. Ég sýndi henni hvernig hægt er að horfa og hlusta á lagið í tölvunni - og síðan hefur hún viljað horfa á það nokkrum sinnum á dag.
posted by Thormundur |
23:09
laugardagur, febrúar 07, 2004
::: Íslenska lagið vann! Það var sungið, dansað og fagnað á Voldumvej í kvöld. Danir héldu nefnilega undankeppni sína fyrir Eurovision í kvöld með pompi og prakt. Og viti menn. Íslenska lagið vann! Þetta er sko engin lygi. Það var hinn hálfíslenski Thomas Thordarson sem söng sigurlagið "Sig det' løgn". Ekki nóg með að lagið sé íslenskt heldur er það sungið í sannkallaðri latin salsa-sveiflu sem þýðir að þegar búið verður að þýða textann yfir á ensku verður engin leið að átta sig á að þetta er framlag Dana til Eurovision.
Það kemur skemmtilega á óvart að Danir reyna ekkert að fela hvaðan Thomas á rætur sínar hálfar að rekja. Í kynningu var hann spurður um þetta (skrýtna) nafn Thordarson og stökk hann þá fram úr skápnum og viðurkenndi íslensku sína. Í frétt BT í kvöld segir einfaldlega: "Den 29-årige Tomas Thordarson med islandske rødder vandt i aften det danske Melodi Grand Prix. Sangen "Sig det er løgn" blev stemt ind på en suveræn 1. plads." Staðreyndin er að Thomas þessi er borinn og barnfæddur í Danmörku en faðir hans er alíslenskur. Þetta er hinn nýi Bertel Thorvaldsen. Nýlega kynntist Thomas íslenskum hálfbróður sínum í fyrsta sinn og segja fjölmiðlar að hálfbróðirinn hafi fylgst náið með keppninni frá Íslandi - enda hægt að horfa á danska ríkissjónvarpið á breiðvarpinu!
Við Sigurveig skemmtum okkur konunglega yfir söngvakeppninni meðan Sóley fór í innflutningspartý hjá einni í Rødovre-liðinu, en þar á eftir liggur leið hennar og íslenskra vinkvenna hennar hér úti á dansleik með Skímó, sem haldinn er eftir þorrablót Íslendingafélagsins.
Það skal nefnt hér í framhjáhlaupi að Sóley og co. töpuðu enn og aftur í dag, nú gegn einu af toppliðunum en Sóley lék mjög vel þær mínútur sem hún fékk.
Fyrir þá sem undrast bloggleysi síðustu viku þá eru engar skýringar á því. Alls engar. Maður hefði til dæmis getað gert upp EM í handbolta en það er of seint núna. Allt of seint.
posted by Thormundur |
22:56
laugardagur, janúar 31, 2004
::: God morgen! Hér á Voldumvej gerði litla heimasætan tilraun til að taka daginn afar snemma, 06:22. Sem betur fer sofnaði hún aftur en það var ekki lengi, 07:24 var hún glaðvöknuð. Ég var einstaklega hress í morgun og er búin að afreka ýmislegt frá því við fórum á fætur. Meðan við borðuðum morgunmat ræddum við um "fastelavn" - öskudag Dana - sem er 22. febrúar. Ótrúlegt en satt hefur hún fengið þá flugu í höfuðið að vera í svörtum búningi með þrífork í hendi. Er ekki alveg að skilja þetta þar sem skvísan hefur aldrei viljað sjá svört föt og hefur auk þess hingað til verið afar hrifin af öllu prinsessudóti. En nú erum við á leiðinni í Rødovre Centrum til að kaupa búninginn og verðum spennandi að sjá hvert valið verður.
En aftur að morgunafrekunum. Ég byrjaði á því að hnoða í bollur og á meðan þær hefuðust skúraði ég baðið hátt og lágt. Síðan voru bollurnar settar í ofninn og eiginmaðurinn vakinn í nýbakaðar bollur í morgunmat - ekki slæmt. Og nú er leiðinni heitið í Centrumið eins og áður sagði. Deginum verðum síðna eytt í sófanum þar sem okkar menn eru að keppa í undanúrslitum EM. Áfram Danmörk!!!
Annars að frekari fréttum af húsmæðraafrekum. Er búin að ég held að ná pönnukökugerðargeninu frá henni mömmu fram. Mamma er náttúrulega meistarinn í pönnukökunum en síðustu tvö skipti hefur mér gengið framar öllum vonum. Það er nú ekki leiðinlegt að erfa þennan einstaka pönnukökubaksturshæfileika frá mömmu og síðan notaða pönnukökupönnu (þær eru allrabestar!) frá tengdó. Ég er alveg einstaklega heppin! :-)
Á morgun keppum við Rødovre píur við Fredericia. Vonandi gengur það sem allra best - nánari fréttir af því síðar.
posted by Soley |
10:45
mánudagur, janúar 26, 2004
::: Við unnum!!! Loksins kom að því að við Rødovre píur bættum tveimur stigum í safnið, svo sannarlega kominn tími til þess. Við unnum nauman - og þá meina ég nauman - sigur á botnliði Albertslund. Leikurinn var vægast sagt hræðilegur af okkar hálfu, ekkert gekk upp, tönn brotnaði hjá Gitte (miðjumanninum okkar), okkur var hent út af aftur og aftur svo eitthvað sé nefnt. En við börðumst allan leikinn þrátt fyrir allt og uppskárum sigur á síðustu mínútu leiksins. Ég veit ekki hvað hefði gerst hefðum við ekki náð þessum stigum. En best að hugsa ekki um það heldur nota kraftana í leik gegn Fredericia sem við spilum á heimavelli um næstu helgi. Ef við náum að vinna hann eigum við enn góðan möguleika að vera meðal sex efstu liðanna sem er markmiðið í ár. Á næsta ári á nefnilega að sameina austur- og vesturriðil 1. deildar og fara sex efstu lið úr hvorum riðli í nýja "landsdækkende" 1. deild.
Ég kom lítið við sögu í leiknum enda var ég og er enn að jafna mig eftir hið svakalega bylmingsskot sem ég fékk í hausinn á þriðjudaginn fyrir tæpri viku. Þetta reyndist vægur heilahristingur, ótrúlegt að fá heilahristing á gamals aldri eftir að hafa fengið mörg skot í hausinn á mínum langa ferli. Heiða greyið hélt sjálfsagt að hún væri að skjóta yfir mig en hún var bara búin að gleyma hvað ég er svakalega leggjalöng - og auðvitað hávaxin. :-)
posted by Soley |
22:56
sunnudagur, janúar 25, 2004
::: Gengur betur næst Ballið er búið hjá strákunum okkar. Við vorum svo nærri því að komast áfram en samt svo fjarri. Þrátt fyrir að við gerðum jafntefli í kvöld fannst manni möguleikinn aldrei mikill. Þetta var greinilega ekki okkar mót. Ef við horfum framhjá hugsanlegum mistökum þjálfara virðist sem liðið hafi aldrei komist í gang. Eftir á að hyggja var það óheppni að mæta heimamönnum í fyrsta leik og möguleikarnir runnu endanlega í sandinn á móti Ungverjum. Gengur betur næst.
Danir eru hins vegar í skýjunum. Þeir áttu stórleik í kvöld og unnu Spánverja þar sem vörn og markvarsla var í heimsmælikvarða. Danska pressan er nú aftur kominn í gírinn enda eiga Danir nú sæmilega mögulega á undanúrslitum. Aðalmarkmiðið (í bili) er þó sæti á Ólympíuleikum en eitt sæti er í boði. En í þeim efnum þurfa þeir að vera ofar en Svíar, Serbar og Ungverjar sem öll berjast um þetta eina sæti.
Nú þarf maður að finna sér einhvern til að halda með. Sóley heldur auðvitað með Dönunum. Ég hef það helst gegn Dönunum hvað þeir geta verið óþolandi ánægðir með sig þegar vel gengur. Það verður að segjast að þeir hafa verið mun hógværari en nokkru sinni áður - enda hafa þær lært af reynslunni, sérstaklega eftir síðasta HM þegar þeir voru nánast krýndir heimsmeitastarar fyrir mótið.
Næsta vika verður spennandi. Spennandi leikir nánast á hverju kvöldi.
posted by Thormundur |
23:55
::: Risaeðlur mætast Keppni á EM er í fullum gangi núna og úr fjölmörgum beinum útsendum að velja í sjónvarpinu. En því miður er íslenski leikurinn hvergi á dagskrá. Í þessum skrifuðu orðum er að hefjast leikur risaeðlanna á mótinu, Svía og Rússa. Sumir leikmenn hafa verið lengur í liðinu en elstu menn muna. Dönsku lýsendurnir kalla leikinn einmitt svar handboltans við Jurassic Park.
Danir voru hársbreidd frá að vinna heimsmeistara Króata í gær eftir hádramatískan leik. Þeir þurfa því að vinna Spánverja í kvöld til að taka tvö stig með sér í milliriðla og eiga séns á undanúrslitum í keppninni. Eins og lesendur vita væntanlega held ég ekki með Dönum í mótinu, frekar en endranær í karlaboltanum. En þegar valið stóð á milli Dana og Króata hélt maður með "samlöndum" sínum. Mér finnast Króatar einfaldlega vera með leiðinlegt lið og spila svolítið "dirty". Þeir hafa líka heppnina og dómara með sér - fengu til dæmis eitt stig af gjöf í leiknum á móti Spáni þegar dómararnir dæmdu kolólöglegt sigurmark þeirra á lokasekúndunni gilt.
Örlög okkar ráðast á eftir. Ef við vinnum komumst við áfram en það verður eiginlega bara til málamynda. Við fáum engin stig með í milliriðil og eigum því engan séns á undanúrslitum - raunar í besta falli möguleika á að spila um 7. sætið. En við þurfum ekkert að örvænta. Við erum með sæti á Ólympíuleikum tryggt og ef við komumst áfram á milliriðil hlýtur markmiðið að vera að vinna einn eða tvo leiki svona til að efla sjálfstraustið.
Maður hefur hins vegar heyrt sögusagnir um að þjálfarar landsliðsins muni segja af sér ef leikurinn tapast í kvöld. Mér fyndist það alveg koma til greina því það er alveg ljóst að Guðmundur Guðmunds og co. hafa gert mistök í undirbúningi mótsins og við val á leikmannahópnum. Guðmundur staðfestir það raunar sjálfur með því að velja ekki Dag og Róbert Sighvats í hópinn fyrir leikinn á móti Tékkum. En þetta kemur allt í ljós á eftir. Ætli maður hlusti ekki á lýsingu á Rás 2 síðustu mínúturnar.
posted by Thormundur |
18:12
fimmtudagur, janúar 22, 2004
::: Lasnar mæðgur og valdastríð ráðherra Sóley og Sigurveig eru báðar lasnar og voru heima í dag. Sóley var nú aðeins slöpp um síðustu helgi en um það bil þegar hún var að koma til á þriðjudag fékk hún bylmingshögg í höfuðið á æfingu og hefur verið hálf vönkuð síðan. Íslendingar eru greinilega löndum sínum verstir - en það var aumingja Heiða liðsfélagi hennar sem varð fyrir þeirri ógæfu að láta verja frá sér með þessum hætti. Sigurveig fékk hins vegar ælupest í nótt en virðist strax vera að ná sér. Henni þótti nú ekkert leiðinlegt að vera heima í dag og horfði á sjónvarp, spilaði og hlustaði á tónlist í allan dag. Ég var hins vegar sendur út í kuldann til að kaupa eitt og annað handa sjúklingunum - ís, nammi, ávexti og hitamæli.
Mál málanna hér í Danmörku er hins vegar nýjar uppljóstranir á stormasömum samskiptum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem jafnframt eru formenn aðalsamstarfsflokkanna í ríkisstjórn, Venstre og Konservative. Ekstra Bladet komst nefnilega yfir myndefni frá danska ríkisútvarpinu, sem klippt var burtu við gerð heimildarmyndar um leiðtogafund ESB undir stjórn Dana síðastliðið haust. Myndinni var ætlað að varpa ljósi á baktjaldamakkið á leiðtogafundinum og styrka stjórn danska forsætisráðherrans á fundinum. Óklippt þótti heimildamyndin töluvert umdeild enda voru kvikmyndamenn svo að segja með í öllum plottum og baktjaldamakki. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, fékk þá að heyra það frá kollegum sínum í Evrópu og sumir gengu svo langt að kalla hann asna (hver annar en Chirac).
En aftur að efninu. Málið er hið pínlegasta fyrir ríkisstjórnina. Það er fyrst og fremst Anders Fogh sem situr í súpunni. Hann er vondi kallinn á myndunum og að mati margra opinbera þær ráðríki hans og miskunnarlausan stjórnunarstíl (minnir þetta á einhvern?). Á myndskeiðunum kemur greinilega í ljós hvernig hann niðurlægir utanríkisráðherrann, Per Stig Möller, og tekur loks af honum öll völd við samningaborðið. Á einu myndskeiðinu sést hvar Per Stig kvartar yfir því að fá ekki að viðra hugmyndir sínar. Anders Fogh svarar þá með þjósti: "Nú, hefur þú einhverjar hugmyndir?" Fleiri myndskeið eru til þar sem utanríkisráðherrann er svínaður til, m.a. af fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherrans sem í einu myndbroti ræðir "vandamálið með utanríkisráðherrann" við innanríkisráðherrann, Bertel Haarder, sem er samflokksmaður Anders Fogh.
Þáttur danska ríkisútvarpsins er athyglisverður. Í fyrsta sinn í sögunni hafa myndbrot lekið úr aðalstöðvum DR. Forráðamenn DR eru vitanlega í áfalli vegna upplýsingalekans og hóta öllu illu; hyggjast refsa þeim sem "lak" myndunum og hóta Ekstra Bladet málsókn. Ekstra Bladet upplýsir hins vegar að DR og danska forsætisráðuneytið hefðu komist að samkomulagi um að ráðuneytið fengi að ritskoða efni við framleiðslu þáttarins - undir því yfirskyni að verja danska þjóðarhagsmuni. Með því hafa þeir hins vegar gerst sekir í að taka þátt í áróðursstríði forsætisráðherrans með því að framleiða heimildamynd í samstarfi við ráðuneytið.
Anders Fogh hefur reynt að gera lítið úr þessu máli en það er ekki enn séð fyrir endanum á því. Utanríkisráðherrann er í Afríku og undirbýr væntanlega næstu skref sín úr fjarlægð eins og Hannes. Stjórnmálasérfræðingar telja valdastríð ráðherranna mjög skaðlegt fyrir stöðu Dana í utanríkismálum - enda vilja Danir gjarnan leika aðalhlutverk á vettvangi alþjóðastjórnmála og innan ESB.
posted by Thormundur |
18:52
fimmtudagur, janúar 15, 2004
::: Ljúft að vinna Dani Það er alltaf ljúft að vinna Dani. Ísland yfirspilaði Dani á löngum köflum í handboltalandsleiknum í kvöld. Við horfðum á leikinn í óbeinni og strákarnir okkar stóðu sig mjög vel. Danir afsökuðu sig í bak og fyrir eftir leikinn og fyrir vikið varð sigurinn ljúfari. Þeir sögðust hafa verið svo þreyttir eftir erfiða æfingu í gær, úrslitin hafi ekki verið aðalatriðið og að markmiðið hafi fremur verið að gera tilraunir með eitt og annað í vörn og sókn. Allt klassískar afsakanir.
En það er eitt sem Danir öfunda okkur mikið af - það er Óli Stefáns. Þeir halda hreinlega ekki vatni yfir honum og hrósuðu honum í hvert sinn sem hann ýmist skoraði eitt af sínum níu mörkum eða gaf eina af sínum óteljandi stoðsendingum á línunni. Sannkallaður stórleikur hjá honum. Satt að segja lék allt íslenska landsliðið vel í leiknum en sérlega gaman að sjá að Snorri Steinn og Reynir voru mjög góðir og virðast geta leikið lykilhlutverk á EM eftir viku.
Meira um handbolta og EM síðar.
posted by Thormundur |
23:53
sunnudagur, janúar 11, 2004
::: Kominn tími til! Svo sannarlega kominn tími til að blogga. Nú er lífið búið að taka á sig hversdagslega mynd aftur eftir jólafríið heima á fróni. Sigurveig var alsæl að koma heim á miðvikudaginn og hafði varla tíma til að fara úr skónum þegar hún kom inn í íbúðina. Hún þurfti að drífa sig að kíkja á dótið sitt og ekki minna að knúsa mömmu sína eftir langan aðskilnað (3 daga!). Frábært að fá þau aftur í kotið.
Við Rødovre píur spiluðum á föstudaginn en töpuðum því miður fyrir Haderslev. Þetta verður nú að fara að ganga betur, kominn langur tími síðan við fengum síðustu stig. Ég læt svo sannarlega vita hér á síðunni þegar næstu stig verða í höfn!
Við höfum tekið því mjög rólega um helgina. Í gær fórum við þó að kaupa nýjan hjólahjálm fyrir Sigurveigu og fór hún þar með í fyrsta hjólareiðatúrinn á nýja hjólinu sínu sem hún fékk frá ömmu Sólveigu og afa Jónatan í jólagjöf. Hún stóð sig eins og hetja, á gírahjólinu sem er með engum fótbremsum. Henni fannst þetta mikið sport auðvitað og er alsæl með þetta allt saman!
Í dag höfum við verið heimavið enda rigning úti. Sigurveig og Þórmundur brugðu sér reyndar aðeins í hjólatúr nema hvað. Síðan bökuðum við dýrindis súkkulaðiköku og fengum nágranna í kaffi. Þannig vill svo til að það býr maður í íbúðinni við hliðina á okkur sem á þrjú börn. Signe heitir yngsta barnið og er hún í mínum leikskóla. 5 ára skvísa og finnst henni og Sigurveigu svaka gaman að leika saman. Fyrr en varði vorum við með fjóra krakka í fullu fjöri inni í herbergi, Sigurveig, Signe og tvo bræður hennar. Í kvöld horfðum við svo á nýjustu þáttarröðina á DR1 - Krønikken. Frábær sería sem u.þ.b. 70% Dana steinliggur yfir sunnudagskvöld það sem eftir er vetrar. Þetta er augljós arftaki Matador en þessi sería fjallar um samfélag og stéttaátök í Danmörku eftir seinna stríð - með tilheyrandi ástarflækjum auðvitað ;).
posted by Soley |
22:14
sunnudagur, janúar 04, 2004
::: Komin heim Ótrúlegt hvað tíminn getur verið fljótur að líða. Nú er ég komin aftur til Danmerkur - er alein í kotinu þangað til á miðvikudaginn þegar Sigurveig og Þórmundur koma frá Íslandi.
Það má nú segja að það sé hálfgerð heppni að ég sé yfirleitt stödd í Danmörku núna. Frá því að við keyptum farmiðana í júlí til að komast heim um jólin stóð ég í þeirri meiningu að ég ætti kvöldflug til Køben 4. janúar. Klukkan 01:00 í nótt kíkti minn elskulegi eiginmaður á flugmiðann og viti menn - ég átti flug klukkan 08:00. Ég sem var komin upp í rúm og var að lesa rauk á fætur, hringdi í mömmu og Elísabetu sem ætluðu að keyra mig og síðan klæddi ég mig aftur og skaust til tengdó til að kveðja þau. Og þegar ég kom aftur á Holtsgötuna klukkan 02:30 í nótt kláruðum við að pakka niður. Þvílík meinloka í mér! En ég er allavega komin heim á Voldumvej!
Við höfðum það virkilega gott á jólunum á Íslandi. Eyddum að sjálfsögðu miklum tíma í faðmi fjölskyldu og vina í hverju jólaboðinu á fætur öðru. Milli allra boðanna - þar sem maður belgdi sig út af mat - skrapp ég á æfingu, bæði hjá Stjörnunni og Val (allt eftir því hvað passaði betur við matarboðin ;)). Gaman að hitta skvísurnar aftur og hlaupa af sér nokkrar hitaeiningar. En núna tekur við mánuður hollustu - fiskur og grænmeti í öll mál!
Takk til allra heima fyrir frábærar samverustundir um jólin!
posted by Soley |
20:53
fimmtudagur, janúar 01, 2004
Gleðilegt ár! Við óskum lesendum gleðilegs ár og þökkum fyrir lesturinn á síðasta ári. Við höfum lítið skrifað á síðuna að undanförnu enda mjög upptekin við jólahald á Íslandi. Við höfum reyndar fengið góða hvíld frá netinu því það er engin nettenging á Holtsgötu - og við höfum sannarlega ekki nennt að blogga í boðum - fyrr en nú! Það mun færast meira líf í bloggið þegar við erum komin aftur á Voldumvej. Það styttist víst í það.
posted by Thormundur |
19:27
fimmtudagur, desember 18, 2003
::: Á morgun er gleði og gaman! Ótrúlegt en satt þá er að koma að heimferðinni. Á morgun mætum við á klakann. Allir eru að springa úr spenningi og mest af öllu Sigurveig auðvitað. Nú er hún meira segja önnum kafinn inni í herbergi að taka til og raða öllu dótinu á rétta staði. Hún var ekki alveg nógu ánægð með mig þegar ég tók sængina hennar til að viðra hana. "Mamma ég var búin að búa svo vel um". Ég lofaði að ganga frá eftir mig.
Aðfaranótt þriðjudagsins síðasta renndu Hrabbý, Valur, Sævar Örn og Valgerður Ósk í hlað eftir tíu tíma keyrslu frá Þýskalandi. Frábært að fá þau í heimsókn þó stutt væri. Sigurveig vaknaði og krakkarnir léku sér frá 01:15 til 02:30 - um miðja nótt. Síðan var farið snemma á fætur til að nýta allan mögulegan tíma til að spjalla. Þau flugu svo til Íslands um hádegið - alsæl eftir að hafa gætt sér að gómsætu konfekti (varð að koma því að :-) )
Nú er ég komin í jólafrí í boltanum, þ.e.a.s. hérna í Danmörku. Er mikið að spá í að skreppa á æfingar heima, það væri frábært að hitta stelpurnar aftur. Valsstelpurnar verða fyrir valinu að þessu sinni, ótrúlegt að ég þekki varla nokkurn í Stjörnunni, þó að það séu bara tvö og hálft ár frá því að ég yfirgaf klúbbinn. Já ég veit það - ég er bara orðin gömul!
Nú er best að fara pakka niður. Jólagjafirnar taka gott pláss í töskunum, verða kannski hálftómar á leiðinni til Danmerkur aftur. Annars er ég auðvitað að fara til "útlanda" og í útlöndum kaupir maður sér alltaf fullt af fötum ekki satt? ;) Nei, ætli ég fari þá ekki frekar með þær hálftómar heim :).
Sjáumst hress í jólastemningunni heima á Íslandi!
posted by Soley |
16:48
mánudagur, desember 15, 2003
::: Fjórir dagar í Ísland! Bara fjórir dagar þangað til ... getum varla beðið. Sigurveig er eins og gefur að skilja spenntari en allt spennt yfir því að komast heim á frónið. Sagði eftir kvöldmat með tár í augum og grátstaf í kverkum að hún vildi fá ömmur sínar og afa.
Þegar ég var búin að lesa fyrir Sigurveigu í kvöld fyrir svefninn báðum við bænirnar sem ekki er í frásögur færandi. Þá segir þessi elska að hún ætli líka að tala við guð. "Mamma, hvernig segir maður "kære gud" á íslensku?" Kæri guð svaraði ég. Bænin hljómaði svona frá prinsessunni: "Ég vildi bara segja þér að ég þarf bara að fá fjórum sinnum í skóinn meira því eftir fjóra daga er ég sko farin til Íslands. Amen". Síðan spurði hún mig aftur, "mamma, talar guð við jólasveininn?". Mér fannst þetta alveg svakalega sætt allt saman og sýnir þetta okkur foreldrunum að trúin á jólasveininn er ekki alveg brostin.
Núna í þessum skrifuðu orðum eru Hrabbý og fjölskylda á leiðinni til Kaupmannahafnar. Fyrir um hálftíma síðan voru þau að nálgast Puttgarten en þaðan sigla þau til Rødby á Lálandi. Þá er bara einn og hálfur klukkutími til okkar. Þannig að nú er ekki seinna en vænna að fara að taka til góðgæti svo að fjölskyldan geti fengið "natmad" þegar þau koma. Og að sjálfsögðu verður heimagerða konfektið á borðum, uhmmm.
posted by Soley |
21:51
sunnudagur, desember 14, 2003
::: Fimm dagar í Ísland! Já, nú eru bara fimm dagar þangað til við leggjum í hann heim til Íslands. Það verður alveg dásamlegt að komast heim í faðm fjölskyldu og vina.
Því miður fengum við ekki Hrabbý og fjölskyldu í heimsókn í dag. Sævar hefur verið veikur að undanförnu og þau urðu því að fresta heimsókn sinni. Þau eiga reyndar flug frá Kaupmannahöfn þannig að þau koma hér aðeins við á leið í flugvél heim. Vonandi jafnar Sævar sig fljótt svo þau geti komið í heimsókn til Köben við annað tækifæri. Þau fá ekki frið fyrir pressunni hérna megin fyrr en við höfum þau hérna á stofugólfinu. Þannig að ég sé mig næstum því neydda til að borða nammi í kvöld og ímynda mér að Hrabbý sitji mér við hlið. Við hittumst síðan hress og kát á fróninu áður en langt um líður.
Í gær bjó ég til jólakonfekt ásamt Trine vinkonu minni. Ég gerði hvorki meira en minna en þrjár sortir - átti náttúrulega von á Hrabbý í heimsókn - og smakkast þær hver annarri betri. Tengdamamma fær síðan væntanlega vatn í munninn þegar ég minnist á viskítruflur með pistasíuhnetum - uhmmmm.
Í dag spiluðum við Rødovre píur á móti Ajax. Riðum ekki feitum hesti frekar en í síðustu leikjum og töpuðum 30-23 (minnir mig, man yfirleitt bara hvort ég hef unnið eða tapað;-)). Kom inná og spilaði í fjörutíu mínútur og gekk bara ágætlega - en dugði því miður ekki til sigurs. Við förum því í jólafrí í 7. sæti, ekki alveg nógu gott.
posted by Soley |
18:23
sunnudagur, desember 07, 2003
::: Dvínandi trú á jólasveininn? Allt þar til í morgun hefur trú Sigurveigar á jólasveininn verið einlæg og óbifuð. Það gerðist á hinn bóginn í morgun að Sigurveig dró í efa að jólasveinninn hefði gefið henni gjöf morgunsins og gaf í skyn að hugsanlega hefðum við komið þar nærri! Þvílík firra! :-)
Fyrir þá sem undrast að hún hafi fengið gjöf frá jólasveininum í morgun skal það útskýrt að hér í Danmörku tíðkast sú hefð að gefa svokallaðar kalender-gjafir frá fyrsta degi desember-mánaðar. Ekki gátum við látið Sigurveigu bíða eftir íslensku jólasveinunum meðan aðrir krakkar í bekknum fá litlar gjafir á hverjum degi. En við höfum hugsað okkur að láta hana setja skóinn í gluggann og telja henni trú um að íslenski jólasveinninn komi hingað með Iceland Express á hverjum degi. Sennilega þarf þó engar slíkar skýringar. Jólasveinninn getur allt, farið með gjafir til barna í öll hús á hverri nóttu og jafnvel inn um læstar og lokaða glugga!
En aftur að trúnni. Við létum sem ekkert væri og játuðum ekki sök okkar - ekki að sinni. Hún sat þó á rúminu og horfði á okkur tortryggnislega. Þetta voru erfið augnablik en svo skiptum við bara um umræðuefni. Hún var líka ánægð með gjöfina og uppgötvar líkast til fljótt að það borgar sig að trúa á jólasveininn!
posted by Thormundur |
23:56
laugardagur, desember 06, 2003
::: Bloggað í eitt ár! Fjölskyldan Voldumvej 80 á eins árs bloggafmæli í dag. Fyrsta bloggfærslan var skrifuð 6. desember fyrir ári síðan og við erum enn að. Við þökkum lesendum kærlega fyrir góðar viðtökur en bloggið hefur ásamt spjalli á MSN-inu fært okkur nær fjölskyldu og vinum - og sömuleiðis lækkað símreikninga okkar töluvert. Við lofum því að halda ótrauð áfram skrifum á síðuna okkar.
Annars er allt gott að frétta héðan. Í gærkvöldi buðum við Sóleyju Grétars og Edu í mat og voru það fyrstu kynni okkar af hinum spænska kærasta Sóleyjar. Við komumst m.a. að því að Edu spilaði handbolta á sínum yngri árum. Sigurveig var stjarnfræðilega feimin að þessu sinni og fór ekki úr skel sinni fyrr en seint um kvöldið þegar svefngalsinn tók völdin.
Töluvert var fjallað um veðrið hér úti í gær og síðustu nótt í íslenskum fjölmiðlum. Við erum heil á húfi! Við fórum nú að mestu á mis við "óveðrið" en vindurinn barði húsið þó óvenjusterkt um það leyti sem við vorum að fara að sofa. Í okkar augum var þetta þó meira í ætt við íslenskan stinningskalda - eða eitthvað álíka.
posted by Thormundur |
17:27
miðvikudagur, desember 03, 2003
::: Fjölskyldufjör! Þá erum við orðin þrjú á Voldumvej aftur eftir gestkvæma helgi. Þetta var algerlega frábær helgi - vantar sterkara lýsingarorð til að lýsa því. Ótrúlega gaman að fá svona óvænta heimsókn - og hafa fengið pabba líka. Það er varla hægt að hugsa sér neitt betra en að sitja við kertaljós, hlusta á jólalög og borða morgunmat með fjölskyldunni á fyrsta sunnudegi í aðventu. Við áttum yndislegan tíma saman og eru allir endurnærðir og ánægðir á eftir.
Á sunnudaginn tókum við sem sagt daginn snemma og kíktum í Rødovre Centrum. Alltaf gaman að fara í stelpuferð í búðir og afraksturinn var auðvitað nokkrir pokar. Fjölskyldan sameinaðist svo seinni partinn í Hróarskeldu en þar riðum við Rødovre píur ekki feitum hesti. Töpuðum 21-19 fyrir Roar. Ekki gott. En engu síður frábært að kíkja upp í stúku og sjá alla fjölskylduna. Eftir leikinn drifum við okkur í jóla-Tívolí. Ljósadýrðin er með ólíkindum og mikið af fallegu jólaskrauti. Við gengum um og skoðuðum allt saman, tókum eina ferð í elsta rússíbana Tívolísins, fengum okkur heitt kakó, brenndar möndlur, jólaglögg og eplaskífur. Enduðum svo frábæran dag á Jensens Bøfhus.
Mánudeginum var eitt í miðbæ Kaupmannahafnar. Mamma fylgdi pabba út á flugvöll og við Elísabet hittum hana svo á Ráðhústorginu klukkan tíu. Við örkuðum Strikið og fjölgaði pokunum óðfluga eftir því sem leið á daginn. Jólagjafir, jólaföt, jólaskraut, jóla, jóla, jóla. Allir sem sagt í hinu mesta jólaskapi. Við slöppuðum síðan vel af á mánudagskvöldið og gæddum okkar á Nóa konfekti og Appolo lakkrís - nammi namm.
Síðan fóru mamma og Elísabet heim í gærmorgun. Að þessu sinni var ekki svo erfitt að segja bless enda mætum við á klakann eftir 16 daga. Við erum komin í hið mesta og besta jólaskap, búin að punta hjá okkur og hlustum á hvern jóladiskinn á fætur öðrum. Erum öllsömul hin mestu jólabörn. Er mikið að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að baka eins og eina sort í viðbót - má nú ekki valda henni Hrabbý vonbrigðum í húsmóðurstörfunum.
posted by Soley |
16:49
laugardagur, nóvember 29, 2003
::: Afmælisveisla ársins!!! Afmælisveisla ársins hófst klukkan tólf í dag. Bekkjarsystur Sigurveigar mættu tímanlega og var fljótlega allt komið í fullt fjör. Þær dönsuðu mikið og kom þar geislaspilarinn sem foreldrar hennar gáfu henni að góðum notum. Sigurveig opnaði gjafirnar og fékk mjög margt fallegt, m.a. Braatz dúkku, glimmertússa, límmiðabók og fleira.
Klukkan 13:45 gerðust ótrúlegir hlutir. Bjallan hringdi og allt í einu heyrði ég Þórmund hrópa á mig úr forstofunni. Ég gekk í rólegheitum fram og viti menn, Elísabet systir og mamma gengu inn um dyrnar. Ef ég hef einhvern tíma fengið móðursýkiskast var það í dag. Þær bara birtust án þess að við vissum. Þvílík gleði á bænum. Ég horfði á þær til skiptis í marga klukkutíma til að reyna átta mig á því hvort mig væri að dreyma eða hvort þetta gæti verið satt. Ótrúlegt að við sætum öll saman við eldhúsborðið hér á Voldumvej og ræddum heima og geima. Eftir afmælisveisluna drifum við okkur út að borða og var öllu aðhaldi sópað út í horn. Nú verður helgin tekin með trompi.
Á morgun keppum við Rødovre píur við Roar í Hróaskeldu og verður fjölskyldan sameinuð á áhorfendapöllunum - kominn tími til eftir langa pásu. Spurning hvort að pabbi hafi munað eftir dómaraskírteininu - verst hann gleymdi lukkuhattinum góða. Síðan gerum við innrás í Tívolíið annað kvöld. Sem sagt stanslaus gleði næstu sólarhringa. Oh, hvað er gaman að vera til!!! :-)
posted by Soley |
22:46
föstudagur, nóvember 28, 2003
::: Nýjar myndir Þá eru loksins komnar nýjar myndir á myndavef fjölskyldunnar. Þar eru glænýjar myndir frá afmælisdegi Sigurveigar og komu afa Dóra í gær. Aldrei er að vita nema fleiri myndir birtist næstu daga og vikur. Fylgist því vel með!
posted by Thormundur |
16:17
miðvikudagur, nóvember 26, 2003
::: Hún á afmæli í dag! Sigurveig á afmæli í dag. Hún er orðin sex ára gömul! Hún hefur hlakkað mikið til dagsins og í morgun vaknaði hún hress og kát einu ári eldri. Hún fékk vitanlega að taka upp pakkann frá mömmu og pabba áður en hún fór í skólann. Pakkarnir voru tveir. Hún byrjaði á þeim litla og var afskaplega glöð með innihaldið - því þar fékk hún geisladisk með lögunum úr Eurovision-keppni barnanna. Þar á hún nokkur uppáhaldslög. Seinni pakkinn var aðeins stærri og pappírinn fékk að fjúka hratt og örugglega. Gleðin var ekki síðri þegar hún uppgötvaði að hún hefði fengið tæki "til að spila diska" eins og hún orðaði það. Hún fékk sem sagt ferðageislaspilara - svona lítinn ghettoblaster. Tækinu var stungið í samband, diskurinn settur í og síðan dansað við nokkur lög. Eftir morgunmat að eigin vali lá svo leiðin í sex ára bekkinn í skólanum.
Vikan verður sannkölluð afmælisvika. Tilviljun ræður því að hún heldur í raun þrisvar upp á afmælið! Á laugardaginn verður haldin stór veisla með öllum stelpunum úr bekknum hennar. Strákarnir mega "auðvitað" ekki koma! Afi Dóri kemur svo á morgun og þá verður fagnað og sjálfsagt teknir upp einhverjir íslenskir pakkar. Í dag verður hins vegar haldin lítil veisla - svona á sjálfan afmælisdaginn - en í hana eru boðnar tvær bestu vinkonur hennar úr nágrenninu. Önnur þeirra hefði ekki komist á laugardaginn þannig að niðurstaðan varð ein lítil veisla, ein afaveisla og ein stór bekkjarveisla.
Myndavefurinn góði hefur fengið töluverða hvíld síðustu mánuði en nú stendur til að ráða bót á því. Ég get lofað því að við allra fyrsta tækifæri verða settar inn nýjar myndir - meðal annars af afmælisbarninu og gestum hennar næstu daga.
posted by Thormundur |
09:55
sunnudagur, nóvember 23, 2003
::: Jólaundirbúningur hafinn Hér á Voldumvej erum við farin að undirbúa jólin eins og Þórmundur minntist á í síðasta bloggi. Fyrstu smákökurnar voru bakaðar í dag - gyðingakökur nema hvað. En húsmóðirin tók mikilvæga ákvörðun, að baka ekki fleiri smákökur í ár. Ég sá fram á að borða þær allar sjálf og ekki gengur nú að ég vaxi upp úr nýju gallabuxunum mínum í mittisstærð 29 áður en ég kemst heim um jólin! Ó, sei sei nei. Þannig að pabbi verður að láta sér nægja eina sort í jólaheimsókninni í ár - en við bökum að sjálfsögðu alvöru kökur fyrir afmælið hennar Sigurveigar sem hann verður heiðursgestur í.
Í skólanum hjá Sigurveigu undirbúa þau jólin á margvíslegan hátt. Hver nemandi fékk m.a. útdeilt einum degi í desember þar sem þau eiga að koma með eitthvað óvænt í umslagi þann daginn. Sigurveig fékk 10. desember. Við vorum að velta því fyrir okkur hvað hún ætti að koma með. Okkur fannst nú sniðugt að hún tæki með bók sem segir frá íslensku jólasveinunum - myndir af þessum gömlu og misfríðu. Af því tilefni fórum við að rifja upp nöfnin á þessum ágætis körlum. Þegar komið var að Bjúgnakræki sem kemur á eftir Skyrgámi spurði ég Sigurveigu hvort hún myndi hvað hann heiti. Hún stóð nú ekki lengi á svarinu og svaraði hástöfum "Pylsugámur". Gott nafn ekki satt? :-)
Annars töpuðum við Rødovre píur í dag fyrir Freja. Frekar fúlt en við náðum okkur engan veginn á strik. Töpuðum með einu en vorum fjórum mörkum undir lengi vel. Ég byrjaði inná en spilaði bara 20 mín og hef oft spilað betur eins og allt liðið. Gerum bara betur næst.
Stóri dagurinn nálgast síðan óðum - Sigurveig verður sex ára á miðvikudaginn!
posted by Soley |
22:56
laugardagur, nóvember 22, 2003
::: Innkaupaleiðangur Við létum loks verða af því. Fengum lánaðan bíl nágranna okkar og fórum í innkaupaleiðangur í stóru búðirnar, Ikea, Elgiganten, Toys 'R' Us og Føtex. Við slógum nokkrar flugur í einu höggi og nýttum bílinn vel. Í Ikea keyptum við dótakistu handa Sigurveigu, sem lengi hefur staðið til að kaupa í stíl við rúmið hennar. Eitt og annað smálegt og ódýrt fékk að fylgja með - svona til málamynda - en við vorum svo heppin að kistan var seld á hálfvirði.
Því næst héldum við í Elgiganten (Elko) og keyptum afmælisgjöf handa Sigurveigu. Jú, hún var með en okkur tókst að afvegaleiða hana með ýmsum hætti. Hver gjöfin er verður upplýst síðar. Næsti áfangastaður var Toys 'R' Us. Þar náðum við að kaupa minnst fjórar jólagjafir á einu bretti. Þar fengum við líka allt í afmælisveislu Sigurveigar - diska, glös, rör, servíettur og fleira. Í ár verður Braatz-dúkku þema. Loks enduðum við í Føtex til að gera helgarinnkaupin.
Þegar heim var komið varð handlagni heimilisfaðirinn að taka upp verkfæri sín því Sigurveig gat ekki beðið eftir dótakistunni góðu. Svo var dótinu raðað í kistuna eftir kúnstarinnar reglum. Sóley var þá farinn út að hitta Jónu og Sóleyju Grétars - og það endaði þannig að Sigurveig fór ekki að sofa fyrr en um ellefu. Fyrir utan smíðarnar kom í ljós að það er hlaupinn aukinn afmælisspenningur í stelpuna. Við mamma hennar viðurkenndum að við værum búin að kaupa gjöfina hennar og meðan hún var ekki að smíða eða raða í kistuna leitaði hún hátt og lágt í íbúðinni eftir gjöfinni. Hún fann að lokum tvo grunsamlega kassa í plastpökum en ég sagðist ekkert vita. Staðreyndin var að hún hafði fundið gjöfina og nú verð ég að finna nýjan felustað.
posted by Thormundur |
23:41
mánudagur, nóvember 17, 2003
::: Frábær helgi! Já það má með sanni segja að þetta hafi verið frábær helgi. Á föstudaginn fórum við Þórmundur út að borða með Völu og Jóa. Það var tekið vel á því í matnum enda smakkaðist hann frábærlega. Eftir stutta göngu í bænum fórum við á hótelið þeirra og spjölluðum fram eftir nóttu. Á meðan við skemmtum okkur saman passaði Sóley frænka Sigurveigu og skemmti sú stutta sér ekki síður en við. Takk Sóley frænka.
Á laugardaginn vorum við í rólegheitum hérna heima á Voldumvej. Við Sigurveig skruppum reyndar upp í Rødovre Centrum og keyptum nýja inniskó á skvísuna. Stærð 32 - hvaðan hefur hún erft þessa skóstærð? :-) Við borðuðum góðan kvöldmat og settumst svo í sófann og horfðum á Junior Melodi Grand Prix - Júróvisíjón fyrir börn. Sigurveig söng auðvitað hástöfum og dansaði með framlagi Dana en var þó einnig mjög hrifin af lagi Grikkja, fulltrúi þeirra var átta ára strákur og var hún ekki lengi að læra viðlagið utanaf - "Fili Yia Panda".
Sunnudagurinn var þéttskipaður. Ég þurfti að vinna í leikskólanum frá klukkan níu og mætti síðan í leik klukkan hálf eitt. Við Rødovre skvísur spiluðum við Ydun. Við yfirspiluðum andstæðingana í fyrri hálfleik og staðan var 12-6 í hálfleik. Ydun var ekki lengi að jafna leikinn 14-14 og var hann síðan afar spennandi eftir það. Við vorum tveimur mörkum yfir þegar tvær mínútur voru eftir en því miður jafnaði Ydun á síðustu sekúndunni. Ömurlegt!!! Ég kom bara inná í tveimur vítum en náði að halda markinu hreinu. Gaman en grautfúlt að fá ekki bæði stigin. Liðið mitt er að spila margfalt betur en í fyrra. Í raun frábært að gera jafntefli við Ydun sem er með mjög sterkt lið og setur markið á úrvalsdeild næsta tímabil. Vonandi höldum við áfram á sömu braut, næsti leikur á sunnudaginn á móti Freja. Go Rødovre!
Á sunnudagskvöldið komu Vala og Jói í mat til okkar. Frábært að fá þau í heimsókn. Við borðuðum góðan mat og höfðum það notalegt saman. Við getum blaðrað endalaust um allt og ekkert. Gaman að skiptast á sögum um þessi yndislegu börn okkar og hvað á daga okkar hefur drifið undanfarið. Sigurveig fékk forskot á afmælisgjafirnar þar sem þau færðu henni perlur og fleira til að búa til skartgripi. Það féll vægast sagt í kramið hjá henni. Sigurveig notaði síðan tækifærið og sýndi Völu að hún væri byrjuð að læra að lesa. Henni fannst líka svakalega fyndið að ein "aðalpersónan" í Við lesum 1 heitir einmitt Vala. Takk fyrir komuna Vala og Jói!
posted by Soley |
22:18
föstudagur, nóvember 14, 2003
::: 12 ár Við Sóley eigum afmæli í dag. Við höfum þekkst, verið á föstu, trúlofuð og að lokum gift samtals í 12 ár! Þessu ætlum við að fagna í kvöld með því að fara út að borða. Ánægjan verður tvöföld því að Vala og Jói ætla að borða með okkur. Þau eru hér í helgarferð með vinnunni hans Jóa.
Við völdum mexíkanskt í kvöld en Sóley er frekar svag fyrir því. Við pöntuðum borð á einum besta mexíkanska staðnum í bænum, El Viejo Mexico, sem einfaldlega merkir gamla Mexíkó. Staðurinn er á Store Kongensgade skammt frá Kongens Nytorv og Nýhöfn.
posted by Thormundur |
17:09
fimmtudagur, nóvember 13, 2003
::: Ég held með ... Sigurveig kom mér skemmtilega á óvart um síðustu helgi. Þar sem ég horfði spenntur á viðureign stórliðanna tveggja í dönsku knattspyrnunni, Brøndby og FC København, spurði hún mig hvaða lið væru að spila - og fylgdi því eftir með að spyrja með hverjum ég héldi. Ég sagði henni að ég héldi með FCK, liðinu í hvítu búningunum. Þá sagðist mín sko halda með Brøndby!
Nú voru góð ráð dýr. En þar sem þetta snerist hvorki um KR eða Manchester United var ég pollrólegur. Það væri nú kannski ekki svo hræðilegt að hún héldi með öðru liði en pabbi gamli. Ég brosti bara og spurði hana hvers vegna hún héldi með Brøndby, liðinu í gulu búningunum. Fyrst sagði hún "bara" en að lokum tókst mér að staðfesta grun minn. "Allir í bekknum mínum halda með Brøndby," sagði hún stolt. "Nema Khalid. Hann heldur með FCK." Og nafnið sagði hún fullkomnum hreim og réttri áherslu, þ.e. þungri áherslu á K-ið.
Nú skal það upplýst að mjög margir í Rødovre halda með Brøndby enda nágrannabæir hér í Vestvolden, en svo kallast svæðið vestur og suður af Kaupmannahöfn. FCK er hins vegar klassískt stórborgarstórlið - líkt og KR - og þess vegna hef ég haldið með þeim!
En aftur að sögunni. Þegar ég hafði komist að því hvaðan hún vissi allt um Brøndby og FCK, virtist sem hún sæi eitthvað að sér og Brøndby-brosið hvarf skyndilega. "En ég vil halda með sama liði og þú, pabbi," sagði hún með klökkri röddu. Ég fullvissaði hana hins vegar um að hún ætti að halda með því liði sem hún vildi (en nefndi auðvitað ekki að þessi regla ætti helst ekki að gilda um KR). Og að það væri bara mjög gaman að allir í bekknum héldi með Brøndby.
Hún tók þessum rökum vel en sneri síðan endanlega á mig. "Vilt þú ekki halda með mínu liði?" sagði hún og setti upp vonarsvipinn sem feður falla gjarnan fyrir - þann sama og hún notar þegar hún biður lymskulega um nammi. Ég reyndi að koma til móts við hana og bauðst til að halda líka með hennar liði og hélt þá að ég væri hólpinn. Aldeilis ekki. "Það er ekki hægt að halda með mörgum liðum," sagði hún þá frekar hneyksluð. Sigurveig hitti auðvitað naglann á höfuðið. Maður getur ekki haldið með tveimur knattspyrnuliðum. Hver heldur bæði með Manchester United og Arsenal eða bæði KR og Val?
Í tilefni af þessu öllu saman hyggst ég nota tækifærið og kenna henni sitthvað um umburðarlyndi í samskiptum áhangenda erkifjenda í knattspyrnu. :-) Það er uppeldisleg skylda mín að fullvissa hana um að hún megi halda með Brøndby - en jafnframt að ég megi nú kannski halda áfram stuðningi við mitt lið. Við förum kannski saman á næsta leik, ég í hvítu og hún í gulu. Áfram FCK / Brøndby!
posted by Thormundur |
21:30
föstudagur, nóvember 07, 2003
::: Aðhaldi lokið! Undirritaðri hefur tekist hið ótrúlega, tæp sjö kíló fokin á tveimur og hálfum mánuði. Og því var fagnað með stæl í kvöld. Ég gæddi mér á Nóa-Síríus súkkulaði sem ég hef geymt í ísskápnum síðan 1. september sl. Breytt mataræði gerði það að verkum að kílóin fuku og er ég einstaklega ánægð með árangurinn. Minn elskulegi eiginmaður, sem hefur verið mín stoð og stytta í bardaganum, er þó í léttu stresskasti þar sem svona kílóatapi fylgir endurnýjun á fataskápnum. En ég verð nú að segja að ég hef sjaldan notið þess jafn vel að borða súkkulaði og í kvöld, ótrúlegt að ég skuli hafi getað haldið mér frá því í svo langan tíma. Þetta segir nú bara að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Maður er nú ekki formaður karaktersklúbbsins fyrir ekki neitt!
Ekki eru síður ánægjulegar þær fréttir að mér hefur loksins tekist að koma mér í liðið eftir meiðslin. Það tók lengri tíma að sannfæra þjálfarann en ég hafði gert ráð fyrir. Þó verð ég að segja að það er hollt fyrir alla að þurfa að berjast fyrir sæti í liðinu - þá er ég að tala um að komast í hópinn en ekki í byrjunarlið. Hinn markmaðurinn í liðinu mínu, hún Sarah, æfði með Slagelse síðastliðin tvö keppnistímabil og er mjög góð. Hún er byrjunarliðsmarkmaður og ég vara - ég er nú reynslubolti í þeim geiranum. Við keppum í Haderslev á Jótlandi á sunnudaginn við heimakonur þar í bæ. Vonandi krækjum við okkur í tvö stig þar og höldum okkur í toppbáráttunni.
posted by Soley |
23:31
mánudagur, nóvember 03, 2003
::: Hvað gerir maður ekki fyrir súkkulaði? Hún dóttir mín á ekki langt að sækja dálæti sitt á súkkulaði. Verð víst að taka það á mig. Á sunnudaginn bað daman um brauð með súkkulaðiáleggi (pålægchokolade). Þá sagði ég henni að hún fengi það ef hún gæti stafað orðið súkkulaði. Og viti menn, hún fór létt með það - mömmunni til mikillar undrunar og ánægju. Þrátt fyrir að það sé langur tími síðan hún lærði stafina og sé farin að reyna vel við lesturinn þá fannst mér þetta nokkuð vel af sér vikið. Mjög mikilvægt að vera með svona smáatriði á hreinu ;-)
Helgin var afar notaleg hér á Voldumvej. Henni var eytt í bakstur (nema hvað!), þrif, spilamennsku, leik, göngutúr og mikla afslöppun. Nú erum við farin að telja dagana í Völu og Jóa en þau koma á fimmtudaginn í næstu viku til borgarinnar. Við eigum án efa eftir að skemmta okkur vel. Svona fyrir forvitna eigum við Þórmundur 12 ára sambandsafmæli þann 14. nóvember og ekki er nú verra að fagna því í góðum félagsskap.
posted by Soley |
19:49
miðvikudagur, október 29, 2003
::: Nýjustu tölur úr Rødovre Skole Sigurveig fór í heimsókn til skólahjúkrunarfræðingsins í dag. Fékk ég að fara með til að fylgjast með vexti og viðgangi dótturinnar. Í stuttu máli er Sigurveig hraust, í meðallagi há og þung og með ágæta sjón og heyrn. Fyrir fróðleiksfúsa reyndist hún vera 22,2 kíló að þyngd og 118,5 sentimetra há. Hún á þá bara eftir um það bil hálfan metra í mömmu sína og örlítið meira í pabba sinn.
posted by Thormundur |
13:09
sunnudagur, október 26, 2003
::: Vaknaði klukkutíma fyrr Sigurveig vaknaði klukkan sjö í morgun! Klukkutíma fyrr en venjulega um helgar. En samt vaknaði hún á sama tíma og alltaf. Ástæðan. Jú, klukkunni var flýtt um einn klukkutíma í nótt. Það þýðir auðvitað að nú munar ekki nema einum tíma á Íslandi og Danmörku.
Sigurveig bauð afa Dóra formlega í afmælið sitt í gær og varð mjög glöð þegar hann "óvænt" sagði já takk. Þar með verður að minnsta kosti einn fulltrúi stórfjölskyldunnar í afmælisveislunni. Pabbi og mamma voru hérna í fyrra þegar Sigurveig varð fimm. Afmælisveislan verður nokkuð stærri núna því núna býður Sigurveig öllum stelpunum úr bekknum hennar. 10 stykki þar. Það var nefnilega ákveðið á foreldrafundi nýlega að það yrði að bjóða annað hvort öllum stelpum eða öllum strákunum - nú eða öllum bekknum ef út í það er farið. Þetta er sjálfsagt mál og eðlilegt en flestir ætla nú að byrja á að bjóða stelpunum eða strákunum.
Ekki þarf að taka fram að Sigurveig er á þeim aldri núna að vænta má erfiðra spurninga í ætt við "af hverju er himinninn blár?" Ég lenti sérstaklega í erfiðum málum fyrir viku þegar við horfðum saman á hina klassísku kvikmynd "Aftur til framtíðar" með Michael J. Fox. "Af hverju vill hann fara til gamla daga?" var ein af þeim augljósari. "Hvernig fer maður til fortíðar?" Málið varð hins vegar nokkuð snúnara þegar mynd númer tvö var í sjónvarpinu í gærkvöldi en þar fer Fox bæði til framtíðar og fortíðar. Sú mynd er reyndar miklu síðri en sú fyrsta og töluvert "ljótari" þegar ung börn eru annars vegar. Hún var þó ekki sofnuð þegar sögupersónurnar hitta sjálf sig í framtíðinni, þrjátíu árum eldri. Þetta kallaði á margar spurningar - sem sumar voru einfaldlega best læknaðar með að syngja spyrjandann í svefn!
posted by Thormundur |
13:28
fimmtudagur, október 23, 2003
::: Stuttfréttir Allt gott að frétta héðan frá fjölskyldunni á Voldumvej. Sigurveig er komin á fullt aftur í skólann eftir vetrarfrí. Hún eyðir flestum stundum sínum hérna heima í að teikna, skrifa, syngja og leika í Barbie. Hún stækkar óðfluga enda verður daman bráðum 6 ára. Við fengum ánægjulegt símtal frá pabba um daginn - frá Flórída. Hann boðaði komu sína í afmælið! Sigurveig veit það ekki ennþá - þetta verður sjálfsagt besta afmælisgjöfin sem hún fær í ár. Við hlökkum mikið til.
Það er reyndar ekki eina heimsóknin sem við eigum von á. Vala og Jói koma 13. nóvember. Það verður frábært að fá þau í heimsókn og fá að dekra við þau. Hrabbý, Valur og ungarnir koma síðan 13. desember. Þau verða sett í sama dekurpakkann. Munu þessar heimsóknir einkennast af miklu kjafti, áti og skemmtun. EKki leiðinlegt. Set hér með "opinberlega" pressu á Elísabetu systur að finna sér helgi til að koma í húsmæðraorlof hingað til Køben.
Hér er orðið mjög kalt og allir farnir að hjóla, ganga um og hlaupa með húfu, trefil og vettlinga. Á svona stundum gæti maður vel hugsað sér að eiga bíl - en hins vegar er ég afar fegin þegar ég tek hjólið mitt út úr hjólageymslunni, sest á heitan hnakkinn og hjóla síðan fyrst fram hjá bílum sem þarf að skafa og síðan fram hjá bensínstöðinni þar sem allir eru að taka bensín. Þá er miklu betra, ódýrara og síðast en ekki síst heilsusamlegra að hjóla.
posted by Soley |
17:19
|
 |
|
 |
 |